Publius Licinius Egnatius Gallienus (um 218 – 268) var keisari Rómaveldis á árunum 253 – 268. Gallienus var keisari þegar tímabil sem einkenndist af óstöðugleika í Rómaveldi, og kallað hefur verið 3. aldar kreppan, var í hámarki.

Gallienus
Rómverskur keisari
Valdatími 253 – 268
með Valerianusi (253–260)
með Saloninusi (260)

Fæddur:

um 218

Dáinn:

268
Dánarstaður Mediolanum (núverandi Mílanó)
Forveri Valerianus (einn)
Eftirmaður Claudius Gothicus
Maki/makar Cornelia Salonina
Börn Saloninus,
Valerianus
Faðir Valerianus
Móðir Egnatia Mariniana
Fæðingarnafn Publius Licinius Egnatius Gallienus
Keisaranafn Caesar Publius Licinius Egnatius Gallienus Augustus
Tímabil Herkeisararnir

Á árunum 253 – 260 var Gallienus keisari ásamt föður sínum, Valerianusi. Feðgarnir skiptu með sér stjórn ríkisins þannig að Valerianus einbeitti sér að mestu að átökum í austrinu, gegn Sassanídum, á meðan Gallienus stjórnaði vesturhlutanum. Gallienus átti í stöðugum átökum á sínum valdatíma, bæði við innrásarheri Germanskra þjóðflokka og við valdaræningja innan heimsveldisins. Einhverntíma á árunum 258 – 260 (nákvæm dagsetning er ekki vituð) gerðu Alemannar stórfellda innrás. Her þeirra komst alla leið suður til mið-Ítalíu en var stöðvaður í nágrenni Rómar. Þetta var í fyrsta sinn sem óvinaher réðist inn í Ítalíu síðan Hannibal gerði það, um 500 árum áður. Gallienus mætti svo her Alemanna við Mediolanum (Mílanó) og hafði sigur þrátt fyrir að hafa mun smærri her. Talið er að riddaraliðssveitir (comitatenses), sem Gallienus hafði stofnað, hafi verið ein helsta ástæðan fyrir sigri Rómverja í bardaganum. Þessar sveitir voru mun hreyfanlegri en hinar hefðbundnu hersveitir (legio) og voru mjög mikilvægar á síðustu öldum Rómaveldis.

Árið 260 var Valerianus tekinn til fanga af Sassanídum eftir mikinn ósigur í orrustunni við Edessu og eftir það var Gallienus einn keisari. Einnig á árinu 260 var hið svokallaða Gallíska keisaradæmi myndað þegar herforinginn Postumus lýsti sjálfan sig keisara og var viðurkenndur sem slíkur í Gallíu, Hispaníu, Germaníu og á Bretlandi. Postumus hafði einnig látið drepa ungan son Gallienusar, Saloninus, sem Gallienus hafði stuttu áður líklega gert að meðkeisara sínum. Gallienus reyndi að brjóta uppreisn Postumusar á bak aftur og mætti honum í Gallíu, líklega annað hvort árið 263 eða 265, en Gallienus særðist alvarlega í átökunum og sneri til baka. Gallíska keisaradæmið hélt velli allt til ársins 274 þegar keisarinn Aurelianus lagði það aftur undir rómverska stjórn. Árið 268 gerði Aureolus, yfirmaður hersins í Mediolanum, uppreisn gegn Gallienusi og hóf Gallienus þá umsátur um borgina en var myrtur meðan á því stóð. Claudius Gothicus, hershöfðingi, varð keisari í kjölfarið.


Fyrirrennari:
Valerianus
Keisari Rómaveldis
(253 – 268)
Eftirmaður:
Claudius Gothicus


  NODES