Kjördæmi Íslands

kjördæmaskipting fyrir þingkosningar á Íslandi

Íslandi er nú skipt í sex kjördæmi fyrir alþingiskosningar samkvæmt 31. grein Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og kosningalögum. Þrjú eru á höfuðborgarsvæðinu og þrjú á landsbyggðinni og hvert þeir kýs á milli 7 og 14 þingmenn á Alþingi. Núverandi skipan kjördæma var tekin upp í stjórnarskrá 1999 en áður var landinu skipt í átta kjördæmi og þar áður var notast við sýslur og kaupstaði sem kjördæmi.

Kjördæmin eru eftirfarandi (fjöldi þingsæta í svigum):
· Reykjavíkurkjördæmi norður (11)
· Reykjavíkurkjördæmi suður (11)
· Norðvesturkjördæmi (7)
· Norðausturkjördæmi (10)
· Suðurkjördæmi (10)
· Suðvesturkjördæmi (14)

Kjördæmissæti og jöfnunarsæti

breyta

Tvenns konar þingsætum er úthlutað samkvæmt þessu kerfi eftir mismunandi reglum. Kjördæmissætum er úthlutað samkvæmt d'Hondt-reglunni í samræmi við niðurstöðu kosninga innan hvers kjördæmis. Jöfnunarsæti taka hins vegar einnig mið af úrslitum á landsvísu og er ætlað að leiðrétta misræmi á milli fylgis flokks á landsvísu og fjölda kjördæmasæta. Einungis framboð með 5% atkvæða eða meira koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta.

Atkvæðavægi

breyta

Núverandi skiptingu var komið á með stjórnarskrárbreytingu árið 1999 og var ætlað að jafna vægi atkvæða milli landshluta frá því, sem áður var, en allt frá því að þéttbýli fór að myndast á Íslandi hefur því verið mismunað með hlutfallslega minna atkvæðavægi en dreifbýlinu. Í kosningunum 1999, sem voru þær síðustu þar sem kosið var eftir eldri kjördæmaskipan, var mesti munur atkvæðavægis rétt tæplega ferfaldur á milli Vestfjarðakjördæmis og Reykjanesskjördæmis.

Núverandi kjördæmaskipting byggir á þremur kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu og þremur á landsbyggðinni. Misræmi í atkvæðavægi er enn þá til staðar (sem dæmi má nefna að í Alþingiskosningunum 2021 hefði Suðvesturkjördæmi átt að fá 6 þingsæti til viðbótar ef miðað hefði verið við fjölda á kjörskrá) en ákvæði í stjórnarskrá segja, að ef fjöldi kosningabærra manna á bakvið hvert sæti í einu kjördæmi er orðinn helmingur þess sem hann er í því kjördæmi þar sem flestir eru á bakvið hvert þingsæti þegar gengið er til kosninga, skal færa eitt kjördæmissæti á milli þeirra fyrir næstu kosningar. Kjördæmi getur þó ekki haft færri en 6 kjördæmissæti.

Reglunni hefur verið beitt þrisvar sinnum hingað til. Í alþingiskosningunum 2003 voru kjósendur á kjörskrá fyrir hvert þingsæti ríflega tvöfalt fleiri í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi og því var eitt kjördæmissæti flutt þar á milli fyrir alþingiskosningarnar 2007. Hröð íbúafjölgun í Suðvesturkjördæmi og stöðnun íbúafjölda í Norðvesturkjördæmi varð til þess að litlu munaði að kjósendur á kjörskrá fyrir hvert þingsæti í kosningunum 2007 væru tvöfalt fleiri í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi, þrátt fyrir tilflutning sætisins. Í kosningunum 2009 voru aftur tvöfalt fleiri kjósendur á kjörskrá fyrir hvert þingsæti í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi og því var annað kjördæmissæti flutt frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis í kosningunum 2013. Eftir kosningarnar 2021 var sama staða uppi í þriðja skiptið í sömu kjördæmum og því færist þriðja kjördæmissætið frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis fyrir kosingarnar 2024. Eftir þá tilfærslu verða aðeins sex kjördæmissæti eftir í Norðvesturkjördæmi en það er stjórnarskrárbundið lágmark. Samkvæmt núgildandi reglum verða því ekki fleiri þingsæti flutt frá Norðvesturkjördæmi, óháð því hvernig þróun íbúafjölda verður.

Kjördæmi Kjósendur á
kjörskrá (2024) [1]
Þingmenn í
kjördæmi (2024)
Kjósendur á kjörskrá
að baki hverjum
þingmanni (2024)
Norðausturkjördæmi 31.039 10 3.104
Norðvesturkjördæmi 22.348 7 3.193
Reykjavíkurkjördæmi norður 47.486 11 4.317
Reykjavíkurkjördæmi suður 47.503 11 4.318
Suðurkjördæmi 40.994 10 4.099
Suðvesturkjördæmi 79.052 14 5.647
Tímabil Þingmenn Kosningakerfi
1844-1852 26 Einmenningskjördæmi og konungskjörnir
1858-1869 27 Einmenningskjördæmi og konungskjörnir
1874-1903 36 Einmennings- og tvímenningskjördæmi og konungskjörnir
1908-1914 40 Einmennings- og tvímenningskjördæmi og konungskjörnir
1916-1919 40 Einmennings- og tvímenningskjördæmi og landskjörnir
1920-1933 42 Einmennings- og tvímenningskjördæmi og landskjörnir
1934-1942 49 Einmennings- og tvímenningskjördæmi og uppbótarsæti
1942-1959 52 Einmennings- og tvímenningskjördæmi og uppbótarsæti
1959-1983 60 Hlutfallskosningar í átta kjördæmum og uppbótarsæti
1987-1999 63 Hlutfallskosningar í átta kjördæmum og uppbótarsæti
2003- 63 Hlutfallskosningar í sex kjördæmum og uppbótarsæti
 
Kjördæmaskipan Íslands frá 1959 til 1999.

Fjöldi þingmanna á Alþingi hefur aukist talsvert síðan það var endurreist árið 1843. Þá voru 20 þingmenn kosnir í einmenningskjördæmum en sex voru konungskjörnir, þ.e. skipaðir af Danakonungi. Á tímabilinu 1843-1874 þegar Íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá var Alþingi ráðgefandi þing. Það þýddi að Danakonungur hafði lokaorðið um alla lagasetningu á Íslandi. Árið 1858 var kjördæmaskipan breytt þannig að Skaftafellssýslu var skipt í tvennt og einum þingmanni bætt við. Árið 1874 er Íslendingar hlutu sína fyrstu stjórnarskrá var kosningakerfinu breytt þannig að 30 þingmenn voru kosnir bæði í einmennings- og tvímenningskjördæmum og áfram sex konungskjörnir.

Með Heimastjórninni 1904 tók íslenska flokkakerfið, sem nefnt hefur verið fjórflokkakerfið, að taka á sig mynd. Þá voru 34 þingmenn kosnir í einmennings- og tvímenningskjördæmum og sex konungskjörnir, alls 40 þingmenn. Kjördæmaskiptingin hyglaði strjálbýlinu á kostnað þéttbýlisins. Kosningaréttur karla var gerður nokkuð almennur en ungmenni, vinnuhjú og konur höfðu hann ekki.[2] Árið 1915 var kosningakerfi landsins breytt með þeim hætti að konur fengu nú kosningarétt, konungskjörnir þingmenn voru lagðir af og í þeirra stað komu sex landskjörnir þingmenn sem kosnir voru til 12 ára í senn með landið allt sem eitt kjördæmi. Ári seinna var fyrst kosið í alþingiskosningum eftir þessu nýja kerfi. Sama ár voru tveir stjórnmálaflokkar stofnaðir; Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur landsins, og Alþýðuflokkurinn, stjórnmálaarmur ASÍ. Fyrir kosningarnar 1920 var kosningakerfinu breytt þannig að þingmönnum var fjölgað um tvo, þeir voru því alls 42. Fjórir þingmenn voru kosnir í hlutfallskosningu í Reykjavík, þetta var gert til að minnka mun á atkvæðavægi til sveita annars vegar og í þéttbýli hins vegar. Kjörtímabil landskjörinna þingmanna var lækkað í átta ár.

Árið 1934 var kjördæmaskipunin fest í sessi í stjórnarskránni. Þingmönnum var fjölgað um sjö, úr 42 í 49, kosningaaldur var lækkaður í 21 ár og ákvæði um að sveitastyrkþegar mættu ekki kjósa var afnumið. Landskjörnu þingmennirnir sex voru afnumdir og þeirra í stað var 11 uppbótarsætum komið á, þannig að byggt á niðurstöðum kosninga var sætunum skipt á milli kjördæma til þess að jafna atkvæðavægi. Árið 1942, á meðan seinni heimsstyrjöldin geysaði, var samþykkt önnur breyting á stjórnarskránni: þremur þingmönnum var bætt við. Nú voru 21 þingmenn kosnir í einmenningskjördæmum, 12 þingmenn voru kosnir með hlutfallskosningu í sex tvímenningskjördæmum, átta þingmenn voru kosnir með hlutfallskosningu í Reykjavík og uppbótarsæti voru 11. Siglufjörður var gerður að kjördæmi. Þessi breyting á kosningakerfinu var gerð í óþökk leiðtoga Framsóknarflokksins, Hermanns Jónassonar og olli ósætti á milli hans og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins (sjá Eiðrofsmálið).

Árið 1959 var kosningakerfinu gjörbreytt þannig að þau 28 kjördæmi sem áður voru voru lögð niður og tekin var upp hlutfallskosning í átta kjördæmum, Reykjavíkurkjördæmi hélst óbreytt en eldri kjördæmi sem höfðu miðaðst við sýslur eða kaupstaði voru sameinuð eftir landshlutum.[3] Þingmönnum var fjölgað um átta í 60, fjöldi þingmanna í hverju kjördæmi var á bilinu 5-12. Þessi breyting á kosningakerfinu var hluti af samkomulagi Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins fyrir Viðreisnarstjórnina. Framsóknarflokkurinn, sem hafði mikið fylgi á landsbyggðinni tapaði mjög á þessari breytingu og var henni mótfallinn. Þetta fyrirkomulag hélst óbreytt í 28 ár, til ársins 1987.

Árið 1987 var kosningakerfinu breytt þannig að 50 þingmenn voru kosnir í kjördæmunum átta og uppbótarsætin höfð 13 talsins. „Breytingunni var ætlað að jafna atkvæðavægi milli flokka eins og hægt væri, án þess þó að útrýma misvægi atkvæða milli kjördæma. Þetta var gert með því að þróa einstaklega flókið kosningakerfi sem einungis fámennur hópur sérfræðinga skildi hvernig virkaði. Samstaða var um tillögurnar milli flokka.“[4] Víðtæk óánægja var með kosningakerfið í þessari mynd. Um miðjan 10. áratuginn höfðu allir stjórnmálaflokkar sem þá voru á þingi ályktað um að endurskoða ætti kerfið í því skyni að draga úr misvægi atkvæða og einfalda reiknireglur um úthlutun þingsæta.[5]

Árið 1997 skipaði forsætisráðherra nefnd með fulltrúum allra þingflokka undir formennsku Friðriks Sophussonar sem átti að gera tillögur um úrbætur. Tillögur þeirrar nefndar fólu í sér að fækka kjördæmum og hafa þau jafnari að íbúafjölda þannig að hægt væri að hafa áþekkan fjölda þingmanna í hverju þeirra. Það kallaði á skiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi en sameiningu kjördæma á landsbyggðinni.[5] Tillögur nefndarinnar um kjördæmaskipan voru svo teknar upp með breytingum á stjórnarskrá sem samþykktar voru á Alþingi bæði fyrir og eftir kosningarnar 1999 og einnig með nýjum lögum um kosningar til Alþingis sem samþykkt voru 1999. Fleiri breytingar voru gerðar á kosningakerfinu en mörk kjördæma. Uppbótarsætin voru nú kölluð jöfnunarsæti og settur var 5% þröskuldur á landsvísu fyrir úthlutun þeirra til stjórnmálaflokka. Þá voru tekin upp mun opnari ákvæði í stjórnarskrá um kjördæmaskipanina en áður höfðu verið, en nánari útfærsla hennar færð í kosningalöggjöfina með þeim varnagla að breytingar á ákvæðum um kjördæmin þurfa samþykki ⅔ atkvæða á Alþingi.

Um miðjan mars 2010 var lagt fram frumvarp, með undirskrift 19 þingmanna, þess efnis að breyta ætti landinu í eitt kjördæmi. Flutningsmaður var Björgvin G. Sigurðsson.[6] Frumvarpinu var vísað til sérnefndar um stjórnarskrármál sem skilaði ekki áliti á því.

Kjördæmi

breyta

Kjördæmin og þau sveitarfélög sem til þeirra teljast

  1. Norðvesturkjördæmi:
  2. Norðausturkjördæmi:
  3. Suðurkjördæmi:
  4. Suðvesturkjördæmi:
  5. Reykjavíkurkjördæmi suður.
  6. Reykjavíkurkjördæmi norður.

Tilvísanir

breyta
  1. „Talnaefni alþingiskosninga 2024“. Þjóðskrá. Sótt 3. nóvember 2024.
  2. Gunnar Helgi Kristinsson. Íslenska stjórnkerfið. bls 36
  3. Kosningar til Alþingis - 3. mál lagafrumvarp 79. löggjafarþingi 1959.
  4. Gunnar Helgi Kristinsson. Íslenska stjórnkerfið. bls 73
  5. 5,0 5,1 „Skýrsla forsætisráðherra um endurskoðun á kjördæmaskipun og tilhögun kosninga til Alþingis“. Alþingi - þingskjal 141 frá 123. löggjafarþingi. 6. október 1998.
  6. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum

Heimild

breyta

Tenglar

breyta


  NODES