Árni Magnússon (1663 - ársbyrjun 1730) var handritasafnari og fræðimaður. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa safnað bókfellum og handritum á Íslandi og flutt til Kaupmannahafnar, en einnig fyrir jarðabók sem hann skrifaði með Páli Vídalín.

Teikning af Árna.

Árni fæddist á Kvennabrekku í Dölum. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar prests (síðar lögsagnari) og Guðrúnar Ketilsdóttur. Hann tók próf í guðfræði í Kaupmannahafnarháskóla. Hann varð aðstoðarmaður Tómasar Bartholin og síðar ritari við hið konunglega leyndarskjalasafn í Kaupmannahöfn 1697. Fjórum árum síðar varð hann prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.

Á árunum 1702 til 1712 var hann á Íslandi og tók saman hina frægu jarðabók og manntal ásamt Páli Vídalín.

Árni safnaði markvisst handritum á Íslandi og annars staðar og flutti í handritasafn sitt í Kaupmannahöfn þar sem þau voru rannsökuð, skrifuð upp og sum hver búin til prentunar. Hann fékk meðal annars handritasafn Þormóðs Torfasonar eftir lát hans 1719.

20. október 1728 varð mikill bruni í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir mikið björgunarstarf brann þar hluti af bókasafni Árna, auk bókasafns háskólans. Talið er að í brunanum hafi glatast mörg íslensk handrit.

Við Árna eru kenndar stofnanirnar Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku.

Frægar tilvitnanir

breyta
 
Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus (latína: villum) á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus (latína: villum). Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja.
 

Tenglar

breyta
  • Stofnun Árna Magnússonar Geymt 31 desember 2005 í Wayback Machine
  • Den Arnamagnæanske Samling Geymt 4 september 2009 í Wayback Machine
  • „Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur?“. Vísindavefurinn.
  • Hver var Árni Magnússon Geymt 18 júní 2017 í Wayback Machine af vef Árnastofnunar
  NODES