Benito Juárez
Benito Pablo Juárez García (21. mars 1806 – 18. júlí 1872)[1][2] var mexíkóskur lögfræðingur og frjálslyndur stjórnmálamaður af ætt Zapoteka-frumbyggja frá Oaxaca.
Benito Juárez | |
---|---|
Forseti Mexíkó | |
Í embætti 15. janúar 1858 – 18. júlí 1872 | |
Forveri | Ignacio Comonfort |
Eftirmaður | Sebastián Lerdo de Tejada |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 21. mars 1806 San Pablo Guelatao, Oaxaca, Nýja Spáni |
Látinn | 18. júlí 1872 Mexíkóborg, Mexíkó |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi flokkurinn |
Maki | Margarita Maza (1826–1871) |
Starf | Lögmaður, dómari |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaJuárez fæddist inn í fátæka frumbyggjafjölskyldu af landsbyggðinni en varð vel menntaður atvinnustjórnmálamaður sem kvæntist þekktri og áhrifamikilli hvítri konu í Oaxacaborg.[3] Hann taldi sig fyrst og fremst frjálsyndan og skrifaði aðeins lítillega um frumbyggjaarfleifð sína.[4] Juárez gegndi lykilhlutverki í samtökum atvinnumanna meðal frumbyggja í suðurhluta Mexíkó og uppgangur hans í stjórnmálum landsins átti upptök sín þar.[5] Hann var ekki hugmyndafræðileg stjarna mexíkósks frjálslyndis né þrjóskur pólitískur rétttrúnaðarmaður heldur kænn, raunsær og óvæginn stjórnmálamaður.
Juárez var við völd í stormasaman áratug þegar frjálslyndisumbætur stóðu sem hæst og Frakkar gerðu innrás í Mexíkó. Árið 1858 tók Juárez, sem gegndi þar til stöðu hæstaréttardómara, við sem forseti Mexíkó eftir að mexíkóskir íhaldsmenn neyddu hófsama frjálslyndismanninn Ignacio Comonfort til að segja af sér. Juárez var forseti Mexíkó til dauðadags árið 1872. Hann stóð af sér umbótastríðið (1858–60), borgarastyrjöld milli frjálslyndra og íhaldsmanna, og síðan innrás Frakka í Mexíkó (1862–67) sem íhaldsmenn studdu. Juárez sagði aldrei af sér, jafnvel þegar hann neyddist til að flýja í útlegð til afdala Mexíkó sem Frakkar höfðu ekki náð að leggja undir sig. Juárez batt frjálsynda stjórnmálastefnu og mexíkóska þjóðernishyggju traustum böndum og hélt því staðfast fram að hann væri lögmætur þjóðhöfðingi Mexíkó en ekki Maximilian keisari, sem Frakkar studdu. Þegar mexíkóska keisaraveldið sem Frakkar höfðu sett á fót hrundi árið 1867 komst mexíkóska lýðveldið með Juárez sem forseta aftur til valda.[6][7][8] Íbúar rómönsku Ameríku litu á sigur Juárez gegn Evrópumönnum sem „annað sjálfstæðisstríð, annan ósigur Evrópuveldanna og annan viðsnúning hernámsins.“[9]
Hann er í dag „táknmynd mexíkóskrar þjóðernishyggju og andspyrnu á móti erlendum afskiptum.“[10] Juárez var raunsær og kænn stjórnmálamaður sem þó var umdeildur bæði á meðan hann lifði og eftir hans daga. Hann gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að Mexíkó ætti í vinsamlegu sambandi við Bandaríkin og tókst að tryggja stuðning þeirra við frjálslyndisstjórn hans á meðan umbótastríðinu stóð. Hann hagræddi oft stjórnmálaskoðunum sínum á ferli sínum en veik aldrei frá gildum eins og yfirburðum veraldlegs valds yfir kaþólsku kirkjunni og hernum; virðingu við lögum; og afpersónuvæðingu stjórnmálalífs.[11] Á ævi hans reyndi hann að styrkja ríkisstjórnina og miðstjórn alríkisins yfir fylkjunum, sem gerði hann lítt vinsælan meðal frjálslyndra manna á landsbyggðinni og róttæklinga.[12] Þótt hann hafi verið harðlega gagnrýndur á líftíma sínum hefur hlutverk hans í sögu Mexíkó gert hann að þjóðhetju landsins.[13]
Afmælisdagur Juárez er almennur frídagur í Mexíkó og hátíð föðurlandsvina þar í landi. Mexíkóski sagnfræðingurinn Enrique Krauze segir um hann: „Án þess að taka tillit til ævisögu Juárez getum við hvorki vonast til að skilja sigur frjálslyndra í umbótastríðinu né farveg sögu Mexíkó á nítjándu öldinni.“[14] Borgin Ciudad Juárez var nefnd eftir honum.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Benito Juárez“. Encyclopedia of World Biography. Sótt 15. júlí 2017.
- ↑ „Benito Juárez (March 21, 1806 – July 18, 1872)“. Banco de México. Afrit af upprunalegu geymt þann mars 1, 2017. Sótt 15. júlí 2017.
- ↑ Enrique Krauze, Mexico: Biography of Power, New York: HarperCollins 1997 bls. 162.
- ↑ Brian Hamnett, Juárez, New York: Longmans 1994, 35.
- ↑ Hamnett, Juárez, p. xi.
- ↑ D.F. Stevens, "Benito Juárez" in Encyclopedia of Latin American History and Culture, 3. bindi, bls. 333-35. New York: Charles Scribner's Sons 1996.
- ↑ Brian Hamnett, "Benito Juárez" in Encyclopedia of Mexico, 1. bindi, bls. 718-21. Chicago: Fitzroy Dearborn 1997.
- ↑ „Juárez' Birthday“. Sistema Internet de la Presidencia. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. febrúar 2012. Sótt 15. júlí 2017.
- ↑ Hamnett, Juárez, bls. xii.
- ↑ Stevens, "Benito Juárez", 333.
- ↑ Hamnett, Juárez. bls. 238-39.
- ↑ Hamnett, "Benito Juárez" bls. 721.
- ↑ Charles A. Weeks, The Juárez Myth in Mexico. Tuscaloosa: University of Alabama Press 1987.
- ↑ Krauze, Mexico: Biography of Power, chapter 8, "The Indian Shepherd and the Austrian Archduke," bls. 160.