Elka Björnsdóttir
Elka Björnsdóttir (7. september 1881 - 3. mars 1924) var íslensk verkakona í Reykjavík.
Elka fæddist að Reykjum í Lundareykjardal en ólst upp á Skálabrekku í Þingvallasveit en þaðan fluttist hún 25 ára gömul árið 1906 til Reykjavíkur.
Elka var námsfús en hafði ekki tækifæri til að sækja sér formlega menntun. Hún aflaði sér hins vegar þekkingar með því að lesa bækur og tímaritsgreinar og eftir að hún fluttist til Reykjavíkur sótti hún fyrirlestra og fundi um ýmis mál.[1] Hún starfaði t.d. sem verkakona í fiskvinnslu en lengst af við þrif á skrifstofum Reykjavíkur og slökkvistöð Reykjavíkur sem hvoru tveggja voru til húsa að Tjarnargötu 12 en Elka bjó jafnframt í litlu herbergi í húsinu.[2] Hún fylgdist vel með málefnum líðandi stundar en jafnrétti og verkalýðsbarátta var henni hugleikin og kom hún að stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar og sat stofnfundi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Alþýðuflokksins.[3]
Elka hélt ítarlega dagbók frá 1915-1923 og sagði frá því sem á daga hennar dreif, daglegu lífi jafnt sem aðbúnaði fátæks fólks en einnig merkisatburðum s.s. Kötlugosinu 1918, Drengsmálinu, brunanum mikla í miðborg Reykjavíkur árið 1915, fullveldisdeginum 1. desember 1918, frostavetrinum mikla og spænsku veikinni. Dagbækur Elku þykja merkileg samtímaheimild um aðstæður fátæks fólks og voru þær gefnar út í heild sinni í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar undir heitinu Dagbók Elku. Alþýðumenning í þéttbýli á árunum 1915–1923 í frásögn Elku Björnsdóttur verkakonu. Sagnfræðingarnir Hilma Gunnarsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon ritstýrðu verkinu og rituðu inngang.[4]
Elka var alla tíð heilsutæp og lést úr brjóstakrabbameini aðeins 43 ára gömul. Hún var jarðsett í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu í Reykjavík en gröf hennar var ómerkt allt til ársins 2017 er Reykjavíkurborg ákvað að heiðra minningu hennar með því að reisa minningarmark við leiði hennar. Minningarmarkið var vígt á afmælisdegi Elku þann 7. september 2017 en þann dag fór jafnframt fram málþing þar sem sjónum var beint að sögu Elku og verkakvenna í Reykjavík í upphafi 20. aldar.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ Kvennasogusafn.is, „Kvennasöguslóðir í Kvosinni“ Geymt 25 apríl 2017 í Wayback Machine (skoðað 27. júlí 2019)
- ↑ 2,0 2,1 Mbl.is, „Reykjavíkurborg heiðrar minningu Elku Björnsdóttur“ (skoðað 27. júlí 2019)
- ↑ Visir.is, „Elka Björnsdóttir hélt dagbók um erfiða fátækt í Reykjavík“ (skoðað 27. júlí 2019)
- ↑ Haskolautgafan.is, „Dagbók Elku“ Geymt 27 júlí 2019 í Wayback Machine (skoðað 27. júlí 2019)