Hrafna-Flóki Vilgerðarson

(Endurbeint frá Hrafna-Flóki)

Flóki Vilgerðarson var norskur víkingur, sonur Vilgerðar Hörða-Káradóttur, sem hélt vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann sigldi frá Flókavörðu á mörkum Rogalands og Hörðalands og hafði meðferðis fjölskyldu sína og frændlið, svo og búfénað, því ætlunin var að setjast að í hinu nýja landi. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur og Þórólfur (Þorsteinsson Grímssonar kamban) og Faxi sem Faxaflói er sagður heita eftir. Kona Flóka er sögð hafa verið Gró, systir Höfða-Þórðar landnámsmanns í Skagafirði.

Flóki sigldi þó ekki beint til Íslands, heldur kom fyrst við við á Hjaltlandi. Þar drukknaði Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Flóki kom einnig við í Færeyjum og gifti þar aðra dóttur sína. Þrándur í Götu var afkomandi hennar. Hann hafði með sér þrjá hrafna, sem hann hafði að því er segir í Hauksbók blótað í Noregi, og lét þá vísa sér leið til Íslands; sleppti fyrst einum og sá flaug aftur í átt til Færeyja, sá næsti flaug beint upp í loft og sneri aftur en sá þriðji flaug fram um stafn og þá vissi Flóki að hann var að nálgast land.

Hrafna-Flóki kom að Horni eystra og sigldi svo suður og vestur fyrir land og nam land í Vatnsfirði á Barðaströnd um árið 865. Rétt utan við bryggjuna á Brjánslæk, niðri við sjó, eru Flókatóftir. Þar eru friðlýstar rústir og segja munnmæli að Hrafna-Flóki hafi fyrstur haft þar vetursetu á Íslandi með mönnum sínum.

Í Landnámu segir að þá hafi Vatnsfjörður verið fullur af fiski og nýbúarnir stundað veiðarnar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenska veturinn. Leiddi þetta til þess að allt kvikféð drapst um veturinn og yfirgaf fólkið þá landið aftur. Þegar voraði gekk Hrafna-Flóki á fjöll upp af Vatnsfirði og sá fjörð fullan af ís. Í Landnámabók segir svo: „Vár var heldr kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum, því kölluðu þeir landit Ísland, sem það hefur síðan heitir.“[1] Hefur landið upp frá því verið kallað Ísland.

Langt var liðið á sumar þegar Flóki og förunautar hans héldu úr Vatnsfirði og „beit þeim eigi“ fyrir Reykjanes, það er að segja að þeir fengu ekki nægan byr í seglin. Urðu Flóki og Herjólfur viðskila og hafði Flóki vetursetu í Borgarfirði. Tafðist því brottferð þeirra um einn vetur.

Hrafna-Flóki sneri aftur til Íslands síðar og nam þá land við austanverðan Skagafjörð, frá Stafá austur að Flókadalsá, það er að segja byggðina á Bökkum og Flókadal vestan ár, og er það skammt frá landnámi Þórðar mágs hans. Landnámsjörð hans var Mór í Flókadal, sem seinna skiptist í Ysta-Mó, Mið-Mó og Syðsta-Mó. Oddleifur (stafur) hét sonur hans sem bjó á Stafhóli og deildi við Hjaltasonu. Enn átti hann dótturina Þjóðgerði.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta

Tenglar

breyta
  NODES