Fjaðrir eru úr hornefni og vaxa út úr húð fugla. Þær gegna mörgum hlutverkum: Þær gera fuglum kleift að fljúga, halda á þeim hita, verja þá gegn vætu, eru felubúningur og eru notaðar til samskipta. Fjaðrir sem gegna mismunandi hlutverkum eru ólíkar í uppbyggingu. Fuglar eru einu dýrin sem bera fjaðrir og flestir fuglar eru með fjaðraham sem þekur allan líkamann nema fæturna, gogginn og svæðið kringum augun.

Nærmynd af hvítri fjöður.

Fjaðrir vaxa úr litlum holum á yfirhúðinni, húðlaginu sem framleiðir hornefni (beta-keratín). Fjaðrir, klær og goggar myndast úr keratínstrengjum. Til eru tvær megintegundir af fjöðrum: þekjufjaðrir og dúnfjaðrir. Þekjufjaðrir vaxa um allan líkamann. Þær eru yfirleitt stórar og stinnar og einkennast af fjöðurstaf í miðju en út frá honum vaxa fanir. Þær skiptast í fanargeisla sem tengjast saman með fanarkrókum og virðast því heilar. Dúnfjaðrir vaxa undir þekjufjöðrum og eru litlar og mjúkar. Fáeinar tegundir fugla bera líka fjaðrir sem líta út eins og hár og vaxa milli dúnfjaðranna. Flugfjaðrir kallast þær fjaðrir sem fuglarnir nota aðallega þegar þeir fljúga. Þær eru á vængjum og stéli.

Menn hafa lengi nýtt fjaðrir til ýmissa hluta. Þær hafa til dæmis verið festar á örvar til að fleygja þeim áfram í loftinu og fjaðurpennar voru helstu skriffæri manna allt þar til pennaoddar úr málmi komu til sögunnar. Dúnn heldur líka mjög vel hita og hefur lengi verið notaður í sængur og kodda, svo og til að einangra yfirhafnir og svefnpoka. Æðardúnn veitir bestu einangrunina en gæsadúnn kemur þar á eftir.

Tilvísanir

breyta
  NODES
languages 1
os 1