Einkavæðing bankanna 2002

Einkavæðing bankanna 2002 var einkavæðing sem fór fram árið 2002 með sölu á ríkisreknum bönkum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum, í hendur einkaaðila. Einkavæðingin var alla tíð nokkuð umdeild og varð enn umdeildari eftir bankahrunið 2008. Bent hefur verið á að ef öðruvísi hefði verið farið að hefði þenslan á hagkerfinu ekki orðið jafn mikil á jafn skömmum tíma.[1] Einnig hefur verið gagnrýnt að ekki var fylgt upprunalegri settri stefnu um að bankarnir skyldu verða í dreifðri eignaraðild. Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðinganefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. [2]

Aðdragandi

breyta

Einkavæðing bankanna hófst í raun árið 1998 með einkavæðingu Fjárfestingabanka atvinnulífsins sem síðar rann saman við Íslandsbanka 15. maí árið 2000. Í framhaldi af einkavæðingu FBA töldu menn sig hafa fengið nokkra reynslu af einkavæðingu banka og í framhaldi af því voru Landsbankinn og Búnaðarbankinn einkavæddir árið 2002. Íslenska ríkið seldi 45,8% hlut sinn í Landsbankanum þann 19. október 2002 fyrir 12,3 milljarði króna. Kaupandinn var eignarhaldsfélagið Samson sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar[3].Tæpum mánuði seinna eða þann 16. nóvember sama ár seldi ríkið 45,8% hlut sinn í Búnaðarbankanum á 11,9 milljarða króna. Kaupendurnir voru hinn svokallaði S-hópur en hann samanstóð af Eglu ehf., Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, Samvinnulífeyrissjóðnum og Vátryggingafélagi Íslands[4].

Úrsögn Steingríms Ara úr einkavæðinganefnd

breyta

Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðinganefnd Landsbankans í september 2002 og viðhafði þau orð að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum. [5] Í viðtali við DV sama ár var Davíð Oddsson spyrður út í þessa úrsögn Steingríms Ara, þar eð hann hafði sagt í sjónvarpsviðtali nokkru áður „...eitthvað á þá leið að [s]ér hefði skilist að ástæða þess að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðingarnefnd hefði verið „ein setning". Hvaða setning var það?“. Davíð svaraði þá:

„Ég kann nú ekki þá setningu utan að. Það var tiltekin setning sem varðaði, hygg ég, útboðsfjárhæðir versus einhverja aðra hluti sem var algjör samstaða um í nefndinni. Og ég veit ekki betur en að Steingrímur Ari telji sig núna ekki vera andsnúinn þeirri setningu. Hann hefur hins vegar síðar meir, að því er mér skilst, fundið sér fleiri atriði til þess að hafa áhyggjur af og tala um, án þess að ræða um það við sinn yfirmann, fjarmálaráðherrann, sem mér finnst afskaplega skrýtið - ef hann hefur séð eitthvað fara úrskeiðis, að láta ekki þann mann vita sem hann er fulltrúi fyrir. Mér finnst það næstum því óskiljanlegt." [6]

Tilvísanir

breyta
  1. Misstu tök á uppsveiflunni
  2. Aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum; grein í Fréttablaðinu 2002
  3. . „Samson ehf. kaupir 45,8% hlut í Landsbankanum“. Morgunblaðið. 90 (246) (2002): 64.
  4. . „S-hópur kaupir í Búnaðarbanka á 11,9 milljarða“. Morgunblaðið. 90 (270) (2002): 64.
  5. Aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum; grein í Fréttablaðinu 2002
  6. Vaxtaverkið á frjálsum markaði betri en lokað kerfi; grein í DV 2002

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES