Kosningar til stjórnlagaþings á Íslandi 2010

Kosningar til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 voru haldnar þann 27. nóvember 2010. Hver og einn kjörgengur Íslendingur gat kosið 25 frambjóðendur og raðað þeim í forgangsröð. Ráðgefandi stjórnlagaþing sem verður skipað 25 fulltrúum mun síðan koma saman í síðasta lagi þann 15. febrúar 2011 til þess að endurskoða stjórnarskrá Íslands.[1] Kjörsókn var 36,77% og þurfti hver frambjóðandi 3.200 atkvæði til þess að ná kjöri.[2] Kosið var í fyrsta sinn með svokallaðri Forgangsröðunaraðferð[3] (e. Single transferable vote).

Ákvörðun Hæstaréttar

breyta

Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings með ákvörðun þann 25. janúar 2011. [4] Sex hæstaréttardómarar fjölluðu um kærur vegna kosningarinnar. Þeir voru: Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Hæstarétti bárust kærur frá Óðni Sigþórssyni, Skafta Harðarsyni og Þorgrími S. Þorgrímssyni. Lutu þær að ýmsum ágöllum sem kærendur töldu vera á framkvæmd kosningarinnar. Hæstiréttur fann fimm annmarka á framkvæmd kosningarinnar, þar af tvo verulega annmarka.

  1. Strikamerking kjörseðla með númeri í samfelldri hlaupandi töluröð, var talin verulegur annmarki á framkvæmd kosningarinnar og þótti brjóta í bága við ákvæði laga um leynilegar kosningar sbr. "grundvallarákvæði stjórnarskrárinnar um opinberar kosningar".[5]
  2. Pappaskilrúm sem notuð voru við kosninguna, þóttu ekki fullnægja áskilnaði laga um að kjósendur skyldu kjósa í kjörklefum. Var notkun þeirra talin annmarki á framkvæmd kosningarinnar, "þar sem unnt var að sjá á kjörseðil kjósanda, sem nokkurn tíma hlaut að taka að fylla út ef allir valkostir voru notaðir, var það til þess fallið að takmarka rétt kjósanda til að nýta frjálsan kosningarétt sinn ef maður, sem hann var háður, fylgdist með honum eða kjósandi hafði raunhæfa ástæðu til ætla að svo gæti verið".[6]
  3. Ekki var fylgt ákvæði kosningalaga um að menn skyldu brjóta saman kjörseðil sinn áður en hann var lagður í kjörkassann, en sú regla hefur það að markmiði skv. Hæstarétti "að tryggja rétt og skyldu kjósanda til leyndar um það hvernig hann ver atkvæði sínu".[7] Meiri hluti Hæstaréttar taldi þetta annmarka á framkvæmd kosningarinnar. Hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Viðar Már Matthíasson voru á annarri skoðun um þetta atriði og töldu það ekki brjóta gegn ákvæði laga.
  4. Kjörkassarnir uppfylltu að mati Hæstaréttar ekki skilyrði laga um að hægt væri að læsa þeim. Þá taldi Hæstiréttur kjörkassana "þeirrar gerðar að unnt var án mikillar fyrirhafnar að taka þá í sundur og komast í kjörseðla. Þessi umbúnaður kjörkassanna var því til þess fallinn að draga úr öryggi og leynd kosninganna".[8] Þótti þetta annmarki á kosningaframkvæmd.
  5. Samkvæmt túlkun Hæstaréttar á kosningalögum átti landskjörstjórn að kveða til "valinkunna menn" til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Hæstiréttur taldi að í ljósi þess að upp kom vafi um hvernig skilja bæri skrift á 13-15% atkvæða við kosninguna, hafi verið sérstök þörf á nærveru slíkra fulltrúa við kosninguna til að gæta réttinda frambjóðenda. Taldi Hæstiréttur þetta verulegan annmarka á framkvæmd kosningarinnar.[9]

Hæstiréttur vísaði til þess að það væri hlutverk löggjafans að setja skýrar og ótvíræðar reglur um framkvæmd opinberra kosninga þar sem tekið væri réttmætt tillit til aðstæðna sem leiða af sérstöku eðli þeirra. Það væri á hinn bóginn ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd kosninga vegna fjölda frambjóðenda eða nýs verklags sem hentugt þætti vegna rafrænnar talningar atkvæða.

Þá vísaði Hæstiréttur til fordæmis fyrir niðurstöðu sinni. Vísaði hann til þess að í réttarframkvæmd hefðu kosningar verið ógiltar þegar framkvæmd þeirra hefur verið í andstöðu við lög og til þess fallin að rjúfa kosningaleynd. Þannig hefði til dæmis kosning í Helgafellssveit um sameiningu sveitarfélaga verið ógilt. Með þeim dómi var komist að þeirri niðurstöðu að kosningin skyldi ógilt þar sem kjörseðill var þannig úr garði gerður að skrift sást í gegnum hann þótt hann væri brotinn saman. Í niðurstöðu sinni í því máli sagði Hæstiréttur:

Kjörseðillinn tryggir því ekki, að kosningin hafi verið leynileg samkvæmt 14. gr. laga nr. 8/1986, sem er meðal grundvallarákvæða í íslenskum lögum um opinberar kosningar, sbr. og 87. gr. og 91. gr. laga nr. 80/1987 og 31. gr. stjórnarskrárinnar. Brestur í þessu efni er í eðli sínu til þess fallinn að hafa áhrif á úrslit kosningar, og getur 36. gr. sveitarstjórnarlaga ekki leitt til annarrar niðurstöðu.[10]

Annað fordæmi er til úr réttarframkvæmd þar sem kosningar hafa verið ógiltar vegna brests á kosningaleynd. Hreppsnefndarkosningar í Geithellnahreppi 25. júní 1978 voru ógiltar. Líkt og í fordæminu sem Hæstiréttur vísaði til í ákvörðun sinni um stjórnlagaþingskosninguna, voru kjörseðlar þeir sem notaðir voru við þessa kosningu úr svo þunnu efni að skrift sást í gegn um þá þegar þeir höfðu verið brotnir saman. Um þetta sagði Hæstiréttur:

Fallast ber á þá úrlausn héraðsdómara, að kjörseðill hafi eigi verið svo úr garði gerður sem lög áskilja samkvæmt 50. gr. laga nr. 52/1959, sbr. 1. gr. laga nr. 5/1962, sbr. 1. gr. laga nr. 5/1966 og meginreglu 7. gr., 2. málsgr., laga nr. 5/1962, og tryggi ekki, að kosning sé leynileg. Ákvæði 15. gr., 1. málsgr., laga nr. 58/1961, er býður, að kosningar þessar skuli vera leynilegar, er vissulega meðal grundvallarákvæða í íslenskum lögum um opinberar kosningar.[11]

Ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna var umdeild. Nokkru eftir ákvörðunina skipaði Alþingi s.k. stjórnlagaráði, sem skyldi vera ráðgefandi um nýja stjórnaskrá. Stjórnlagaráðið var skipað flestum þeim er kosnir voru til stjórnlagaþingsins og tók til starfa um vorið.

Hæstiréttur hafnaði síðar ógildingarkröfu Öryrkjabandalagsins varðandi forsetakosnningarnar 2012. Þorvaldur Gylfason hélt því fram í kjölfarið að í þessum tveimur ákvörðunum væri hrópandi ósamræmi. [12]

Hlutverk

breyta

Þau atriði sem stjórnlagaþingið átti sérstaklega að taka til umfjöllunar voru:[1]:

Úrslit

breyta

Eftirtaldir aðilar náðu kjöri á stjórnlagaþingið:

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Lög um stjórnlagaþing“. Sótt 11. október 2010.
  2. 36,77% kosningaþátttaka
  3. „Aðferðafræði við kosningu“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. október 2020. Sótt 28. október 2017.
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. janúar 2016. Sótt 25. janúar 2011.
  5. VI.1 kafli ákvörðunar Hæstaréttar 25. janúar 2011
  6. VI.2 kafli ákvörðunar Hæstaréttar 25. janúar 2011
  7. VI.3 kafli ákvörðunar Hæstaréttar 25. janúar 2011
  8. VI.4 kafli ákvörðunar Hæstaréttar 25. janúar 2011
  9. VI.5 kafli ákvörðunar Hæstaréttar 25. janúar 2011
  10. Dómur Hæstaréttar frá 8. desember 1994 í máli nr. 425/1994
  11. Dómur Hæstaréttar frá 9. febrúar 1982 í máli nr. 96/1980
  12. „Rjúkandi ráð; grein í Dv.is 2012“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júlí 2012. Sótt 26. júlí 2012.

Tenglar

breyta

Um ógildinguna

  NODES