Lýðveldishátíðin 1944
Lýðveldishátíðin var hátíð sem haldin var á Þingvöllum 17. júní 1944 í tilefni af stofnun lýðveldis á Íslandi.
Hátíðin hófst kl. 13:15 við Lögberg á Þingvöllum og setti mikil rigning svip sinn á hátíðina. Meðal þess sem var á dagskrá var þingfundur, ræður, sálmasöngur, kjör forseta Íslands, kveðjur frá fulltrúum erlendra fulltrúa og undir lok þessa hluta dagskrárinnar, átti vera fánahylling þar sem fjallkonan ávarpaði fánann og syngja átti ljóð Einars Benediktssonar „Rís þú unga Íslands merki“.[1]
Á þingfundinum lýsti Gísli Sveinsson forseti sameinaðs Alþingis yfir gildistöku nýrrar stjórnarskrár þar sem Ísland var lýst lýðveldi. Á fundinum kusu alþingismenn einnig fyrsta forseta Íslands og var Sveinn Björnsson ríkisstjóri kjörinn í embættið til eins árs.
Daginn fyrir lýðveldishátíðina hafði Alþingi samþykkt að fella úr gildi Sambandslögin frá 1918 í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. og 23. maí 1944. Við sama tækifæri voru samþykkt lög um fána Íslands og skjaldarmerki Íslands.
Gagnrýni kvenna
breytaTalsvert bar á gagnrýni kvenna á fyrirkomulag Lýðveldishátíðarinnar. Í Morgunblaðinu þann 15. júní 1944 birtist nafnlaust lesendabréf frá konu sem gagnrýndi að enginn kona hefði verið skipuð í lýðveldishátíðarnefnd.[2] Einnig urðu margir fyrir vonbrigðum með að ekkert varð af ávarpi Fjallkonunnar á hátíðinni en sú skýring var gefin að vegna slæms veðurs hafi verið ákveðið að taka ávarp hennar af dagskrá. Fjallkonan, Kristjana Milla Thorsteinsson beið prúðbúin í skautbúningi í bíl og virðist ekki hafa verið höfð með í ráðum þegar ákvörðunin var tekin. Rannveig Kristjánsdóttir húsmæðrakennari, stofnandi kvennatímaritsins Melkorku og ritstjóri kvennasíðu Þjóðviljans taldi fjarveru fjallkonunnar táknræna; hún væri meðhöndluð eins og hvert annað veisluskraut sem ekki mætti blotna þó aðrir létu það ekki á sig fá.[1]
Arfleifð
breytaLýðveldishátíðarinnar var minnst með annarri hátíð 50 árum síðar.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Erla Hulda Halldórsdóttir, „Þeir létu Fjallkonuna hopa af hólmi“ - lýðveldishátíðin 1944 og veisluskrautið“[óvirkur tengill], Hugrás, 28. júní 2018 (skoðað 2. apríl 2021)
- ↑ „Lýðveldishátíðin og kvenþjóðin“, Morgunblaðið, 15. júní 1944.