Gissur Einarsson (biskup)

(Endurbeint frá Gissur Einarsson)

Gissur Einarsson (um 151224. mars 1548) var biskup í Skálholti frá 1540 og fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi.

Gissur var sonur Einars Sigvaldasonar á Hrauni í Landbroti og Gunnhildar Jónsdóttur. Hann var í Skálholtsskóla hjá Ögmundi Pálssyni, sem hafði mikið álit á honum og sendi hann til frekara náms í Hamborg. Þar komst hann í kynni við mótmælendahreyfingar í Norður-Þýskalandi. Hann var vígður til prests skömmu eftir heimkomuna 1538, settist að í Skálholti og var þar í hópi með nokkrum öðrum ungum menntamönnum sem hneigst höfðu til lúthersku, þar á meðal Oddi Gottskálkssyni. Ögmundur kaus Gissur sem eftirmann sinn árið 1539 og er ekki ljóst hvort hann vissi þá af trúarskoðunum Gissurar. Konungur staðfesti valið í Kaupmannahöfn árið eftir. Gissur fór þá heim og tók við skyldustörfum biskups en þegar lútherska hans kom berlega í ljós virðist Ögmundur hafa séð eftir valinu og virðist hafa haft í hyggju að reyna að fá hann dæmdan úr embætti. Áður en til þess kæmi kom Christoffer Huitfeldt til landsins með danskan herflokk, handtók Ögmund 2. júní 1541 á Hjalla í Ölfusi og flutti hann um borð í skip, þar sem hann lést á leið til Danmerkur. Gissur var svo formlega vígður til biskups í Kaupmannahöfn haustið 1542.

Gissur þýddi kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. yfir á íslensku og kom á lútherstrú í biskupsdæmi sínu. Ekki voru allir viljugir til að samþykkja siðbreytinguna og margir prestar sögðu af sér en hvergi kom þó til átaka eða blóðsúthellinga. Gissur og Jón Arason Hólabiskup gerðu með sér samkomulag og létu hvor annan í friði og var Ísland því hálflútherskt og hálfkaþólskt á árunum 1542-1550. Gissur reyndi mikið að breyta ýmsum kaþólskum siðum og venjum og lét meðal annars taka niður krossinn helga í Kaldaðarnesi, sem mikill átrúnaður hafði verið á. Ekki löngu síðar veiktist hann og dó og voru margir sannfærðir um að það stafaði af vanhelgun krossins.

Gissur skildi eftir heitkonu í Skálholti, Guðrúnu Gottskálksdóttur systur Odds félaga síns, þegar hann fór út að taka biskupsvígslu, en þegar hann kom aftur sumarið 1543 var hún þunguð eftir kirkjuprestinn í Skálholti og vildi ekkert með Gissur hafa þótt hann vildi fyrirgefa henni. Hann reið þá vestur á firði og bað Katrínar, dóttur Eggerts Hannessonar hirðstjóra á Núpi í Dýrafirði, og Guðrúnar Björnsdóttur. Brúðkaup þeirra var haldið í Skálholti 7. október 1543. Þau áttu tvö börn sem bæði dóu nýfædd. Eftir lát Gissurar 1548 giftist hún aftur Þórði Marteinssyni presti í Hruna, syni Marteins Einarssonar eftirmanns Gissuarar.


Fyrirrennari:
Ögmundur Pálsson
Skálholtsbiskupar
(1540 – 1548)
Eftirmaður:
Marteinn Einarsson


Heimildir

breyta
  • „Við helgan kross í Kaldaðarnesi. Sunnudagsblað Tímans, 28. febrúar 1965“.
  NODES