Ólympíuleikarnir fornu

Ólympíuleikarnir fornu voru upphaflega hátíð Seifs í Grikklandi hinu forna en síðar var íþróttakeppnum bætt við hátíðina. Ólympíuleikarnir urðu þannig röð íþróttakeppna milli fulltrúa frá grísku borgríkjunum. Leikarnir voru hluti af Hellensku leikunum ásamt Pýþýsku leikunum, Nemeuleikunum og Isþmíuleikunum. Venja er að telja fyrstu Ólympíuleikana hafa verið haldna árið 776 f.Kr. Eftir að Rómaveldi lagði grísku ríkin undir sig héldu leikarnir áfram þar til Þeódósíus 1. bannaði þá árið 393 í viðleitni sinni til að gera Kristni að ríkistrú í öllu Rómaveldi. Leikarnir voru haldnir í Ólympíu á Pelopsskaga á fjögurra ára fresti, sem varð þekkt sem tímaeiningin olympias.

Íþróttahúsið í Ólympíu þar sem íþróttamenn æfðu sig.

Meðan á leikunum stóð ríkti vopnahlé, Ólympíufriðurinn, til að íþróttamenn gætu ferðast til leikanna og heim aftur óáreittir. Verðlaunin voru kransar úr ólífugreinum. Leikarnir urðu að pólitísku tæki borgríkjanna til að staðfesta yfirráð sín yfir öðrum ríkjum. Bandalögum var lýst yfir á leikunum og á ófriðartímum héldu prestar brennifórnir til að kalla guðina sér til fulltingis. Leikarnir voru líka notaðir til að breiða hellenska menningu um Miðjarðarhafssvæðið. Ólympíuleikarnir voru að hluta til trúarhátíð. Seifsstyttan í Ólympíu var eitt af sjö undrum fornaldar. Myndhöggvarar og skáld komu saman á Ólympíuleikunum til að sýna verk sín.

Á Ólympíuleikunum fornu var keppt í mun færri greinum en á Ólympíuleikum nútímans. Keppt var í nokkrum hlaupagreinum, hnefaleikum, glímu, kappreiðum og kappakstri á stríðsvögnum, auk fimmtarþrautar sem fólst í hlaupi, langstökki, kringlukasti, spjótkasti og glímu. Aðeins frjálsbornir grískir karlmenn máttu taka þátt í leikunum, þótt dæmi væru um að konur ættu stríðsvagna sem unnu til verðlauna. Að þeim skilyrðum uppfylltum var þátttaka í leikunum opin keppendum frá öllum grísku ríkjunum. Dómarar voru kallaðir hellanodikai. Alexander 1. af Makedóníu fékk aðeins að taka þátt eftir að dómararnir höfðu skorið úr um grískan uppruna hans.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES