Dsungarkanatið var ríki vesturmongólskra hirðingja (ojrada) sem náði yfir steppuna frá Kínamúrnum í austri að austurmörkum Kasakstans í vestri og frá norðurmörkum Kirgisistan í suðri að suðurmörkum Síberíu í norðri. Mest af þessu svæði, sem áður var kallað Dsungaría, er nú kínverska héraðið Xinjiang. Upphaf ríkisins má rekja til þess að ojradar hröktust vestur úr heimahögum sínum í Altaifjöllum undan útþenslu kalkamongóla undir stjórn Ubasi Khun Tayishi. Þeir lögðu Dsungaríu undir sig, þar á meðal Tarimsléttuna í suðri. Fyrsti leiðtogi ríkisins er talinn vera Khara Khula (d. 1634) sem sameinaði ojrödin fjögur og snerist gegn kalkamongólum. Árið 1678 gerði Dalai Lama foringja þeirra Galdan að kan en hefðbundinn titill konunga ojrada var Khong Tayiji sem merkir „krónprins“. Galdan beið ósigur gegn Tjingveldinu sem varð helsti andstæðingur Dsungarveldisins. Dsungarar lögðu Tíbet undir sig 1717 en Kínverjar hröktu þá þaðan þremur árum síðar. Eftir lát Galdan Tseren árið 1745 urðu erfðadeilur milli sona hans til þess að Tjingveldið lagði Dsungaríu undir sig frá 1755 til 1757. Qianlong keisari lét drepa alla karlmenn en konur og börn voru fengin hermönnum hans til eignar. Áætlað er að í stríðinu hafi 40% af 600.000 íbúum Dsungaríu látist úr bólusótt, 20% flúið til Rússlands eða Kasakstan og 30% verið drepin af her Tjingveldisins.

Blóðbaðið við Oroi-Jalatu 1756 þegar kínverskur her réðist á búðir Dsungara nærri núverandi borginni Wusu.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES