Arnaldo Forlani (f. í Pesaro, 8. desember 1925; d. 6. júlí 2023) var ítalskur stjórnmálamaður, fyrrum félagi í kristilega demókrataflokknum og forsætisráðherra Ítalíu 1980 til 1981.

Arnaldo Forlani

Forlani hóf stjórnmálaferil sinn árið 1948 í Pesaro, varð ráðherra 1968 í fyrstu ríkisstjórnum Mariano Rumors en sagði af sér eftir að hann var kosinn aðalritari flokksins árið 1969. Hann varð síðan varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Aldo Moro 1975 og utanríkisráðherra 1976 til 1979 og fór formlega með umsókn Ítalíu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu árið 1977.

Frá 18. október 1980 til 26. júní 1981 var hann forsætisráðherra. Á þessum tíma varð uppvíst um frímúrarastúkuna P2 og hann var talinn ábyrgur fyrir tilraun til að koma í veg fyrir að félagaskrá stúkunnar yrði birt. Þetta varð til þess að hann neyddist til að segja af sér, en síðar, í ríkisstjórnum Craxis, var hann varaforsætisráðherra.

Við Cusani-réttarhöldin í tengslum við Mani pulite 1993 var hann kallaður inn sem vitni varðandi ólöglegar greiðslur frá fyrirtækinu Montedison í flokkssjóði demókrataflokksins. Hann svaraði spurningum um þessar greiðslur með því að hann myndi það ekki og áttaði sig ekki á slefi sem hann var með á vörunum enda augljóslega mjög taugaveiklaður. Þessi vitnaleiðsla, sem var sýnd í sjónvarpinu á Ítalíu, varð víðfræg sem nokkurs konar táknmynd fyrir endalok heillar kynslóðar stjórnmálamanna.


Fyrirrennari:
Francesco Cossiga
Forsætisráðherra Ítalíu
(1980 – 1981)
Eftirmaður:
Giovanni Spadolini


  NODES