Lucius Domitius Aurelianus (fæddur u.þ.b. 215, dáinn 275) var keisari Rómaveldis á árunum 270 – 275.

Aurelianus
Rómverskur keisari
Valdatími 270 – 275

Fæddur:

Um 215
Fæðingarstaður Sirmium

Dáinn:

September/október 275
Dánarstaður Caenophrurium, Thraciu
Forveri Quintillus
Eftirmaður Tacitus
Maki/makar Ulpia Severina
Móðir Antonia Gordiana
Fæðingarnafn Lucius Domitius Aurelianus
Tímabil Illýrísku keisararnir

Aurelianus var fæddur í Sirmium í skattlandinu Pannoniu (í núverandi Serbíu) inn í lítið þekkta fjölskyldu. Aurelianus vann sig upp metorðastigann í rómverska hernum og varð að lokum yfirmaður riddaraliðsins (dux equitum), í stjórnartíð Gallienusar keisara. Árið 270 var Aurelianus hylltur sem keisari af herdeildum í Sirmium. Claudius 2. keisari hafði þá nýlega dáið og hafði öldungaráðið þá lýst bróður hans, Quintillus, keisara. Herdeildirnar við norðurlandamæri ríkisins við Dóná vildu hinsvegar ekki styðja Quintillus og studdu því Aurelianus. Eftir að hafa sigrað hersveitir Quintillusar fékk Aurelianus einnig stuðning öldungaráðsins.

Aurelianus hafði ekki verið við völd lengi þegar hann þurfti að verjast árásum germanskra þjóðflokka, því árið 270 réðist Juthungi þjóðflokkurinn tvisvar inn í Norður-Ítalíu og Vandalar einu sinni. Aurelianus sigraði þessa innrásarheri í nokkrum bardögum og hrakti þá á brott. Árið 271 gerðu myntsláttu-verkamenn uppreisn í Róm og í kjölfarið létu nokkur þúsund manns lífið á götum borgarinnar. Aurelianus kvað niður uppreisnina sem endaði eftir bardaga við herinn á Caelius-hæð. Áður en Aurelianus yfirgaf Rómarborg lét hann hefja byggingu mikils varnarmúrs í kringum borgina, Aurelianusarmúrsins. Bygging múrsins var viðbragð við hinni auknu ógn sem stafaði af innrásum Germana, en lítið var um varnir í Róm þar sem borginni hafði ekki verið ógnað af utanaðkomandi herjum í nokkur hundruð ár.

Þegar Aurelianus varð keisari höfðu tvö stór svæði klofið sig frá Rómaveldi, annars vegar Gallíska keisaradæmið í vesturhlutanum og hinsvegar Palmýríska keisaradæmið í austurhlutanum. Bæði þessi svæði höfðu klofið sig frá Rómaveldi á árinu 260, á valdatíma Gallienusar. Aurelianus náði að leggja bæði þessi svæði aftur undir stjórn rómarkeisara, Palmýríska keisaradæmið árið 273 og Gallíska keisaradæmið árið 274. Aurelianus lét rómverskar herdeildir hins vegar yfirgefa Daciu sem hafði tilheyrt Rómaveldi frá því að Trajanus keisari hafði lagt svæðið undir sig árið 106. Dacia var eina landsvæðið, sem tilheyrði Rómaveldi, sem var norðan Dónár og því taldi Aurelianus að of erfitt og kostnaðarsamt yrði að verja svæðið gegn árásum germanskra þjóðflokka. Eftir þetta markaði Dóná norðurlandamæri Rómaveldis í Austur-Evrópu.

Aurelianus var myrtur, árið 275, af undirmanni sínum þegar hann var á leiðinni í hernaðarleiðangur gegn Sassanídum. Þessi undirmaður er sagður hafa séð skjal þar sem stóð að hann og fleiri ættu að vera teknir af lífi, en skjalið hafði hins vegar verið falsað af öðrum aðstoðarmanni Aurelianusar.

Heimildir

breyta
  • Körner, Christian, „Aurelian (A.D. 270-275) Geymt 7 maí 2021 í Wayback Machine.“ De Imperatoribus Romanis (2001).
  • Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).



Fyrirrennari:
Quintillus
Keisari Rómaveldis
(270 – 275)
Eftirmaður:
Tacitus


  NODES