Útselur (fræðiheiti: Halichoerus grypus) er stór selur sem er útbreiddur báðum megin Norður-Atlantshafsins. Hann er eina tegundin í ættkvíslinni Halichoerus. Útselur er önnur tveggja selategunda sem kæpa við Ísland - hin tegundin er landselur. Útselur hefur líka verið nefndur haustselur þar sem hann kæpir á haustin, ólíkt landsel sem kæpir á vorin.

Útselur

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Ætt: Selaætt (Phocidae)
Ættkvísl: Halichoerus
Nilsson, 1820
Tegund:
Útselur

Tvínefni
Halichoerus grypus
(Fabricius, 1791)
Heimkynni útsels
Heimkynni útsels

Einkenni

breyta
 
Brimill á leið í land

Útselir eru mjög stórir, allt að tvöfalt stærri en landselir. Fullorðinn brimill getur náð yfir þriggja metra lengd og orðið 300 kílógrömm að þyngd en urturnar verða sem stærstar um 2 m lengd og 180 kg. Útselir hafa stórt og langt höfuð, sérlega brimlarnir sem hafa hærra nef og stærra höfuð en urturnar. Urturnar eru gráar að lit með dökkum flekkjum að ofan, en ljósari á kviðinn. Brimlarnir eru hins vegar næstum einlitir dökkir. Bæði augu og eyru sitja hátt á höfðinu sem gerir að útselurinn getur horft í kringum sig án þess að reisa höfuðið hátt upp úr sjávaryfirborðinu.

Útbreiðsla

breyta
 
Útbreiðsla útsels

Útselir lifa við strendur Norður-Atlantshafs bæði að austan og vestan aðgreindir í þrjá stofna.

Óvíst er hversu stór vesturstofninn er en áætlað er að hann sé um 150.000 dýr, flest við og í St. Lawrence flóanum. Áætlaður fjöldi í austurstofninum er um 130.000 dýr (aðallega í kringum Bretlandseyjar) og einungis um 7.000 í Eystrasaltsstofninum.

Æti og lifnaðarhættir

breyta
 
Kópur á strönd í Færeyjum

Útselir lifa á fiski, eins og landselir, en vilja stærri bráð. Aðalfæðutegundirnar eru þorskur, marhnútur, hrognkelsi, steinbítur og síli. Þeir kafa allt niður á 70 metra dýpi. Sjómönnum er oft illa við útselinn og saka hann um að bíta og skemma fisk í netum.

Útselir eru mun styggari en landselir og halda sig því að jafnaði lengra frá landi. Þeir sjást aðallega á skerjum og annesjum.

Útselir við Ísland virðast vera einkvænisdýr þótt fjölkvæni virðist algengara hjá útselsstofnum annars staðar. Á Íslandi kæpa útselir á haustin, september til nóvember. Látrin eru gjarnan á stöðum sem eru illa aðgengilegir fyrir landdýr, til dæmis á eyjum eða skerjum. Brimlarnir byrja á að helga sér svæði og verja fyrir öðrum brimlum. Urturnar koma sér fyrir þar og eiga eitt afkvæmi. Kóparnir fæðast í fósturhárunum sem eru hvít að lit og þola illa að blotna. Kóparnir halda sig því á þurru landi þar til þeir hafa skipt um feld. Kóparnir fæðast um 80 cm langir og um 12 kg þungir. Þeir eru á spena í 3 vikur og þyngjast verulega á þeim tíma. Fengitími fullorðnu selanna hefst nokkrum vikum eftir að kópurinn hættir á spena. Seinkun fósturþroska útsels nemur 102 dögum. Á meðan á kæpingar- og fengitíma stendur étur útselurinn ekkert og megrast mjög.

 
Útselir á skeri

Útselsurtur verða kynþroska um 5 ára aldur en brimlarnir 2 til 3 árum síðar. Eitt tilvik er þekkt á Íslandi þar sem útselir hafa náð meira en 40 ára aldri þó þeir verði ofast 15 til 25 ára.

Útselir við Ísland

breyta

Útselurinn finnst allt í kringum landið nema helst við norðaustur- og austurland. Við talningu haustið 2005 var stærð útselsstofnsins við Ísland metin um 6000 dýr en í síðustu heildartalningu árið 2002 var hún metin um 5500 dýr. Stofninn hafði þá minnkað umtalsvert frá 1990 þegar hann var talinn um 12 þúsund dýr.[1]

Veiði og nyt

breyta

Selir hafa verið veiddir við landið allt frá landnámi. Útselur hefur þó ekki verið nýttur eins mikið og landselur á Íslandi og ekki verið mikið veiddur vegna skinna. Kjötið var nýtt til matar áður á þeim bæjum þar sem útselslátur voru. Var þar flest nýtt, selkjötið og spiki soðið og borðað nýtt eða saltað, reykt eða súrsað og það sama með selshausana.[2].

Selormurinn

breyta

Útselurinn veldur miklum óbeinum kostnaði í fiskvinnslu sem hýsill selorms (Pseudoterranova decipiens) en hann verður að hreinsa úr fiskflökum. Selormurinn verður kynþroska í selnum og egg hans berast út með saur selsins. Lirfa selormsins festir sig við botninn og bíður þar til smákrabbadýr eiga leið hjá og sest að í þeim. Stærri botndýr éta þau minni og selormurinn kemst síðan í fiska sem éta stóru botndýrin. Að lokum kemst selormurinn svo aftur í selinn þegar hann étur fiskinn.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Nytjastofnar sjávar 2005/2006“ (PDF). Sótt 29. mars 2007.
  2. „Nýting selkjöts til manneldis“ (PDF). Sótt 29. mars 2007.
  3. „Selir við Ísland Kennsluefni í sjávarlíffræði SJL1103“ (PDF). Sótt 29. mars 2007.

Heimildir

breyta
  • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur (2004): Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík. ISBN 9979-2-1721-9
  • Ronald M. Nowak: Walker's Mammals of the World. Johns Hopkins University Press, 1999 ISBN 0-8018-5789-9

Ítarefni

breyta
  NODES