Geirfugl (fræðiheiti Pinguinus impennis) er útdauð fuglategund af álkuætt. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vó um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins.

Geirfugl

Ástand stofns

Útdauða  (1852. Síðasti fuglinn sást á Nýfundnalandi.) (IUCN)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Strandfuglar (Charadriiformes)
Ætt: Svartfuglar (Alcidae)
Ættkvísl: Pinguinus
Pierre Joseph Bonnaterre (1791)
Tegund:
P. impennis

Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Lengst lifði geirfuglinn af við Ísland, en síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir í Eldey 3. júní 1844. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna.

Geirfuglaveiðar og útrýming

breyta

Geirfuglaveiðar voru stundaðar fyrr á öldum og farið út í eyjar þar sem geirfuglar lifðu. Í Íslandslýsingu sem talin er vera eftir Odd Einarsson biskup er þessi lýsing á slíkum veiðum: „Þegar fiskimenn fara þangað til fuglatekju, verða þeir fyrir árásum fugla þessara, sem ráðast á komumenn í þéttri fylkingu og með feiknakrafti og troða þá niður, nema mennirnir sjái við árásinni með því að drepa nokkra hina fremstu í fylkingunni. Þá snúa hinir frá og leggja á flótta,og er þá fyrirhafnarlítið að taka þá á undanhaldinu."[1]

Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands, en hann fékkst á uppboði í London 1971 að undangenginni landssöfnun. (Sjá Geirfuglsmálið.)

Carl Franz Siemsen kaupmaður í Reykjavík var umboðsmaður fyrir ýmsa erlenda vísindamenn og söfn. Árið 1844 er honum falið að ná í geirfugl og bauð hann bændum í Höfnum 300 krónur fyrir dauðan eða lifandi geirfugl. Það varð til þess að 4. júní 1844 fóru fjórir á stað til Eldeyjar og sjá þar tvo geirfugla sem sátu á klettasnös og sneru þá úr hálsliðnum. [2]

Tilvísanir

breyta
  1. Höfundur Qualiscunque
  2. Geirfuglinn, Lesbók Morgunblaðsins, 13. tölublað (03.04.1949)

Tenglar

breyta
  NODES