Óðrun (úr dönsku: ådring) eða viðarmálun er aðferð við að mála eftirlíkingu af viðaráferð. Oft er þetta gert til að láta húsgögn, glugga og hurðir úr ódýrum eða gölluðum viði líta út eins og þau væru smíðuð úr eðalviði; til dæmis hnotu, eik eða íbenholti. Ef þetta er vel gert getur verið nánast ómögulegt að sjá muninn.

Skattholsskúffa úr furu með framhlið sem er óðruð til að líkjast hnotu.

Óðrun er einkum gerð með þeirri aðferð að slétta yfirborðið með því að spartla og slípa, mála síðan grunnlit (sem er mismunandi eftir viðartegundum) yfir yfirborðið með þekjandi málningu og þar yfir með lasúrmálningu: hálfgagnsærri hægþornandi málningu sem er mótuð í æðar og kvisti með sérstökum penslum, kömbum, svömpum og sköfum. Að lokum er lakkað með glæru lakki yfir allt saman.

Óðrun var sérstaklega algeng á 19. öld og í byrjun þeirrar 20. Þá smíðuðu húsgagnaverkstæði eða settu saman húsgögn úr ódýrum viðartegundum eins og furu og síðan var málari (óðrari) fenginn til að mála yfir þau með þessar aðferð. Óðrun þróaðist út í sérgrein innan málaraiðnar og sérhæfðir óðrarar unnu á mörgum húsgagnaverkstæðum.

Tengt efni

breyta
  NODES