Þrælastríðið

Borgarastríð í Bandaríkjunum (1861–1865)

Þrælastríðið eða bandaríska borgarastríðið (e. American Civil War) var borgarastyrjöld sem geisaði í Bandaríkjunum á árunum frá 1861 til 1865 á milli sambandsstjórnarinnar eða „Sambandsins“ og ellefu suðurríkja sem lýstu yfir sjálfstæði frá Bandaríkjunum. Ríkin mynduðu Suðurríkjasambandið með Jefferson Davis sem forseta. Norðurríkin, með Abraham Lincoln sem forseta, vildi leggja niður þrælahald og hafnaði rétti fylkjanna til aðskilnaðar. Átökin hófust 12. apríl 1861 þegar her Suðurríkjanna réðist á Sumter-virki í Suður-Karólínu.

Þrælastríðið

Málverkið sýnir her Norðurríkjanna gera árás á virki Suðurríkjasambandsins Fort Wagner
Dagsetning12. apríl 18619. maí 1865 (4 ár, 3 vikur og 6 dagar)
Staðsetning
Sunnan-, norðaustan- og vestanverð Bandaríkin og Atlantshaf
Niðurstaða Bandarískur sigur. Suðurríkjasambandið leyst upp og limað inn í Bandaríkin á ný. Þrælahald bannað í Bandaríkjunum og svörtum karlmönnum veittur kosningaréttur.
Stríðsaðilar
Bandaríkin Bandaríkin Suðurríkjasambandið
Leiðtogar
Bandaríkin Abraham Lincoln
Bandaríkin Ulysses S. Grant
Bandaríkin William T. Sherman
Jefferson Davis
Robert E. Lee
Fjöldi hermanna
2.200.000 750.000–1.000.000[1]
Mannfall og tjón
828.000+ manns drepnir 864.000+ manns drepnir

Meginorsök stríðsins var langvarandi ágreiningur um framtíð þrælahalds í Bandaríkjunum, einkum deilur á milli norðurríkjanna og suðurríkjanna um það hvort þrælahald skyldi heimilað í nýjum fylkjum og landsvæðum sem bættust við yfirráðasvæði landsins. Suðurríkin, þar sem vinnuafl svartra þræla var rótgróinn hluti af efnahags- og landbúnaðarkerfinu, lýstu yfir sjálfstæði frá Bandaríkjunum eftir að Abraham Lincoln, sem var fylgjandi afnámi þrælahalds, var kjörinn forseti árið 1860.

Í stríðinu birtust margar nýjungar sem ekki höfðu litið dagsins ljós í stríði fyrr og varð mikið mannfall. Þrælahald var afnumið með stjórnarskrárbreytingu stuttu áður en stríðinu lauk.

Helstu deiluefni

breyta

Á árunum 1840 til 1860 var mikill munur á þjóðfélagsgerð í ríkjum norðurhluta Bandaríkjanna og í ríkjum suðurhlutans. Í Suðurríkjunum var nánast hreint búnaðarsamfélag og borgir því frekar smáar og tiltölulega fáar. En í Norðurríkjunum voru iðnaðarborgir að vaxa og dafna og iðnvæðingin að komast á skrið. Borgarastéttin var að styrkjast og verkalýðstéttin einnig. Norðurríkin vildu að ein alríkisstjórn væri í öllu landinu og hafa verndartolla til að vernda vaxandi iðnað ríkjanna. Suðurríkjamenn vildu frekar að hvert ríki væri sjálfstætt enda seldu þeir mestan hluta baðmullarframleiðslu sinnar til Bretlands og gátu þannig keypt iðnvarning tollfrjálst.[2][3]

Á þessum tíma ríkti pólitískt jafnræði sem byggði á því, að ríki sem leyfðu þrælahald væru jafnmörg þeim sem leyfðu það ekki. Þrælahald var leyft í Suðurríkjunum en ekki í Norðurríkjunum. Þegar farið var að byggja landið í vesturátt, meðal annars með lagningu járnbrautar, jókst óánægja þrælaríkjanna þar sem þetta nýja byggðasvæði þótti ekki hentugt til þrælahalds. Þar með var jafnvæginu ógnað.[4]

Í Bandaríkjunum var þrælahald mikið deiluefni á milli stórbænda úr suðurhluta landsins og miðstéttarfólks og þéttbýlisbúa frá norðurhluta landsins. Ríki í suðurhluta landsins gátu ekki verið án þræla vegna þess að þeir unnu á plantekrunum sem héldu uppi efnahag Suðurríkjanna. Frá lokum 18. aldar hafði ekki verið þrælahald í neinum ríkjum fyrir norðan Maryland þar sem þrælahald hafði verið afnumið.[5]

Árið 1845 hófu Bandaríkin stríð við Mexíkó og unnu þar nokkurt landsvæði. Því stríði lauk með sigri Bandaríkjamanna árið 1848 og fengu þeir ný landsvæði sem nefnast í dag Kalifornía, Nýja Mexíkó og Texas. Með þessu hitnaði aftur upp í þrælahaldsdeilunni og vildu Norðurríkin banna þrælahald í þessum nýju ríkjum. En Suðurríkin vildu frekar að hvert ríki tæki sjálfstæða ákvöðun um hvort þau myndu taka upp þrælahald eða ekki.[6]

Nokkrir fleiri atburðir kyntu enn frekar undir deilum um framtíð þrælahalds í Bandaríkjunum um miðja 19. öld. Árið 1857 dæmdi hæstiréttur Bandaríkjanna í Dred Scott-málinu svokallaða og úrskurðaði að blökkumenn gætu ekki undir neinum kringumstæðum verið bandarískir ríkisborgarar. Hæstirétturinn úrskurðaði einnig að alríkinu væri óheimilt að banna ríkisborgurum að fara með þræla sína hvert sem þeim sýndist og ógilti þar með í reynd allar lagalegar takmarkanir sem settar höfðu verið á flutning og sölu þræla í Bandaríkjunum. Norðurríkjamenn voru öskureiðir yfir dómnum og töldu að með honum væri í reynd verið að þröngva þrælahaldi upp á öll Bandaríkin.

Árið 1859 reyndi róttækur afnámssinni að nafni John Brown að hvetja til þrælauppreisnar í suðurríkjunum. Brown var handtekinn og hengdur eftir að menn hans gerðu árás á vopnabúr alríkisins í Harpers Ferry til að geta vopnað uppreisnarhreyfingu gegn þrælaeigendum. Árásir hans sannfærðu marga suðurríkjamenn um að norðurríkin myndu ekki leyfa þeim að halda þrælum sínum til lengdar.[7]

Klofnun Bandaríkjanna

breyta

Demókratar höfðu lengi stjórnað landinu og var partur flokksins fylgjandi þrælahaldi. Einn þeirra sem studdi þrælahald var John Breckenridge sem bauð sig fram til embættis Bandaríkjaforseta árið 1860 gegn Abraham Lincoln.[8] Breckenridge fékk þá flest öll atkvæðin frá Suðurríkjunum. Abraham Lincoln var í framboði fyrir Repúblikanaflokkinn sem hafði þá nýlega verið stofnaður eða árið 1854. Flokkurinn var stofnaður af andstæðingum þrælahalds og var fyrsta viðfangsefni flokksins að fella úr gildi Kansas–Nebraska lögin. Þessi lög leyfðu þrælahald í vesturhluta Bandaríkjanna. Demókratar sem aðhyltust afnám þrælahalds gengu inn í flokkinn ásamt Vigga-flokkinum.[9]

Þann 6. nóvember árið 1860 var Abraham Lincoln kjörinn 16. forseti Bandaríkjanna, sá fyrsti fyrir Repúblikanaflokkinn.[10][11] Hann var mikill andstæðingur þrælahalds en taldi sig ekki geta beitt sér gegn því þar sem í stjórnarskrá kom fram að sú ákvörðum lægi hjá hverju ríki fyrir sig.[12][13] Þegar hann var kjörinn höfðu Suðurríkjarmenn fengið nóg og sagði Suður-Karólína sig formlega úr Bandaríkjum Norður-Ameríku þann 20. desember árið 1860. Á sama tíma lýsti Suður-Karólína því yfir að Bandaríkin væru að leysast upp en Lincoln reyndi að stöðva þá með því að segja að ríkin gætu ekki aðskilið sig hvort frá öðru. Íbúar Norðurríkjanna töldu íbúana í suðri vera afturhaldssinna en Suðurríkjarmenn gátu þá ekki lengur treyst Norðurríkjarmönnum og töldu þá vísa um svik.[14] Þetta leiddi til þess að tíu ríki til viðbótar sögðu sig úr Bandaríkjunum og voru það þau Mississippi, Flórída, Texas, Alabama, Georgía, Louisiana, Arkansas, Tennessee, Norður-Karólína og Virginía. Þessi ellefu ríki sameinuðust svo og mynduðu Suðurríkjarsambandið í febrúar árið 1861 en sambandið hafði sína eigin stjórnarskrá og var Jefferson Davis skipaður forseti sambandsins.[15]

Framgangur stríðsins

breyta
 
Málverk sem sýnir orrustuna við Gettysburg.

Á þessum tíma er mannfjöldi Norðurríkjanna 7 x meiri en Suðurríkjanna og má því í raun segja að Suðurríkin hafi aldrei átt raunhæfan möguleika á að halda sjálfstæði sínu ef nokkur alvara var hjá andstæðinginum. Þann 12. apríl 1861 hefja sunnanmenn fallbyssuskothríð á virki Norðurríkjamanna, Fort Sumter. Hernaðaráætlun Suðurríkjanna virtist afar einföld og hugðust þeir verða að sjálfstæðu ríki. Þá lögðu Bandaríkin á það ráð að leggja hafnarbann á þá og hertaka Richmond, sem var höfuðborg þeirra í Virginiu. Suðurríkjamönnum gekk þó mun betur fyrri hluta stríðsins þar sem þeir sigruðu orrustur við Bull Run í Virginíu árið 1861 og við Washington árið 1862. Árið 1862 varð herkvaðning í Suðurríkjunum þar sem erfiðlega gekk að fá sjálfboðaliða í herinn. Árið 1863 gerðist það sama í Norðurríkjunum og þá breytti þingið einnig lögum um að blökkumenn eða strokuþrælar mættu ganga í herinn. Um 200.000 blökkumanna gengu í herinn, en áður fyrr höfðu aðeins verið hvítir í báðum herjunum. Robert E. Lee, hershöfðingi Suðuríkjanna, reyndi að ráðast inn í Norðurríkin árið 1863 en tapaði orrustu sem varð við Gettysburg í Pennsylvaníu.[16]

Árið 1863 náði Norðurríkjaher að einangra Arkansas, Tennessee og Texas frá hinum Suðurríkjunum undir stjórn Ulysses S. Grant þegar hann tók Vicksburg í Missisippi. Þá varð hann gerður að yfirhershöfðinga árið 1864 og vann hann sigur á Lee og herliði hans í Virginíu. Hermönnum Suðurríkjana fækkaði þá um 60.000 menn. Þann 3. apríl 1865 gafst Lee upp fyrir Grant eftir að höfuðborg Suðurríkjasambandsins hafði fallið í hendur Norðurríkjamanna og lauk þar stríðinu með sigri Norðurríkjanna.[17]

Félagslegar breytingar og tækninýjungar

breyta

Stríðið var þó aldrei háð til að frelsa þrælana en svo skrifar Lincoln árið 1862. Fremsta ástæða stríðsins var sú að hindra það að Bandaríkin myndu leysast upp og þannig halda ríkisheildinni saman. Árið 1862 skrifaði Abraham Lincoln þó tilskipun um að frelsa þrælana í ríkjum Suðurríkjanna. Þessu fylgdi breyting á stjórnarskrá landsins sem var gerð 1865 og var þá þrælahald afnumið í öllum Bandaríkjunum. Nokkrum árum síðar fengu blökkumenn kosningarrétt og gátu gerst fullþegnar með nýrri stjórnarskrárbreytingu en sú breyting stóð um öll Bandaríkin til 1877.[18]

Nokkrar nýjar framfarir í hernaði gerðust á þessum tíma. Upplýsingar bárust þá hratt á milli staða, þar sem skilaboð voru símsend í fyrsta sinn. Einnig voru herskipin í fyrsta sinn varin með járni og járnbrautir fluttu fólk og vistir hratt á milli vígstöðva. Blöð fluttu einnig daglega tíðindi af framþróun stríðsins. Mannfall í þessu stríði var gífurlegt og féllu um 635.000 manns og særðust um 375.000 manns. Auk þess var efnahagur Suðurríkjanna lagður í rúst þar sem undirstaðan, sem voru ódýrt vinnuafl eða þrælar, var ekki lengur til staðar.[19]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Long, E. B. The Civil War Day by Day: An Almanac, 1861–1865. Garden City, NY: Doubleday, 1971, bls. 705.
  2. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, bls. 46.
  3. Reinar Ágúst Foreman og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um Abraham Lincoln og af hverju var hann svona frægur?“. Vísindavefurinn 24.6.2008. http://visindavefur.is/?id=16734. (Skoðað 13.4.2010).
  4. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, bls. 46.
  5. Berndl o.fl., bls. 428.
  6. Berndl o.fl., bls. 427-428.
  7. Avery Craven, The Growth of Southern Nationalism, 1848–1861 (1953).
  8. Berndl o.fl., bls. 428 og Guerrero, bls. 314.
  9. Berndl o.fl., bls. 428.
  10. Reinar Ágúst Foreman og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um Abraham Lincoln og af hverju var hann svona frægur?“. Vísindavefurinn 24.6.2008. http://visindavefur.is/?id=16734. (Skoðað 13.4.2010).
  11. Berndl o.fl., bls. 428.
  12. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, bls. 46.
  13. Reinar Ágúst Foreman og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um Abraham Lincoln og af hverju var hann svona frægur?“. Vísindavefurinn 24.6.2008. http://visindavefur.is/?id=16734. (Skoðað 13.4.2010).
  14. Everett, bls. 171.
  15. Berndl o.fl., bls. 428 og Guerrero, bls. 314.
  16. Guerrero, bls. 314-315.
  17. Berndl o.fl., bls. 429 og Guerrero, bls. 315.
  18. Everett, bls. 171 og Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarson, bls. 46-47.
  19. Guerrero, bls. 315.

Heimildir

breyta
  • Berndl, Klaus, Markus Hattstein, Arthur Knebel og Hermann-Josef Udelhoven. Saga mannsins. Frá örófi fram á þennan dag. Ásdís Guðjónsdóttir (þýð.), Illugi Jökulsson (ritstj.) (Reykjavík: Skuggi, 2008).
  • Eicher, David J., The Longest Night: A Military History of the Civil War (New York: Simon & Schuster, 2002)
  • Everett, Susanne. Þrælahald. Saga mikils mannkynsböls í máli og myndum. (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1986).
  • Guerrero, Angeles Gavira. Sagan. Leiðsögn í máli og myndum. (Reykjavík: JPV útgáfa, 2009).
  • Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson. Nýir tímar. Saga Íslands og umheimsins frá lokum 18. aldar til árþúsundamóta. (Reykjavík: Mál og menning, 2008).

Tenglar

breyta
  • Skúli Sæland (9. september 2004). „Börðust indjánar í Þrælastríðinu?“. Vísindavefurinn. Sótt 22. febrúar 2024.
  • Gréta Hauksdóttir (24. júlí 2020). „Hvað getið þið sagt mér um Þrælastríðið í Bandaríkjunum?“. Vísindavefurinn. Sótt 22. febrúar 2024.
  NODES
Done 1
jung 3
jung 3
see 3
Story 1