Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Einokunarverslunin á Íslandi var verslunareinokun danskra kaupmanna á Íslandi á 17. og 18. öld. Hún átti rætur í kaupauðgisstefnunni og var tilgangurinn með henni að efla danska kaupmannastétt og danska verslun gegn Hansakaupmönnum í Hamborg, og auka völd Danakonungs á Íslandi. Einokunartímabilið hófst árið 1602 og stóð til ársloka 1787. Verslað var á tuttugu (síðar 25) kauphöfnum samkvæmt föstum taxta sem ákveðinn var af konungi. Kaupmenn skiptu kauphöfnunum milli sín fyrir vissa leigu, en Vestmannaeyjar voru leigðar út sér fyrir hærra verð. Kaupmönnum var bönnuð þátttaka í annarri atvinnustarfsemi á Íslandi fram til 1777.

Á tímum einokunarverslunarinnar voru það oft sömu kaupmenn sem stunduðu sömu kauphafnir ár eftir ár. Þetta leiddi til þess að þeir byggðu vöruskemmur (lagera) sem voru læstar yfir veturinn. Árið 1777 var ákveðið, samkvæmt tillögu Skúla Magnússonar, að kaupmenn mættu hafa fasta búsetu á Íslandi. Eftir það voru reistar vöruskemmur og íbúðarhús fyrir kaupmennina, fjölskyldur og starfslið í öllum kauphöfnum. Áður höfðu nokkrir kaupmenn, eins og t.d. kaupmaðurinn á Eyrarbakka byggt sér íbúðarhús. Einnig máttu kaupmenn þá fjárfesta í annarri atvinnustarfsemi. Í mörgum landshlutum urðu þessar byggingar kaupmanna fyrsti vísir að þéttbýli.

Tímabil einokunarverslunarinnar

breyta
 
Kauphafnir á Íslandi 1602–1787.
  • Frá 1620 til 1662 var verslunin í höndum Fyrsta íslenska verslunarfélagsins („Det islandske, færøiske og nordlandske Kompagni“) og einn verslunartaxti tekinn upp fyrir allt landið. Verslunartaxtinn varð síðan Íslendingum oft að umkvörtunarefni.
  • Frá 1662 til 1683 var verslunin látin í hendur aðalútgerðarmanna („De fire Hovedparticipanter“). Þá varð til vísir að umdæmaverslun.
  • Árið 1684 var komið á „umdæmaverslun“ þannig að óheimilt var að versla við aðra kaupmenn en þann sem starfaði í því umdæmi þar sem viðkomandi starfaði. Verslunarhafnir voru þá settar á uppboð og einstakir kaupmenn tóku þær á leigu, í stað félagsverslunarinnar áður. Þá var vöruskiptakjörum breytt og urðu þau Íslendingum meira í óhag en áður. Viðurlög og eftirlit með launverslun voru hert.
  • Árið 1702 var verslunartaxtinn frá því fyrir 1684 aftur tekinn upp og refsingar við ólögmætri verslun mildaðar til muna.
  • Árið 1742 fór fram opinbert uppboð á Íslandsversluninni og féll hún í hlut Hörmangarafélagsins sem var félag smákaupmanna í Kaupmannahöfn. Félagið virðist hafa staðið illa að versluninni og hlaut slæm eftirmæli á Íslandi. Íslendingar kvörtuðu meðal annars yfir skemmdri og falsaðri vöru. Að einhverju leyti hefur það stafað af gamaldags verslunarháttum sem voru orðnir úreltir á tímum upplýsingarinnar.
  • Árið 1759 voru Hörmangarar neyddir til að láta verslunina af hendi og við tók Konungsverslunin fyrri þegar verslunin var rekin fyrir reikning konungs. Niels Ryberg varð þá forstjóri verslunarinnar og tókst að reka hana með hagnaði 1760-1764.
  • Konungleg auglýsing um afnám einokunarverslunar var gefin út 18. ágúst 1786. Formlega lauk einokunarverslun 31. desember 1787 og svokölluð fríhöndlun tók við 1. janúar 1788. Eitt ákvæðið í fríhöndlunartilskipuninni var samt sem áður bann við verslun Íslendinga við aðra en þegna Danakonungs. Kaupmenn þurftu einnig að uppfylla ýmis skilyrði svo sem að hafa næg matvæli í vöruhúsum ef til hungursneyðar kæmi. Ekki var því um fríverslun að ræða í nútímaskilningi.

Heimildir

breyta
  NODES