Öskjuhlíð
64°07′46″N 21°55′11″V / 64.12944°N 21.91972°V
Öskjuhlíð er stórgrýtt hæð í Reykjavík, austan við Reykjavíkurflugvöll og vestan við Fossvogskirkjugarð, rétt norðan við Fossvoginn og Nauthólsvík. Hún nær 61 m yfir sjávarmál. Hæðin er útivistarsvæði og í vesturhlíðinni hefur verið mikil skógrækt frá 1950. Efst uppi á Öskjuhlíð eru sex hitaveitutankar. Einn þeirra gegnir ekki lengur því hlutverki að geyma heitt vatn, heldur hefur þar verið komið fyrir sögusýningu þar sem Íslandssagan er rakin. Ofaná tönkunum er áberandi hvolfþak úr gleri sem er kallað Perlan. Er þar rekin veitingastaður og eru útsýnissvalir allt í kringum hana.
Í Öskjuhlíð er hægt að sjá mikið af bæði jarðsögulegum og menningarsögulegum minjum. Berggrunnur Öskjuhlíðar er Reykjavíkurgrágrýtið sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Jökulsorfið berg frá síðustu ísöld er til dæmis að finna nálægt Nauthólsvík. Skógur virðist hafa verið í hlíðinni frá upphafi og líklega hefur verið þar seljabúskapur. Þar er einnig að finna merki þess að sjávarhæð hafi verið hærri. Fyrir 10 þúsund árum var sjávarstaða mun hærri og þá var Öskjuhlíð eyja. Þegar gerð Reykjavíkurhafnar hófst 1913 var lögð járnbraut úr hlíðinni niður að höfninni til að flytja efni til hafnargerðarinnar.
Í síðari heimsstyrjöldinni reistu Bandamenn ýmis mannvirki í hlíðinni og héldu áfram grjótnámi þar nálægt þar sem íþróttafélagið Mjölnir er til húsa. Meðal mannvirkja sem byggð voru má nefna steypt skotbyrgi, víggrafir, loftvarnabyrgi, geymslur, fjölda gólfa og grunna undan bröggum, vegi og háa grjótveggi. Allstór braggabyggð var í vestur og suður Öskjuhlíð á stríðsárunum. Fyrsti heitavatnstankurinn var reistur 1940. Upprunalegu tankarnir voru síðan rifnir og endurbyggðir 1986 til 1987 og Perlan byggð ofan á þá.
Gróður og dýralíf
breytaGróðurlendi í Öskjuhlíð eru margbreytileg. Við landnám var hlíðin án efa gróin birkikjarri sem ábúendur í Reykjavík og nálægum býlum nýttu sem eldivið. Á fyrri hluta 20. aldar einkenndist gróðurfar Öskjuhlíðar af lítt grónum holtum og mólendi en eystri hluti hlíðarinnar af votlendi og ræktuðum túnum. Mólendið er vaxið bláberja-, beiti- og krækilyngi en túnin skarta fjölbreyttum grastegundum auk fallegra breiða af brennisóley, túnfífli, hvítsmára og vallhumli.
Um miðja 20. öld hófst skógrækt í vestur- og suðurhlíðum Öskjuhlíðar og er þar nú nær samfelldur skógur þar sem birki, bergfura, stafafura, sitkagreni og alaskaösp eru algengustu trjátegundir. Hæstu barrtrén eru yfir 15 metrar. Nokkuð er um sjálfsánar reyniviðarplöntur auk fleiri trjátegunda. Töluverður undirgróður er í skóginum nema þar sem barrtrén eru þéttust. Algengar háplöntur í skóglendinu eru maríustakkur, hrútaberjalyng, krossmaðra, snarrótarpuntur og vallelfting. Töluvert vex af lúpínu í skógarjaðrinum.
Fuglalíf er auðugt í Öskjuhlíð og hafa yfir tíu tegundir verpt þar. Spörfuglar eru mest áberandi í skóg- og kjarrlendinu einkum skógarþröstur og auðnutittlingur en einnig stari og svartþröstur. Þá hafa nýlegir landnemar svo sem glókollur og krossnefur sést í Öskjuhlíð. Ýmsir vaðfuglar hafa verpt í Öskjuhlíð m.a. tjaldur, sandlóa, heiðlóa, hrossagaukur og stelkur. Margir aðrir fuglar eru tíðir gestir á svæðinu svo sem hrafn, maríuerla, þúfutittlingur, ýmsar máfategundir, grágæs og aðrir andfuglar. Æðarfuglar eru áberandi í Fossvoginum neðan við hlíðina. Kanínur hafa verið áberandi í Öskjuhlíð. Um er að ræða villtar og hálfvilltar kanínur sem eru afkomendur gæludýra sem hefur verið sleppt lausum en slíkt hefur verið stundað um árabil. Um 30-40 kanínur halda sig í Öskjuhlíð að staðaldri.[1]