Hrefna (einnig nefnd hrafnreyður, hrafnhvalur og léttir) er sjávarspendýr af ætt reyðarhvala eins og hnúfubakur, langreyður, sandreyður og steypireyður.

Hrefna
Hrefna við yfirborð sjávar. Mynd tekin á Skjálfanda við Ísland.
Hrefna við yfirborð sjávar.
Mynd tekin á Skjálfanda við Ísland.
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: DýraríkiAnimalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Spendýr Mammalia
Undirflokkur: Legkökuspendýr Eutheria
Ættbálkur: Hvalir Cetacea
Undirættbálkur: Skíðishvalir Mysticeti
Ætt: Reyðarhvalir Balaenoptiidae
Ættkvísl: Balaenoptera
Tegund:
B. acutorostrata
B. bonaerensis

Tvínefni
Balaenoptera acutorostrata
Lacepede, 1804
Balaenoptera bonaerensis
Burmeister, 1867
Svæði Mið-NorðurAtlandshafsstofns
Svæði Mið-NorðurAtlandshafsstofns
Svæði Suður-Íshafsstofns
Svæði Suður-Íshafsstofns
Svæði dverghrefnustofns
Svæði dverghrefnustofns

Flokkun

breyta

Hrefnum er skipt í tvær tegundir, önnur tegundin er algeng á norðurhveli jarðar (Balaenoptera acutorostrata) og hin tegundin lifir nálægt suðurskautinu og á suðurhveli jarðar (Balaenoptera bonaerensis). Hrefnur á norðurhveli eru svo flokkaðar í þrjár undirtegundir sem eru hrefnur af Mið-Norður-Atlantshafsstofni (MI), hrefnur í Norður-Kyrrahafi og dverghrefnur.

Lýsing

breyta
 
Hrefna
1. Skíði í efri skolti
2. Blástursop
3. Svört eða dökkgrá að lit að ofan
4. Horn eins og sigð í laginu
5.
6. Sporður
7. Hvít eða ljósgrá að neðan
8. Bægsli
9. Hvít rönd á báðum bægslum
10. 50-70 spikfellingar (rengi)
11. Frammjótt höfuð

Líkami hrefnu er straumlínulaga og höfuðið stutt og áberandi frammjótt. Hrefnan er svört eða dökkgrá á baki, gráleit á hliðum og hvít á kvið. Hvít þverrönd á bægslum er eitt aðaleinkenni hrefnu á norðurhveli. Blástur (útöndunargufa) hrefnu sést ekki nema við sérstök skilyrði. Spik liggur í fellingum (rengi) að neðanverðu framan til. Spikfellingarnar eru um 50 til 70 talsins.

Hrefna er næstminnsta tegund skíðishvala og sú minnsta sem heldur sig á norðurhveli. Kvendýr og karldýr eru að meðaltali 6,9 og 7,4 m löng við kynþroska sem verður þegar dýrin ná 5-8 ára aldri. Kýrnar (kvendýrin) eru aðeins stærri en tarfarnir (karldýrin). Tarfar við Ísland verða kynþroska 5 ára, og kvendýr einu ári eldri. Hámarkslengd hrefnu er áætluð frá 9,1 til 10,7 m hjá kvendýrum og frá 8,8 til 9,8 m hjá karldýrum. Bæði kynin vega venjulega 4-5 tonn við kynþroska og hámarksþyngd getur verið 14 tonn. Hrefnur lifa venjulega í 30-50 ár en geta orðið 60 ára. Elsta hrefna sem hefur verið aldursgreind við Ísland var 43 ára tarfur.

Bak, horn og blástursop sjást strax þegar hrefna kemur upp á yfirborðið til að anda. Hrefnur eiga til að koma upp úr djúpinu á mikilli ferð og stökkva skyndilega upp úr sjónum og hafa vegna þess sums staðar fengið nafnið léttir. Hrefnan blæs 3-5 sinnum milli djúpkafana og stingur sér síðan í djúpið. Djúpkafanir vara oftast í 2-5 mínútur en hrefna getur verið allt að 20 mínútur í kafi. Hámarkshraði hrefnu á sundi er áætlaður 20-30 km/klst.

Mökun, meðganga og burður

breyta

Í Norður-Atlantshafi fer mökun fram á tímabilinu desember til maí en nær hámarki í febrúar. Meðgöngutími hrefnu er 10 mánuðir og fæðast því flestir kálfar í desember. Nýfæddir kálfar eru 2,4 til 2,8 m langir. Þeir nærast á mjólk í um fimm mánuði og vega þá um 700 kg og eru orðnir 4,5 m á lengd við lok mjólkurtímabilsins.

Fæða

breyta

Í efri skolti hrefnu eru skíði til að sía fæðu úr sjónum. Skíðin eru 240-360 talsins á hvorri hlið. Hrefna nærist mest við yfirborð sjávar og notar gleypiaðferð, lætur neðri kjálkann síga og syndir þannig inn í sem þéttastan hóp af bráð svo munnholið fyllist af sjóblandaðri fæðu. Sjórinn þrýstist svo út milli skíðanna en fæðan situr eftir. Talið er að stór hrefna geti síað 800 lítra af sjó í einni munnfylli. Hrefna er ein mesta fiskætan meðal skíðishvala en lifir þó einnig á ljósátu. Fæða hrefnu er fjölbreytt, allt frá smáum svifkrabbadýrum sem vega brot úr grammi upp í stóra fiska. Í Suður-Íshafinu lifir hrefna að mestu leyti á ljósátu. Hrefnur við Ísland lifa á loðnu, síli, síld, þorski, stórum beinfiskum, ljósátu og ýmsum smáfiski. Talið er að ljósáta og loðna séu meginfæðan fyrir norðan Ísland en sandsíli fyrir sunnan og vestan land. Athuganir hafa sýnt að fæða hrefnu við Ísland er svona samsett:

  • Ljósáta 39 %
  • Loðna 30 %
  • Sandsílaætt 25 %
  • Stórir beinfiskar 6 %

Háhyrningur er eina dýrið fyrir utan manninn sem vitað er að lifi á hrefnu.

Fjöldi og dreifing

breyta

Við hvalatalningu árið 2015 var talið að yfir 42.000 dýr lifðu í Mið-/Norður-Atlantshafi, þar af um 14.000 við Ísland.[1] Talið er að hrefnustofninn í heiminum sé yfir 1 milljón dýr, þar af 700 til 800 þús. í Suður-Íshafinu. Hrefnustofn á íslenska landgrunninu er talinn um 56 þúsund dýr. Hrefnur eru dreifðar um öll höf og finnast oft við ísröndina á heimskautasvæðum sem og í hitabelti en kjörsvæði þeirra eru úthafssvæði. Hrefnur eru fardýr sem ferðast að heimskautunum á vorin og í átt að miðbaug á haustin. Munur virðist á farhegðun hrefnu við Ísland eftir kyni, kýrnar koma fyrr á vorin og fara einnig fyrr á haustin. Hrefnur eru algengastar við Ísland á tímabilinu maí til september og finnast þá á landgrunninu allt í kringum landið.

Hrefnuveiðar

breyta
 
Kvóti á hrefnuveiðum Norðmanna (blá lína, 1994-2006) og veiðar (rauð lína, 1946-2005) í tölum (Hagtölur frá norskum stjórnvöldum)

Í norrænum fornritum eru heimildir um hvalveiðar allt frá árinu 800. Á 11. öld var algengt að veiða hrefnur með skutli. Í Vestur-Noregi tíðkaðist að reka hrefnur inn í firði og drepa þær með eiturörvum.

Hrefnur voru ekki veiddar við Ísland fyrr en á 20. öld. Hrefnuveiðar voru stundaðar á Íslandi á smábátum á árunum 1914 til 1985. Hrefnuveiðar voru fyrst stundaðar á Ísafjarðardjúpi en síðar einnig frá Breiðafirði, Húnaflóa, Eyjafirði og Austfjörðum. Veiðarnar jukust verulega eftir 1960 og veidd voru um 200 dýr á ári á árunum 1975-1985. Norskir smábátar stunduðu einnig hrefnuveiðar við Ísland á árunum 1948 til 1975.

‎Mikill styrr hefur staðið um hvalveiðar á alþjóðavettvangi undanfarna áratugi. Einungis Íslendingar, Norðmenn, Grænlendingar og Japanar stunda nú hrefnuveiðar. Hrefnuveiðar lágu niðri við Ísland frá því að bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum í ábataskyni var sett árið 1986 þar til Íslendingar tóku aftur upp vísindaveiðar á hval árið 2003 í kjölfarið á endurinngöngu landsins í hvalveiðiráðið 2002. Þeir hófu svo hrefnuveiðar í atvinnuskyni á ný árið 2007. Talið er að hrefnustofninn við Ísland þoli veiði á a.m.k. 200-300 dýrum á ári án þess að skerðast.

Hvalaskoðun

breyta

Hrefnur eru ein algengasta hvalategundin og því auðveldara að sýna hrefnur en ýmsar aðrar tegundir. Hrefnur eru forvitnar og koma oft upp til að skoða fólk. Hvalaskoðun er sums staðar á Íslandi orðin mikilvæg tekjulind í ferðamennsku, t.d. á Húsavík.

Heimildir

breyta
Margmiðlunarefni tengt hrefnu
Hvalahljóð
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Minke Whale“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. júlí 2006.
  • „Hafrannsóknarstofnun Lífríki sjávar - Hrefna“ (PDF). Sótt 28. júlí 2006.
  • „Hvalir við Ísland - Kennsluefni í sjávarlíffræði við Háskólann á Akureyri“ (PDF). Sótt 28. júlí 2006.
  1. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).
  NODES