Háhyrningur (í eldra máli: vagna (kv.) eða vagnhvalur, sbr. norsku: vagna = að velta eða bylta sér, fræðiheiti: Orcinus orca) er stórt sjávarspendýr, af tannhvalaætt. Háhyrningar eru ein af þrjátíu og fimm tegundum höfrunga, sú stærsta þeirra og eina tegundin af ættinni Orcinus. Þeir eru rándýr og virðast einkum lifa á fiski en aðrir á ýmsum sjávarspendýrum, selum, rostungum og hvölum.

Háhyrningur
Háhyrningar koma upp til að anda.
Háhyrningar koma upp til að anda.
Stærð miðað við meðalmann
Stærð miðað við meðalmann
Ástand stofns
Gögn vantar (IUCN) [1]
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Spendýr Mammalia
Ættbálkur: Hvalir Cetacea
Ætt: Höfrungaætt Delphinidae
Ættkvísl: Orcinus
Tegund:
O. orca

Tvínefni
Orcinus orca
Linnaeus, 1758
Útbreiðslusvæði háhyrninga (blár litur)
Útbreiðslusvæði háhyrninga (blár litur)

Lýsing

breyta
 
Hauskúpa af háhyrningi

Háhyrningar eru fremur gildvaxnir með stutt trýni. Þeir hafa stórt höfuð með stórum, sterkbyggðum neðri kjálka, færri tennur en aðrir höfrungar en þær eru hins vegar mjög stórar og sterkar. Tennurnar er 40-56, 10 til 14 í hvorum kjálka, oddhvassar og geta orðið 10 cm langar. Hvalurinn notar tennurnar ekki til að tyggja með, heldur til að grípa bráðina og drepa.

Mjög stór bakuggi, öðru nafni horn, er á miðju bakinu og er hann allt að 1,8 metrar á hæð, mun stærri en hjá öðrum hvölum og eitt helsta einkenni tegundarinnar. Hann er miklu stærri á fullvöxnum törfum en hjá kúm og stækkar mjög hjá törfunum við kynþroska. Bakugginn sveigist aftur hjá kúm og ungum törfum. Bægslin eru hlutfallslega stór og breið og líkjast spöðum.

Fullvaxnir tarfar geta orðið tæplega 10 m á lengd og allt að 10 tonn að þyngd en kýrnar eru minni og verða sjaldan stærri en 6 m og allt að 7 tonn. Litamynstur háhyrnings er vel afmarkað. Hann er að mestu svartur á baki og hvítur á kviði og litaskilin mjög skörp. Neðri kjálki er hvítur og fyrir aftan augun er áberandi hvítur blettur. Rétt framan við kynfærin kvíslast hvíti liturinn upp á síðurnar. Sporðurinn er hvítur að neðan. Aftan við hornið er óreglulegur grár blettur, svonefndur söðulblettur.

Útbreiðsla og hegðun

breyta

Háhyrningar eru algengir í öllum heimshöfum, á heimskautasvæðum jafnt sem á hitabeltissvæðum. Þeir eru þó mun algengari á landgrunnssvæðum fjarri hitabeltinu. Að sumrinu sjást háhyrningar oft nærri landi, inni á fjörðum og flóum, en yfir veturinn halda þeir sig á meira dýpi. Farmynstur háhyrninga er þó mjög mismunandi og ekki hægt að sjá út úr því neitt einhlítt kerfi.[2] Háhyrningar hafa sést inni á Miðjarðarhafi og Eystrasalti en eru ekki algengir þar. Norður- og suðurmörk útbreiðslunnar fylgja hafísjaðrinum að mestu en þó eru mörg dæmi um háhyrninga inni á rekíssvæðum.

Háhyrningar eru algengir við Íslandsstrendur á sumrin og haustin, einna helst á síldarmiðum undan Austfjörðum, Suður- og Vesturlandi en þeir sjást þó allt umhverfis landið. Þeir elta oft síldar- og loðnuvöður inn í firði. Háhyrningar þurfa fæðu, fisk eða kjöt, sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra daglega og dýr sem er um sjö tonn þarf því frá 175 til 350 kg af fæðu á dag. Háhyrningar eru mjög hraðsyndir og árið 1958 mældist eitt dýr synda 55,5 km/klst. í Kyrrahafi.[3]

Miklar rannsóknir við vesturströnd Norður-Ameríku sýna að háhyrningar skiptast í tvö aðgreind afbrigði. Þau eru ólík í atferli, fæðuvali, lögun horns, litamynstri og erfðaeinkennum.[4] Þessi tvö afbrigði voru upphaflega kölluð „staðbundna afbrigðið“ (á ensku residents) og „flakkaraafbrigðið“ (á ensku transients) en síðar hefur komið í ljós að það er ekki réttnefni þar sem hópar úr báðum afbrigðum geta hvort sem er verið staðbundnir eða flakkarar. Hins vegar er fæðuval fyrrnefnda afbrigðisins nánast eingöngu lax og aðrar fisktegundir en það síðarnefnda sérhæfir sig í veiðum á spendýrum og fuglum. Hugsanlega verða þessi tvö afbrigði skilgreind sem tvær tegundir í framtíðinni. Óvíst er að hvaða marki þessi afbrigðamunur er sá sami á öðrum svæðum.

Háhyrningar eru eins og aðrir höfrungar mikil hópdýr, virðist flakkaraafbrigðið halda sig í fremur litlum hópum, fjölskylduhópum, 2 til 4 dýr, en staðbundna afbrigðið í heldur stærri hópum, frá 10 og allt upp í 50 dýr.

Háhyrningar éta fiska, skjaldbökur, seli, hákarla og jafnvel aðra hvali. Háhyrningavaða getur drepið stórhveli.

Veiðar og fjöldi

breyta
 
Keiko í búri

Háhyrningar hafa verið veiddir um allan heim en þó í litlum mæli. Fiskimönnum hefur verið í nöp við þá vegna tjóns á veiðarfærum og afla. Háhyrningar hafa verið veiddir lifandi í talsverðum mæli til að hafa til sýnis í sædýrasöfnum. Við Ísland voru 63 dýr veidd í þessum tilgangi á árunum 1976 - 1989 og var það frægasta Keiko. Hann var veiddur um 1980 og drapst 2003 eftir misheppnaða tilraun til að enduraðlaga hann að villtu lífi.

Óvíst er um heildarfjölda háhyrninga í heiminum en talning 1987-1989 við í Norðaustur-Atlantshafi, það er við Ísland, Noreg og Færeyjar, sýndi að þar voru um 13 þúsund dýr.[5] Fjöldinn við Ísland var talinn um 5500 dýr.[6] Við hvalatalningu árið 2015 var talið að tæplega 15.000 dýr lifðu í Norður-Atlantshafi.[7]

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Taylor o. fl. 2008
  2. Dalheim og Heyning, 1999
  3. Heimsmetabók Guinness 1990
  4. Hoelzel og Stacey, 1988
  5. NAMMCO 1994
  6. Þorvaldur Gunnlaugsson og Jóhann Sigurjónsson 1990
  7. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).

Heimildir

breyta
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Bjarni Sæmundsson, Íslensk dýr II: Spendýrin Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 1932).
  • Bloch D. og E. Fuglø, Nordatlantens vilde pattedyr (Tórshavn: Føroya Skúlabókagrunnur, 1999).
  • Evans P.G.H., 'The natural history of whales and dolphins (London: Christopher Helm, 1987).
  • Dalheim M.E. og J.E. Heyning, „Killer whale (Orcinus orca)“. Í Ridgway S.H. og R. Harrison (ritstjórar): Handbook of marine mammals (San Diego: Academic press, 1999): 281-322.
  • Heimsmetabók Guinness 1990 (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1989).
  • Hoelzel A.R. og G.A. Dover, „Genetic differentiation between sympatric killer whale populations“, Heredity 66 (1991): 191-195.
  • NAMMCO (North atlantic Marine Mammal Commission) 1994, Report of the Scientific Committee Working Group on Northern Bottenose and killer whales. NAMMCO Annual report 1994: 83-104
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Reykjavík: Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Reykjavík: Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
  • Taylor, B.L., Baird, R., Barlow, J., Dawson, S.M., Ford, J., Mead, J.G., Notarbartolo di Sciara, G., Wade, P. & Pitman, R.L. (2008). Globicephala melas. 2008 IUCN Red List of Threatened Species. IUCN 2008 (Skoðað 26. febrúar 2009).
  • Þorvaldur Gunnlaugsson og Jóhann Sigurjónsson. NASS-87: „Estimation of Whale Abundance Based on Observations Made Onboard Icelandic and Faroese Survey Vessels“, Report of the International Whaling Commisson“ 40 (1990): 571-580.

Tenglar

breyta
  • „Nat.is - Háhyrningur“. Sótt 28. mars 2014.
  • „Hver er meðgöngutími háhyrninga?“. Vísindavefurinn.
  • „Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvar liggja takmörk háhyrninga við veiðar?“. Vísindavefurinn.
  • „Geta einhver dýr, fyrir utan manninn, drepið steypireyði?“. Vísindavefurinn.
  • Whale and Dolphin Conservation Society
  • ARKive Geymt 7 júní 2012 í Wayback Machine Ljósmyndir og vídeó af háhyrningi (texti á ensku)
  • Orca Guardians -kvikmynd um háhyrninga við San Juan Islands (texti á ensku)
  • Orca-Live Geymt 15 ágúst 2000 í Wayback Machine - Hákarlar í Johnstone Strait, British Columbia (texti á ensku)
  • Háhyrningar við Lofoten Geymt 4 maí 2008 í Wayback Machine (texti á norsku)
  • Monterey Bay Whale Watch Photos: Háhyrningar ráðast á sandlægju (texti á ensku)
  NODES
INTERN 1