Christian Lous Lange
Christian Lous Lange (17. september 1869 – 11. desember 1938) var norskur sagnfræðingur, kennari, stjórnmálafræðingur og friðarsinni.
Christian Lous Lange | |
---|---|
Fæddur | 17. september 1869 |
Dáinn | 11. desember 1938 (69 ára) |
Þjóðerni | Norskur |
Menntun | Óslóarháskóli |
Störf | Sagnfræðingur, kennari, stjórnmálafræðingur, stjórnmálamaður |
Maki | Bertha Manthey (g. 1894) |
Börn | 3 |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1921) |
Bakgrunnur og menntun
breytaLange kom frá Stafangri og föðurafi hans, Christian C. A. Lange, var sagnfræðingur og kennari en faðir hans var ofursti og verkfræðingur í hernum.[1][2] Hann lauk stúdentsprófi árið 1887 og nam síðan textafræði (sagnfræði, frönsku og ensku) við Háskólann í Kristjaníu. Hann útskrifaðist með cand.philol.-gráðu árið 1893 og gegndi síðan kennarastöðum í gagnfræðaskólum í Ósló.[2] Árið 1919 útskrifaðist Lange með doktorsgráðu með ritgerð þar sem hann fjallaði um alþjóðahyggju og sögu hennar.[2]
Starfsferill
breytaÁ næstu árum nam Lange erlendis (í Bretlandi og Frakklandi) og kenndi við menntaskóla í Ósló í nokkur ár.[1] Ásamt Hans Schjødt gaf hann út mannkynssögukennslubókina Lærebog i verdenshistorien árið 1904, þá fyrstu í bókaröð sem hann átti eftir að semja. Í stjórnmálum var Lange í róttækari armi norska Vinstriflokksins og við sambandsslit Noregs og Svíþjóðar árið 1905 var hann meðal þeirra sem vildu stofna lýðveldi í Noregi.[2]
Þegar ársþing Alþjóðaþingmannasambandsins var haldið í Kristjaníu árið 1899 vann Lange sem þingritari þess. Frammistaða hans þótti svo góð að þegar norska stórþingið stofnaði Nóbelsnefnd fyrir friðarverðlaun Nóbels var Lange valinn ritari hennar. Lange vann í mörg ár með Nóbelsnefndinni, meðal annars við að rita skýrslur um þá sem tilnefndir höfðu verið til verðlaunana og kynna þær fyrir stórþinginu. Hann vonaðist til þess að Nóbelsstofnunin yrði leiðandi í alþjóðlegri friðarbaráttu og myndi til dæmis hafa á sínum snærum óháða rannsóknarmenn til að takast á við kvartanir frá nýlendum sem ekki væru aðilar að alþjóðarétti.[2] Lange sagði af sér sem ritari Nóbelsnefndarinnar árið 1909 og varð þess í stað fyrsti launaði aðalritari Alþjóðaþingmannasambandsins. Til að gegna starfinu flutti hann til Brussel.[1] Hann var þó áfram ráðgjafi Nóbelsnefndarinnar til ársins 1933, en þá varð hann meðlimur í nefndinni og hélt þeirri stöðu til dauðadags.[1]
Lange tók starf sitt hjá Alþjóðaþingmannasambandinu alvarlega og afþakkaði meðal annars árið 1914 tilboð frá norska forsætisráðherranum Gunnari Knudsen um að gerast utanríkisráðherra.[2] Hann neyddist þó sama ár til að snúa heim til Noregs vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Þjóðverjar hertóku Belgíu. Stríðið var reiðarslag fyrir Alþjóðaþingmannasambandið þar sem stríðsaðilar hættu að styðja stofnunina. Lange tókst þó að halda sambandinu á floti með fjárstuðningi frá Friðarstofnun Carnegies.[2][1] Eftir styrjöldina kallaði Lange saman þing sambandsins í Genf árið 1920 og þaðan í frá voru þing þess haldin árlega í borginni.[1] Lange lét jafnframt flytja skrifstofu Alþjóðaþingmannasambandsins til Genf, þar sem það var nálægt höfuðstöðvum hins nýstofnaða Þjóðabandalags.[1]
Auk starfa sinna hjá Nóbelsnefndinni og Alþjóðaþingmannasambandinu var Lange virkur í ýmsum alþjóðahreyfingum, bæði á eigin vegum og sem stjórnarfulltrúi Noregs. Hann var fulltrúi í sendinefnd Noregs á friðarráðstefnunni í Haag árið 1907 og frá árinu 1915 var hann virkur í alþjóðlegum friðarsamtökum sem stofnuð voru í borginni. Frá árinu 1915 var hann sérstakur upplýsingafulltrúi Friðarsamtaka Carnegies og skrifaði fyrir stofnunina skýrslu um aðstæður í stríðshrjáðum löndum árið 1917. Eftir stofnun Þjóðabandalagsins var Lange ýmist fulltrúi eða varaformaður þess í Noregi.[1]
Lange var mörgum sinnum tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels fyrir störf sín með Alþjóðaþingmannasambandinu og árið 1921 vann hann verðlaunin ásamt sænska forsætisráðherranum Hjalmar Branting.[2] Í Noregi voru blendin viðbrögð við verðlaunun Lange. Verkamannaflokkurinn, sem jafnan var þó gagnrýninn í garð Þjóðabandalagsins, fagnaði verðlaununum en hægrisinnar voru gagnrýnni í garð þeirra. Meðal annars komst tímaritið Tidens Tegn svo að orði að verðlaunin hefðu runnið í skaut „ritarans“.[2] Þrátt fyrir að Lange byggi í mörg ár erlendis var hann virkur þátttakandi í norskri stjórnmálaumræðu. Stuðningur hans við afvopnun á þriðja áratuginum leiddi til þess að fyrrum varnarmálaráðherra landsins sakaði hann um skort á þjóðrækni.[2]
Einkahagir
breytaÁrið 1894 kvæntist Christian Lange Berthu Manthey, sem var kennari. Hjónin eignuðust fimm börn, meðal annars stjórnmálamennina Halvard og Carl Viggo Lange.[2]
Valin ritverk
breyta- Lærebog i verdenshistorien fra oldtidens slutning til vore dager for gymnasierne (1904, sammen med Hans Schjøth)
- Rett og fred millom folki. Utgreiding um dei nyaste avtalorne (1909)
- Den europæiske borgerkrig (1915)
- Betingelser for en varig fred. Oversigt over forbundets arbeide (1917)
- Histoire de l'internationalisme, bd. 1: Jusqu'à la paix de Westphalie (1648) (1919, doktorafhandling)
- Mellemfolkelig politikk 1815–1914 (1925)
- Histoire de la doctrine pacifique et de son influence sur le developpement du droit international (1929)
Tilvísanir
breytaTenglar
breyta- „Lange, Christian Lous“. Salmonsens Konversationsleksikon. 1923.
- Christian Lange på nobelprize.org