Friðrik 6. Danakonungur

Friðrik 6. (28. janúar 1768 - 3. desember 1839) var Danakonungur 1808-1839 og konungur Noregs 1808-1814.

Stormasöm bernska

breyta

Friðrik var sonur Kristjáns 7. og Karólínu Matthildar drottningar. Nokkrum dögum fyrir fjögurra ára afmæli hans var gerð hallarbylting í Danmörku þar sem Johann Friedrich Struensee, elskhugi móður hans, var tekinn höndum og síðan líflátinn en drottningin var send í útlegð og dó þar þremur árum síðar. Sterkur orðrómur var uppi um að Struensee væri raunverulegur faðir Friðriks, en það er hvorki staðfest né hrakið. Friðrik ólst því upp með föður sínum, sem var ekki heill á geðsmunum en ríkinu og uppeldi krónprinsins var stýrt af hálfbróður Kristjáns 7., Friðrik erfðaprinsi, og móður hans, Júlíönu Maríu ekkjudrottningu. Friðrik fékk strangt uppeldi byggt á túlkun á kenningum sem franski heimspekingurinn Rousseau setur fram í bókinni Émile og er talið að það hafi átt þátt í að hann þótti nokkuð sérlundaður á fullorðinsárum.

Bylting

breyta

Þann 14. apríl 1784 var svo aftur gerð hallarbylting þar sem ekkjudrottningunni og erfðaprinsinum var komið frá völdum en krónprinsinn, sem þá var orðinn 16 ára, varð ríkisstjóri fyrir föður sinn og hélst það uns Kristján 7. lést árið 1808. Friðrik og ráðgjafar hans komu brátt á ýmsum umbótum og meðal annars voru átthagafjötrar afnumdir 1788. Hins vegar herti Friðrik mjög á ritskoðun.

Napóleonsstríð

breyta

Upp úr aldamótunum 1800 drógust Danir inn í stríðsátök Frakka og Englendinga þótt þeir reyndu að halda hlutleysi sínu og eftir að Englendingar höfðu látið sprengjum rigna yfir Kaupmannahöfn af sjó, hertekið borgina og rænt öllum skipum sem þeir náðu til en eyðilagt önnur gerði Friðrik bandalag við Napóleon Frakkakeisara. Svíar höfðu aftur á móti gert bandalag við Englendinga og Rússa. Árið 1813 var svo komið að Danir voru einu bandamenn Frakka í Evrópu og eftir að Svíar og Rússar höfðu unnið sigur á danska hernum voru gerðir friðarsamningar í Kiel 14. janúar 1814 þar sem Svíar létu Rússum eftir Finnland en Danir voru þvingaðir til að láta þeim eftir Noreg í staðinn; þeir fengu þó að halda eftir Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.

Friðrik konungur taldi hættu á að Rússar og Englendingar myndu skipta Danmörku á milli sín og þegar sigurvegarar Napóleonsstyrjaldanna komu saman í Vínarborg haustið 1814 til að semja um yfirráð í álfunni ákvað hann að fara þangað óboðinn og þótt hann sæti ekki við samningaborðið sem jafningi sigurherranna er ekki talið ólíklegt að vera hans í borginni hafi bjargað Danmörku. Svo mikið er víst að honum var fagnað gífurlega við heimkomuna og ferð hans var talin sigurför. Danska ríkið var hins vegar í raun gjaldþrota eftir stríðið og óðaverðbólga geisaði.

Stéttaþing

breyta

Á síðari árum varð Friðrik að láta ögn undan sívaxandi kröfum um aukið lýðræði og árið 1834 var fjórum ráðgefandi stéttaþingum komið á; tvö voru fyrir hertogadæmin, eitt fyrir Jótland og eitt fyrir eyjarnar og áttu Íslendingar tvo fulltrúa á þingi Eydana, sem var haldið í Hróarskeldu.

Kvonfang

breyta

Friðrik kvæntist Marie Sofie Frederikke af Hessen-Kassel en þau voru systkinabörn, móðir hennar var systir Kristjáns 7. Þau eignuðust átta börn. Tvær dætur komust til fullorðinsára en sex dóu í æsku. Hjákona Friðriks var Bente Rafsted, sem gekk undir nafninu frú Dannemand, og stóð samband þeirra í meira en 30 ár.


Fyrirrennari:
Kristján 7.
Konungur Danmerkur
(1808 – 1839)
Eftirmaður:
Kristján 8.


   Þessi sagnfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES