Ár

tímaeining á braut einnar plánetu um stjörnu

Ár er tímaeining, sem miðast við göngu jarðar kringum sólina. Hvarfár er tíminn milli sólstaða og er hið náttúrulega árstíðaár. Sólár er umferðartími jarðar miðað við fastastjörnurnar og er 365,25636 dagar, en (gregorískt) almanaksár er 365,2425 dagar að meðaltali.

Vegna þess að árið er um það bil fjórðungi degi lengra en sem nemur heilum dögum ársins, er tímatalið hannað þannig að eitt ár er að jafnaði 365 dagar, nema að bætt er við aukadegi fjórða hvert ár (þegar ártalið er deilanlegt með tölunni 4). Þetta fjórða ár nefnist hlaupár og bætist aukadagurinn við febrúarmánuð. Undantekning er síðustu ár alda en þau eru ekki hlaupár, nema þegar talan 400 gengur upp í ártalinu, t.d. var árið 2000 hlaupár, en ekki árið 1900.

Árinu er enn fremur skipt upp í tólf mánuði, sem hafa misjafna lengd; ýmist 30 eða 31 sólarhringur, nema annar mánuður ársins, febrúar, hann hefur 28 daga, en 29 þegar hlaupár er.

Uppruni orðsins

breyta

Orðið ár er einkum notað sem tímaeining, 365 dagar eða 12 mánuðir, en þýddi líka að fornu góðæri og ársæld. Þá blótuðu menn til árs og friðar, eins og segir í fornum bókum. Ár er sama orð og år í dönsku og sænsku, year á ensku og skylt hornus í latínu sem merkir ársgamall. Í eldgamalli slavnesku var orðið jara notað í merkingunni vor. Af því mætti ætla að ár sé leitt af stofni sem annars vegar merkti tími, hins vegar ársæld.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  NODES