Íslandsstofa, er samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til að efla ímynd og orðspor Íslands. Hlutverk stofunnar er að sinna markaðs- og kynningarstarfi í þágu íslenskra útflutningsgreina og styðja þannig við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Íslandsstofa var stofnuð með lögum árið 2010[1]. Þann 1. september 2018 var lögunum breytt í þá veru að Íslandsstofa var gerð að sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt skipulagsskrá.

Í lögum um Íslandsstofu segir að markmið hennar sé að „efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum, laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins og styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis“.

Í stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, sitja sjö fulltrúar sem skipaðir eru á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ráðherra sem fer með utanríkismál tilnefnir tvo stjórnarmenn, ráðherra sem fer með ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköpunar einn og Samtök atvinnulífsins fjóra.

Samkvæmt lögum um Íslandsstofu er starfrækt útflutnings- og markaðsráð sem hefur það hlutverk að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Ráðherra sem fer með utanríkismál skipar 31 fulltrúa í ráðið til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara.

Heimildir

breyta
  1. lögum árið 2010
  NODES