Armin Laschet

Þýskur stjórnmálamaður

Armin Laschet (f. 18. febrúar 1961) er þýskur stjórnmálamaður, fyrrverandi forsætisráðherra þýska sambandslandsins Norðurrínar-Vestfalíu og fyrrverandi formaður Kristilega demókrataflokksins. Hann var kjörinn flokksleiðtogi Kristilegra demókrata eftir rafrænar kosningar þann 16. janúar 2021.[1][2] Laschet sagði af sér eftir lélegt gengi Kristilegra demókrata í þingkosningum árið 2021.[3]

Armin Laschet
Armin Laschet árið 2023.
Forsætisráðherra Norðurrínar-Vestfalíu
Í embætti
27. júní 2017 – 26. október 2021
ForveriHannelore Kraft
EftirmaðurHendrik Wüst
Formaður Kristilega demókrataflokksins
Í embætti
22. janúar 2021 – 31. janúar 2022
ForveriAnnegret Kramp-Karrenbauer
EftirmaðurFriedrich Merz
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. febrúar 1961 (1961-02-18) (63 ára)
Aachen, Norðurrín-Vestfalíu, Vestur-Þýskalandi (nú Þýskalandi)
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn (CDU)
MakiSusanne Malangré (g. 1985)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn3
HáskóliLudwig-Maximilian-háskólinn í München
Háskólinn í Bonn
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Armin Laschet er kominn af ætt kaþólskra námuverkamanna og er elstur fjögurra bræðra.[4] Fjölskylda hans bjó í hverfinu Burtscheid í Aachen. Í föðurætt er Laschet ættaður frá þýskumælandi hluta Vallóníu í Belgíu, en föðurafi hans fluttist þaðan til Þýskalands á þriðja áratuginum. Faðir hans, Heinrich (f. 1934), sem var umsjónarmaður í kolanámunni Grube Anna, vann í seinni tíð sem grunnskólakennari, en móðir hans, Marcella Lachet (f. Frings; 1933-2013) var heimavinnandi húsmóðir.[5][6] Líkt og móðir sín var Armin Laschet virkur í kaþólska söfnuðinum í Aachen.[7]

Laschet lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum Bischöfliches Pius-Gymnasium í Aachen árið 1981 og nam lögfræði frá 1981 til 1985 í München og Bonn.[7]

Starfsferill

breyta

Að loknu laganámi nam Laschet blaðamennsku og vann sem verktaki hjá útvarps- og sjónvarpsstöðvum í Bæjaralandi. Hann var jafnframt vísindaráðgjafi forseta þýska sambandsþingsins. Frá 1991 til 1994 var hann ritstjóri kaþólska tímaritsins KirchenZeitung Aachen. Sóknarpresturinn í Aachen veitti Laschet áminningu fyrir að skrifa útdrátt um málssókn gegn presti fyrir kynferðisofbeldi og fyrir að skrifa að yfirmaður prestsins hefði haft „banvæna tilhneigingu“ til að hylma yfir með glæpum undirmanna sinna.[8] Frá 1995 til 1999 var Laschet formaður kaþólska útgáfufélagsins Einhard-Verlag GmbH.[9]

Stjórnmálaferill

breyta

Laschet gekk í Kristilega demókrataflokkinn þegar hann var 18 ára árið 1979. Hann sat í borgarstjórn Aachen frá 1989 til 2004. Hann sat á þýska sambandsþinginu frá 1994 til 1998 og frá 1999 til 2005 var hann þingmaður á Evrópuþinginu.[9] Frá 2005 til 2010 var Laschet ráðherra í málefnum eldri borgara, fjölskyldna, kvenna og samþættingar í ríkisstjórn Norðurrínar-Vestfalíu. Í júní 2010 varð hann leiðtogi héraðsdeildar Kristilega demókrataflokksins í Norðurrín-Vestfalíu og frá 18. desember 2013 var hann þingflokksleiðtogi Kristilegra demókrata á landsþingi sambandslandsins. Frá 2012 til 2021 var Laschet einn af fimm varaleiðtogum Kristilega demókrataflokksins í Þýskalandi.[10]

Í júní árið 2017 varð Laschet forsætisráðherra Norðurrínar-Vestfalíu.[11]

Leiðtogi Kristilega demókrataflokksins

breyta
 
Armin Laschet tók við af Annegret Kramp-Karrenbauer sem flokksleiðtogi árið 2021.

Þann 10. febrúar 2020 tilkynnti Annegret Kramp-Karrenbauer, formaður Kristilega demókrataflokksins, að hún hygðist segja af sér. Var þá gert ráð fyrir að kosið yrði um formannsembættið á landsþingi flokksins haustið 2020.[12]

Laschet tilkynnti þann 25. febrúar 2020 að hann hygðist gefa kost á sér í formannskjöri flokksins.[10] Upphaflega átti landsþingið að fara fram í desember 2020 en vegna kórónaveirufaraldursins í landinu var því frestað fram í janúar 2021.[13]

Í formannskjörinu keppti Laschet við Friedrich Merz og Norbert Röttgen.[14] Merz var þingflokksformaður Kristilegra demókrata og Kristilega sósíalsambandsins á sambandsþinginu en Röttgen var formaður utanríkismálanefndar þingsins.

Á landsþinginu kusu 1001 kjörmenn flokksins um nýjan formann. Af þeim greiddu 992 gild atkvæði í fyrstu umferð. Niðurstaðan varð sú að Merz lenti í fyrsta sæti með 385 atkvæði en Laschet kom skammt á eftir með 380. Röttgen fékk 224 atkvæði og komst því ekki í aðra umferð. Í seinni umferðinni voru greidd 991 atkvæði. Laschet vann þar sigur með 521 atkvæðum gegn 466 sem Merz hlaut og var þar með kjörinn flokksformaður CDU.[15][16][17]

Eftir formannskjör sitt lýsti Laschet yfir vilja til þess að verða kanslaraefni Kristilegra demókrata í þingkosningum sem fara fram í september 2021. Auk Laschets sóttist Markus Söder, leiðtogi Kristilega sósíalsambandsins í Bæjaralandi, eftir útnefningu flokksins til að verða frambjóðandi til kanslara.[18] Þann 12. apríl var Laschet talinn hafa tryggt sér útnefningu flokksins.[19] Staðfest var eftir miðstjórnarfund þann 19. apríl að Laschet yrði kanslaraefni flokksins í kosningunum.[20]

Laschet sætti nokkurri gagnrýni í júlí 2021 þegar hann sást grínast og hlæja í myndbandi af vettvangi hamfaraflóða í vesturhluta Þýskalands þar sem minnst 170 manns höfðu látið lífið.[21]

Í þingkosningunum 26. september 2021 hlutu Kristilegir demókratar 24,1 prósent atkvæðanna, sem var um níu prósenta fylgistap frá árinu 2017 og versta niðurstaða í sögu flokksins. Flokkurinn lenti í öðru sæti á eftir Jafnaðarmannaflokknum en Laschet lýsti engu að síður yfir vilja til að reyna að mynda ríkisstjórn.[22] Laschet sagði af sér sem flokksleiðtogi eftir kosningarnar og Friedrich Merz var kjörinn nýr formaður Kristilegra demókrata.[3]

Einkahagir

breyta

Árið 1985 kvæntist Laschet Susanne Malangré, bókhaldara og dóttur útgefandans Heinz Malangré. Líkt og Laschet er hún ættuð frá Belgíu, en frá frönskumælandi hluta landsins. Hún er frá Burtscheild, sama borgarhluta í Aachen og Laschet, og þau hafa þekkst frá barnæsku er þau gengu í sama kirkjukórinn. Hjónin eiga tvo syni og eina dóttur.[7][23]

Tilvísanir

breyta
  1. „Mit einer Stimme Vorsprung: Laschet zum Ministerpräsidenten von NRW gewählt“ (þýska). Frankfurter Allgemeine Zeitung. 27. júní 2017. Sótt 13. apríl 2021.
  2. Jasper von Altenbockum. „Neuer CDU-Vorsitzender: Mit Laschet auf Nummer Sicher“ (þýska). FAZ.NET. Sótt 13. apríl 2021.
  3. 3,0 3,1 „Merz nýr leiðtogi Kristilegra demókrata“. mbl.is. 17. desember 2021. Sótt 17. desember 2021.
  4. „Armin Laschet“. Christlich Demokratische Union Deutschlands. 14. mars 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2021. Sótt 13. apríl 2021.
  5. „Marcella Laschet“. doolia.de. Doolia - einfach unvergessen. Sótt 13. apríl 2021.
  6. „Duell in NRW: Kraft gegen Laschet“. RP Online. 17. maí 2014. Sótt 13. apríl 2021.
  7. 7,0 7,1 7,2 „Armin Laschet“ (þýska). Geschichte der CDU. 17. febrúar 1961. Sótt 13. apríl 2021.
  8. Annette Zoch, Matthias Drobinski Auf der falschen Seite, Süddeutsche Zeitung, 13. nóvember 2020, bls. 6.
  9. 9,0 9,1 „Landtag NRW: Abgeordnetendetail“. www.landtag.nrw.de (þýska). Landsþing Norðurrínar-Vestfalíu. Sótt 13. apríl 2021.
  10. 10,0 10,1 „Landtag NRW: Abgeordneter Armin Laschet“. www.landtag.nrw.de (þýska). Landsþing Norðurrínar-Vestfalíu. Sótt 13. apríl 2021.
  11. Detailansicht des Abgeordneten Armin Laschet. Landsþing Norðurrínar-Vestfalíu. Geymt 21 janúar 2021 í Wayback Machine Sótt 13. apríl 2021.
  12. „Kramp-Karrenbauer will Parteivorsitz abgeben“. tagesschau.de (þýska). Sótt 13. apríl 2021.
  13. „Paul Ziemiak: Vorschlag für Parteitag Mitte Januar“ (þýska). Kristilegi demókrataflokkurinn. 31. október 2020. Sótt 13. apríl 2021.
  14. „Röttgen wirbt um frühere Merz-Anhänger und bekommt Unterstützung“. hasepost.de (þýska). HASEPOST ¦ Zeitung für Osnabrück. 7. nóvember 2020. Sótt 13. apríl 2021.
  15. Markús Þ. Þórhallsson (16. janúar 2021). „Armin Laschet kjörinn formaður Kristilegra demókrata“. RÚV. Sótt 13. apríl 2021.
  16. „Armin Laschet er arftaki Merkel“. mbl.is. 13. apríl 2021. Sótt 16. janúar 2021.
  17. Snorri Másson (16. janúar 2021). „Hver vill verða kansl­ari?“. mbl.is. Sótt 13. apríl 2021.
  18. „Söder og Laschet vilja taka við af Merkel“. mbl.is. 11. apríl 2021. Sótt 13. apríl 2021.
  19. „Laschet verður kansl­ara­efni CDU“. mbl.is. 12. apríl 2021. Sótt 13. apríl 2021.
  20. „Laschet staðfest­ur sem kansl­ara­efni CDU“. mbl.is. 19. apríl 2021. Sótt 20. apríl 2021.
  21. Þorvarður Pálsson (17. júlí 2021). „Þýsk­ur stjórn­mál­a­mað­ur hló á flóð­a­svæð­i“. Fréttablaðið. Sótt 2. september 2021.
  22. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (27. september 2021). „Jafnaðarmannaflokkurinn lýsir yfir sigri“. RÚV. Sótt 27. september 2021.
  23. „Susanne Laschet“. www.nwzonline.de (þýska). Nordwest-Zeitung. Sótt 13. apríl 2021.
  NODES