Ólafur Tryggvason (963 - 9. september 1000) var konungur Noregs frá 995. Ólafur tók við af Hákoni jarli. Hann vann ötullega að útbreiðslu kristni í Noregi, á Íslandi og Grænlandi.

Ólafur Tryggvason
Fæddur
Ólafur Tryggvason

árið 960, staður óþekktur
Dáinn
Svoldur (Eyrarsundi) árið 999
DánarorsökDruknaði í Svoldarbardaga
Tímabil995 - 999
Þekktur fyrirKonungur Noregs. Þvinguð trúskipti á norðurlöndum frá norrænni trú yfir í kristna trú. Sendi Þangbrand trúboða til Íslands
MakiGeira Búrisláfsdóttir (lést eftir 3 ára hjónaband), Gyða Sigtryggsdóttir (afdrif óþekkt), Guðrún Járnskeggjadóttir (skildu eftir morðtilraun hennar á hendur Ólafi), Þyri Haraldsdóttir (gift til dauðadags Ólafs, framdi síðar sjálfsmorð)
BörnÓþekkt
ForeldrarTryggvi Ólafsson (faðir)
Ástríður Eiríksdóttir (móðir)

Sagnaarfur
Heimskringla

Ólafs saga Tryggvasonar

Konungasögur
Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk
Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta

Óláfsdrápa Tryggvasonar

Ormurinn langi í Svoldarorrustu árið 1000.

Ólafur var sonur Tryggva Ólafssonar, sem var undirkonungur í Víkinni og sonur Ólafs Geirsstaðaálfs, sem var einn af mörgum sonum Haraldar hárfagra. Haraldur gráfeldur lét drepa Tryggva og samkvæmt því sem Snorri Sturluson segir í Heimskringlu fæddist Ólafur rétt eftir að faðir hans var drepinn. Ástríður Eiríksdóttir móðir hans flúði með hann til Svíþjóðar en þegar Ólafur var þriggja ára ætlaði hún með hann til Sigurðar bróður síns í Garðaríki. Á siglingunni yfir Eystrasalt voru þau hertekin af eistneskum víkingum og hneppt í þrældóm hvort í sínu lagi. Ólafur gekk kaupum og sölum, hafnaði hjá manni sem hét Réas og var þar í sex ár og átti gott atlæti. Þá kom Sigurður móðurbróðir hans, bar kennsl á hann, keypti hann og tók með sér til Garðaríkis, þar sem hann ólst upp.

Þegar hann var fullvaxinn hélt hann í víkingaferðir um Eystrasalt og varð vel ágengt. Hann fór svo til Vindlands og giftist Geiru, dóttur Búrisláfs konungs þar, settist þar að og fór í ránsferðir, meðal annars til Skánar og Gotlands. En eftir þrjú ár dó Geira og þá fór Ólafur frá Vindlandi og hélt í víking, herjaði um allar strendur Norðursjávar, frá Fríslandi suður til Flæmingjalands og þaðan norður Englandsstrendur og til Skotlands, og síðan á Írlandi og aftur suður fyrir England.

Þegar hann kom í Syllingum (Scilly Islands) út af Cornwall-skaga hitti hann fyrir einsetumann sem kristnaði hann. Tók Ólafur skírn þar 988, hélt til Englands og fór nú með friði því hann vildi ekki herja á kristna menn. Þar hitti hann Gyðu, systur Ólafs kvaran konungs í Dyflinni á Írlandi, giftist henni og bjó í Englandi og á Írlandi næstu árin og gekk undir nafninu Áli.

Samkvæmt því er segir í Heimskringlu fékk Hákon Sigurðarson Hlaðajarl, er þá stýrði Noregi, fregnir af því að fyrir vestan haf væri konungborinn Norðmaður og sendi mann þangað til að njósna um hann en við það kviknaði áhugi Ólafs og varð úr að hann hélt áleiðis til Noregs með fimm langskip. Þegar til Þrændalaga kom reyndist Hákon jarl hafa bakað sér þar miklar óvinsældir og sneru Þrændir baki við honum þegar fréttist af komu Ólafs. Hákon lagði á flótta en fannst og var drepinn og Ólafur var tekinn til konungs. Hann gekk strax í að kristna Norðmenn með góðu eða illu og lét oft drepa eða limlesta þá sem ekki vildu taka skírn. Hann sendi líka Þangbrand trúboða til Íslands.

Þriðja kona Ólafs var Guðrún Járn-Skeggjadóttir; hún var dóttir höfðingja sem Ólafur hafði látið drepa. Hún gerði tilraun til að myrða Ólaf nóttina sem hún giftist honum; það mistókst og hún fór aftur til síns heima. Fjórða og síðasta kona Ólafs var Þyri Haraldsdóttir, systir Sveins tjúguskeggs Danakonungs, og hafði hún áður verið gift Búrisláfi Vindakonungi, sem verið hafði tengdafaðir Ólafs, en strokið frá honum. Ekki eru heimildir um nein börn Ólafs.

Sumarið 1000 sigldi Ólafur til Vindlands á Orminum langa og fleiri skipum til að heimta eignir sem Þyri átti þar en þegar hann sigldi til baka sátu þeir fyrir honum við eyna Svoldur, Sveinn tjúguskegg, Ólafur skautkonungur Svíakonungur og Eiríkur Hákonarson Hlaðajarl. Féll Ólafur konungur í Svoldarorrustu en sigurvegararnir skiptu Noregi á milli sín.

Frá Ólafi er sagt í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta


Fyrirrennari:
Hákon Sigurðarson Hlaðajarl
Noregskonungur
(995 – 1000)
Eftirmaður:
Eiríkur jarl
Sveinn jarl
Sveinn tjúguskegg


  NODES