Eggert Ólafsson

Íslenskt skáld, rithöfundur og náttúrufræðingur (1726-1768)

Eggert Ólafsson (1. desember 1726 - 30. maí 1768) var skáld, rithöfundur og náttúrufræðingur úr Svefneyjum á Breiðafirði. Hann var einn boðbera upplýsingarinnar á Íslandi. Rannveig systir Eggerts var kona séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal.

Koparrista af drukknun Eggerts Ólafssonar. Myndskreyting úr í riti Ólafs Ólafssonar (Olavius) Drauma diktur um søknud og sorglegan missir þess Havitra, Gøfuga og Goda Manns Herra Eggerts Olafssonar, Vice-Løgmanns sunnan og austan a Islande a samt Hans dygdum pryddar Konu Frur Ingibjargar Gudmunds Dottur (Kaupmannahöfn: Paul Herman Höecke, 1769).

Fjölskylda

breyta

Eggert var elsti sonur Ólafs Gunnlaugssonar og Ragnhildar Sigurðardóttur sem ráku bú í Svefneyjum í Breiðafirði. Systkini hans voru Magnús Ólafsson lögmaður sunnan og austan, Jón Ólafsson „lærði“ fornfræðingur í Kaupmannahöfn, Guðrún Ólafsdóttir, Rannveig Ólafsdóttir og Jón Ólafsson yngri stúdent í Kaupmannahöfn.

Eggert fékk seint embætti, en 1767 var hann skipaður varalögmaður sunnan og austan. Sama haust gekk hann að eiga Ingibjörgu Guðmundsdóttur, dóttur Guðmundar Sigurðssonar sýslumanns, sem var móðurbróðir hans. Þau drukknuðu bæði á Breiðafirði árið eftir.

Nám, störf og rit

breyta

Eggert nam heimspeki við Hafnarháskóla, og lagði auk þess stund á fornfræði, málfræði, lögfræði, lögspeki, náttúruvísindi og búfræði.

Eggert ritaði um ýmis efni, sem ekki hefur allt verið gefið út. Hann er og talinn frumkvöðull að því að semja samræmdar réttritunarreglur, en þær reglur eru fremur ólíkar þeim sem við fylgjum í dag. Einnig er hann talinn vera mesti málverndarsinni 18. aldar auk þess að vera þjóðræktarmaður.

Eggert fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni á árunum 1752-1757, á vegum Konunglega danska vísindafélagsins. Í þessum ferðum könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta. Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta - líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Bjarni var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 1760 en Eggert sá um að fullvinna ferðabók þeirra félaga á dönsku í Kaupmannahöfn frá 1760 til 1766 með styrk úr Árnasjóði. Bókin kom út árið 1772. Tveimur árum síðar kom bókin út á þýsku, á frönsku árið 1802 og hlutar hennar á ensku 1805. Á íslensku kom hún út árið 1942.

Samtíðarmenn Eggerts gáfu út nokkuð af verkum hans eftir dauða hans. Björn mágur hans og Magnús bróðir hans gáfu þannig út garðyrkjubókina Stutt ágrip úr lachanologia eða maturtabók 1774 og þekktasta kvæði hans, Búnaðarbálkur, kom út í Hrappsey árið 1783. Heildarútgáfa af kvæðum Eggerts kom fyrst út árið 1953.

Töluvert af ritverkum Eggerts er varðveitt í handritum. Á handritasafni Landsbókasafns er til matreiðslubókin Pipar í öllum mat (Lbs 857 8vo), samin á 6. áratug 18. aldar og því líklega elsta matreiðslubók sem samin hefur verið á íslensku. Þar er einnig varðveitt Uppkast til forsagna um brúðkaupssiðu hér á landi frá 1760 (Lbs 551 4to). Á handritasafni National Library of Scotland í Edinborg er varðveitt eiginhandarrit Eggerts að Drykkjabók Íslendinga, ársett 1761, sem áður var í handritasafni Finns Magnússonar í Kaupmannahöfn (Adv.MS.21.3.15). Hugsanlega hefur Eggert samið þá bók samhliða vinnu við Ferðabókina í Kaupmannahöfn.

Dauði

breyta

Eggert drukknaði á Breiðafirði árið 1768, ásamt konu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Voru þau á leið heim úr vetursetu í Sauðlauksdal. Þegar Eggert Ólafsson fór seinast frá Sauðlauksdal, 29. maí 1768, söng séra Björn Halldórsson hann úr hlaði að fornum sið, með kveðjuávarpi sem hann hafði ort:

Far nú, minn vin, sem ásatt er
auðnu og manndyggðabraut,
far nú, þótt sárt þín söknum vér,
sviftur frá allri þraut.
Far í guðs skjóli, því að þér
þann kjósum förunaut.
Farðu blessaður, þegar þver
þitt líf, í drottins skaut.

Um drukknun Eggerts orti Matthías Jochumsson erfiljóðið Eggert Ólafsson.

Útgefin rit frá 18. öld

breyta

Heimildir

breyta

Silja Aðalsteinsdóttir, 1993, Bók af bók, Mál og menning Reykjavík, prentun frá 2003.

Tenglar

breyta
 
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um:
  NODES