Innréttingarnar
Innréttingarnar var framtak nokkurra Íslendinga á 18. öld, þeirra á meðal Skúla Magnússonar, til að koma á laggirnar verksmiðjuframleiðslu á Íslandi.
Stofnun Hins íslenska hlutafélags
breytaInnréttingarnar gengu undir ýmsum nöfnum þegar í upphafi. Það var stofnað af íslensku hlutafélagi sem á íslensku hét „Hið íslenska hlutafélag” og var fyrsta sinnar tegundar sem stofnað var á landinu. Félagið var stofnað af íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 17. júlí 1751 til að vinna að viðreisn íslensks efnahags. Hálfu ári eftir að félagið var stofnað, í janúar 1752, fékk það stórfelldan fjárstuðning og sérleyfi konungs til framkvæmda. Þá var heiti þess snarað úr íslensku á dönsku, og nefnt: „Det Privilegerte Islandske Interessentskab”. Skammstöfunin var PII, og átti að geta staðið fyrir nafni félagsins bæði á dönsku og latínu.
Starfsemi
breytaVið þessi þáttaskil efldist félagið mjög að fjármunum og verkefnum. Starfsemin varð fjölþætt, tók til jarðræktartilrauna, brennisteinsvinnslu, ullarvefsmiðja, litunar, kaðlagerðar, skinnaverkunar, skipasmíða og útgerðar svo það helsta sé nefnt. Starfsemin fór fram víða um land, en miðstöð framkvæmdanna var í Reykjavík og nágrenni. Þessar framkvæmdir voru á danskri tungu kallaðar „De Nye Indretninger”, eða „hinar nýju framkvæmdir”. Þaðan kom því heitið „Innréttingarnar” sem fór að festast við athafnir og verkstæði „Hins íslenska hlutafélags“. Fyrsta áratuginn var flest það sem að ofan er nefnt í fullri starfsemi, en eftir 1760 tengdist Innréttingaheitið fyrst og fremst ullarvefsmiðjunum í Aðalstræti, en þær störfuðu til ársins 1803. Brennisteinsvinnslan hélt einnig velli fram yfir aldamótin 1800, fyrst í Krýsuvík en síðan á Húsavík. Á Íslandi hefur oft verið talað um starfsemi Hins íslenska hlutafélags sem „Innréttingar Skúla Magnússonar landfógeta”, en í dönskum skjölum eru þær fremur nefndar „Hans Majestæt Høystsalig Kong Friderich den 5. stiftede Indretninger.”
Tengt efni
breyta- Runólfur Klemensson, verslunarmaður
Tenglar
breyta- Bruninn í innréttingum Skúla fógeta 1764; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1941
- Íslenzkar iðnartilraunir. – Eimreiðin, 1. tölublað (01.01.1895), p. 19-28
- Áslaug Sverrisdóttir, KALEMANK OG KLÆÐI Um tæknileg einkenni á framleiðslu vefsmiðju Innréttinganna 1751–1803, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 97. árg., 2002-2003 (01.01.2004), Bls. 5