Únítarismi er trúarhreyfing sem jafnan er talin frjálslynd kristin kirkjudeild. Guðfræðilega séð er aðaleinkenni únitarisma það að hafna þrenningarkenningunni og líta þess í stað á guð sem einn og óskiptan. Únítarar líta á trú sína sem hina upprunalegu kristni. Þeir líta á Jesús sem spámann fremur en holdgerving Guðs á jörðu en trúa þó á kenningar hans eins og aðrir kristnir. Únitarar telja að Jesús hafi verið til en verið mennskur og aðeins verið „sonur“ guðs á óbeinan hátt, eins og allir aðrir menn, þótt þeir byggi siðferðishugmyndir sínar á boðskap hans. Únitarar hafna ýmsum fleiri kenningum sem aðrar kirkjudeildir aðhyllast, svo sem erfðasyndinni, útvalningarkenningunni og óskeikulleika Biblíunnar. Flestir nútímaúnítarar hafna auk þess hugmyndum um eilífar kvalir í helvíti. Hreyfingin í sinni núverandi mynd á rætur að rekja til mið/austur-Evrópu á 16. öld og breiddist smám saman út til annarra svæða. Innan únitarakirkjunnar hafa löngum verið margir ákafir friðarsinnar og sumir hafnað herþjónustu eða öðrum valdatækjum ríkisins. Þeir hafa því víða verið illa séðir af yfirvöldum, auk þess sem aðrar kristnar kirkjudeildir hafa álitið þá villutrúarmenn.

Únítarismi á Íslandi

breyta

Á Íslandi starfar ekkert skráð trúfélag únítara en á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu áttu hugmyndir þeirra nokkurn hljómgrunn meðal Íslendinga. Hafði boðskapur þeirra borist frá Íslendingum sem höfðu flutt til Ameríku og kynnst hreyfingunni þar. Þeirra frægastur er kannski Matthías Jochumsson, sem aðhylltist únitarisma um tíma, meðal annars þegar hann samdi sálminn sem er núverandi þjóðsöngur Íslands, „Ó Guð vors lands“.

Nokkuð var um únítara á Íslandi í kringum aldamótin 1900. Manntölin 1880-1920 gefa fjölda þeirra upp svo:

  • 1880 4
  • 1890 1
  • 1901 36
  • 1910 25
  • 1920 5

Bæði í manntalinu 1880 og 1901 eru únítarar fjölmennasti trúflokkurinn utan Þjóðkirkjunnar.

   Þessi trúarbragðagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES