Landafræði Íslands

Ísland er næst stærsta eyja Evrópu, 103 þúsund km² að stærð.[1] Ísland er á heitum reit á Atlantshafshryggnum tæplega 300 km austan við Grænland. Á Íslandi er mikil eldvirkni og víða jarðhiti, víða eru heitir hverir og er jarðhitinn nýttur til upphitunar húsa. Um það bil 10% eyjarinnar er undir jöklum, tæplega fjórðungur er gróinn, rúmlega helmingur er auðn og um 75% telst til hálendis.[2] Eyjan er vogskorin nema suðurströndin, og flestir þéttbýlisstaðir standa við firði, víkur og voga.

Ísland

Helstu þéttbýlisstaðir eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Mosfellsbær liggja saman. Meðal stærri þéttbýlisstaða í dreifbýli má nefna Akureyri, höfuðstað Norðurlands, Ísafjörð á Vestfjörðum, þéttbýli í Reykjanesbæ á Reykjanesi og Vestmannaeyjar. Akranes og Selfoss eru vaxandi þéttbýlisstaðir.

Staðsetning og stærð

breyta
 
Eldfjallið Skjaldbreiður.

Ísland er vestasta land í Evrópu en nágrannalandið Grænland er austasta land í Ameríku. Asóreyjar, lítill eyjaklasi Á Atlantshafi sem tilheyrir Portúgal, liggja að hluta vestar en Ísland. Ísland liggur í um 970 km fjarlægð frá Noregi, um 1489 km eru til Danmerkur, 420 km til Færeyja og 550 til Jan Mayen.[3][1]

Ísland er um 103.000 km², 106. stærsta land heimsins, ríflega 5 þúsund km² minna en Gvatemala og tæpum 4 þúsund km stærra en Suður Kórea, og um 0,07% af flatarmáli jarðarinnar. Strandlína landsins mælist 4.970 km en Vestfjarðakjálkinn, Reykjanes og Snæfellsnes hafa mikla strandlínu.[1] Nyrsti tangi Íslands heitir Rifstangi (66°32,3´ N) og sá syðsti Kötlutangi (63°23,6´ N), Ísland liggur því á milli 63 og 66 breiddargráðu. Vestasti oddi landsins eru Bjargtangar (24°32,1´ V) og sá austasti Gerpir (13°29,6´ V).[4]

Stærstu eyjarnar við strendur landsins eru Vestmannaeyjar (samanlagt 17 km²), Hrísey (8 km²), Hjörsey (5,5 km²), Grímsey (5,3 km²) og Flatey á Skjálfanda (2,8 km²). Byggð er á Vestmannaeyjum, þar búa ríflega fjögur þúsund manns.

Jarðfræði

breyta

Ísland tók að myndast fyrir um 26-44 milljónum ára. Elsta berg landsins er yst á Vestfjörðum og er um 16 milljón ára gamalt samkvæmt aldursgreiningum. Vegna norðlægrar legu landsins eru ummerki ísaldarinnar áberandi en hún hófst af fullum krafti fyrir rúmlega 2 milljónum ára. Seinasta kuldaskeiði ísaldar lauk fyrir um 11.500 árum og er tímabilið eftir það nefnt nútími.

Eins og áður hefur komið fram er Ísland á heitum reit, og er jarðhitasvæðum skipt í háhitasvæði eins og Kröflu, Brennisteinsfjöll og Hengil annars vegar og lághitasvæði eins og við Reykholt í Borgarfirði þar sem Deildartunguhver er að finna.[5] Í gegnum Ísland liggja þrjár aðalsprungureinar sem allar tilheyra Norður-Atlantshafshryggnum; ein kemur sunnan frá vestan Vestmannaeyja og endar við syðri rætur Langjökuls í norðri. Önnur kemur norðan að austan Grímseyjar, yfir Melrakkasléttu og niður Vatnajökul með Bárðarbungu og Grímsvötnum til suðurs. Milli þessarra tveggja klemmist svo þverbrotabelti Suðurlandsundirlendisins sem gerir það að mjög virku jarðskjálftasvæði. Þriðja og máttlausasta sprungureinin gengur vestan við Ísland og norður með landinu austan við Grænland, og snertir eingöngu á föstu landi við Snæfellsjökul.

Jöklar, vötn, ár og fossar

breyta
 
Dynjandi í Arnarfirði.

Jöklar þekja 11.922 km² eða 11,6% landsins. Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu, er á Suð-Austurlandi en hann er 8.100 km². Úr Vatnajökli ganga nokkrir skriðjöklar; Skaftárjökull, Köldukvíslarjökull, Tungnárjökull, Síðujökull, Skeiðarárjökull, Breiðamerkurjökull, Skálafellsjökull, Fláajökull, Eyjabakkajökull, Brúarjökull og Dyngjujökull. Næst-stærsti jökull landsins er Langjökull um 950 km², Hofsjökull er litlu minni eða 925 km², Mýrdalsjökull er 596 km², Drangajökull 160 km² og fjölda smærri jökla er að finna á landinu.[1]

Alls þekja stöðuvötn um 2.757 km² af yfirborði Íslands eða sem samsvarar 2,68% af flatarmáli landsins. Stærsta stöðuvatn Íslands er Þórisvatn eða Þingvallavatn, eftir því hver vatnsstaðan í Þórisvatni er en það er miðlunarlón fyrir Vatnsfellsvirkjun.[6] Dýpsta stöðuvatn landsins er Öskjuvatn við Öskju, um 220 m á dýpt.[7] Mývatn er þekkt stöðuvatn sem er nálægt Kröflu og er mjög grunnt og í eru fjöldi eyja. Í Mývatni finnast stórir, kúlulaga grænþörungar sem nefnt er kúluskítur en þeir eru sérstakir fyrir þær sakir að þeir finnast aðeins í Mývatni og í Akanvatni á Hokkaidoeyju í Japan.

Lengsta á Íslands er Þjórsá sem rennur frá norðanverðum Sprengisandi um 230 km leið til sjávar.[8] Vatnsmesta á Íslands er Ölfusá en við Selfoss mælist meðalrennsli hennar 400 m³/s.[9] Jökulsá á Fjöllum sem rennur undan Vatnajökli er önnur lengsta á landsins, Jökulsá á Dal sem rennur líka undan Vatnajökli hefur verið virkjuð með Kárahnjúkavirkjun.

Hæsti foss landsins er Morsi í Morsá,[10] mældur 227,3 m á hæð. Gullfoss er einn þekktasti foss landsins sem ásamt hvernum Geysi trekkir að fjölda ferðamanna á hverju ári. Dettifoss, Goðafoss, Glymur Svartifoss og Dynjandi eru einnig þekkt örnefni.

Veðurfar

breyta

Á Íslandi er temprað loftslag, landið er ekki stórt og geta mánaðarmeðaltöl í hita á tilteknum stað veitt góða hugmynd um aðra staði á landinu. Golfstraumurinn hefur talsverð áhrif á hitastig, að vetri til er hlýjar meðfram ströndinni en inni á landi. Þetta getur þó breyst sé hafís við landið eða ef mjög hægviðrasamt er. Að sumri til ræður vindafar miklu um hitastig á landinu.[11] Mesti hiti sem mælst hefur á landinu var 30,5 °C Teigarhorni þann 22. júní 1939 en lægsti hiti mældist á Grímsstöðum og Möðrudal -38 °C þann 21. janúar 1918.[12] Meðalhiti í Reykjavík í janúar er 1,8 °C en –8 °C á miðhálendinu þar sem vetur eru kaldastir. Meðalhiti í júlí er um 10 °C á landinu öllu, aðeins lægri á norðurlandi.

Fylgni er á milli úrkomu og hitastigs á Íslandi. Á síðastliðinni hálfri öld eða svo hefur úrkoma aukist.[13] Talsverður munur er í meðalúrkomu og meðalhita á veðurathugunarstöðvum fyrir árið 2006; á Kirkjubæjarklaustri mældist úrkoman 2.218 mm og hitinn 5,6 °C, á Raufarhöfn 509 mm og 3,8 °C í Reykjavík 890 mm og 5,4 °C.[14]

Gróðurfar

breyta
 
Fjalldrapi var algeng birkitegund á landnámsöld

Á landnámsöld er áætlað að um fjórðungur landsins hafi verið þakinn birkiskógi eða kjarri en í dag er um 2% lands skóg eða kjarri vaxið. Þar af er 0,5% ræktaður skógur og 1,5% birkiskógar og kjarr (2019) [15].

Algengasta tréð er ilmbjörk.[16] Önnur innlend tré eru ilmreynir og hin sjaldgæfa blæösp. Einnig finnast runnar og kjarr eins og gulvíðir og loðvíðir og fjalldrapi. Innfluttar trjátegundir sem notaðar hafa helst í skógrækt eru: Alaskaösp, sitkagreni, rússalerki og stafafura. Skógrækt innfluttra tráa jókst mjög eftir seinni heimsstyrjöld. Talið er að eingöngu um 500 tegundir háplantna sé að finna á Íslandi vegna síðustu ísaldar, er landið var hulið jökli. Bróðurpartur þeirra plantna sem nú þrífast á landinu hafa borist eftir ísöld með vindum, fuglum eða mönnum en sumir telja að allt að fimmtungur hafi lifað af ísöldina, til dæmis á jökulskerjum.

Lítil fjölbreytni er í gróðurfari milli landshluta. Þó er talað um einkennisplöntur, það er bláklukku og gullsteinbrjót á Austurlandi og draumsóley og krossjurt á Vestfjörðum. Nokkrar plöntur eru bundnar við ákveðin svæði, til dæmis skeggburkni á Norðurlandi og burstajafni á Suðausturlandi. Yfir 600 mosategundir, 700 fléttutegundir og um 2.000 tegundir af sveppum hafa fundist á Íslandi. Ein ástæða fjölda sveppategunda er sú að sveppagró eru smásæ og geta borist með vindum, aukinheldur þrífast sveppir í tiltölulega ófrjóum jarðvegi. Eitt megineinkenni gróðurfars á Íslandi er mosi en hann er víða eini gróðurinn sem þrífst í hraunum og söndum landsins.

Dýralíf

breyta
 
Lundi í hreiðri sínu við Látrabjarg á Vestfjörðum.

Miðað er við að um 1.600 tegundir dýra finnist á Íslandi, ríflega helmingurinn skordýr.[17] Fá stór spendýr finnast á Íslandi, heimskautarefurinn er eina upprunalega spendýrið.[18] Hvítabirnir hafa einnig borist til landsins með hafís. Önnur stærri dýr hafa verið flutt til landsins og meðal þeirra má nefna hagamúsina, hreindýr, minkinn, rottuna, ketti og hunda. Búskapur er hafður á kindum, hestum og nautgripum. Þá tíðkast einnig eldi hænsna (kjöt og eggjaafurðir), loðdýra, svína og geita.

Rostunga má finna við strendur landsins og sex tegundir sela sömuleiðis; landselur, vöðuselur, hringanóri, útselur, blöðruselur og kampselur. Sést hafa 23 tegundir hvala á Íslandsmiðum en á hverjum tíma er metið sem svo að á bilinu 3-4 hundruð þúsund hvali megi finna þar. Einna fjölmennustu tegundirnar eru langreyður, hrefna, grindhvalur og sandreyður en einnig finnast steypireyðar, andarnefjur, háhyrningar, búrhvalir og blettahnýðar. Hnúfubakur er aftur á móti mjög sjaldgæfur að talið er vegna ofveiða Norðmanna en hann var friðaður árið 1955. Enn sjaldgæfari tegundir eru náhvalur og mjaldur.[19] Í ferskvatni lifa laxar, urriðar, bleikjur, hornsíli og álar.

Alls hafa sést um 370 tegundir fugla á Íslandi, þ.m.t. mávar, endur, svanir, hafernir, hrafnar og fálkar. Um 80 tegundir fugla verpa á Íslandi. Lundinn er álitinn eins konar einkennisdýr landsins, enda er hann fjölmennastur fugla, talið er að 10 milljón lunda verpi á Íslandi á hverju sumri.[20] Ísland er einnig viðkomustaður farfugla, s.s. gæsa og vaðfugla. Mikil dúntekja hefur verið við Íslandsstrendur í gegnum aldirnar en hún er mikilvæg á hlunnindajörðum. Æðarfuglinn var friðaður á Íslandi árið 1786.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Landmælingar Íslands - Ísland í tölum“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. apríl 2007. Sótt 17. ágúst 2008.
  2. „Hversu stór hluti Íslands er hálendur?“. Vísindavefurinn.
  3. „Hvort er Ísland nær norðurpólnum eða meginlandi Evrópu?“. Vísindavefurinn.
  4. „Á hvaða breiddargráðu er Ísland?“. Vísindavefurinn.
  5. Orkustofnun - Orkunotkun og orkuauðlindir
  6. „Hver eru tíu stærstu vötn Íslands?“. Vísindavefurinn.
  7. „Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  8. „Hver er lengsta á á Íslandi og hvað er hún löng?“. Vísindavefurinn.
  9. „Hver er vatnsmesta á Íslands?“. Vísindavefurinn.
  10. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/06/15/flyst_haesti_foss_landsins_buferlum/
  11. Veðurstofa Íslands: Veðurfar á Íslandi 1800-2006
  12. Veðurstofa Íslands: Íslensk veðurmet
  13. Veðurstofa Íslands: Úrkoma á Íslandi frá 1860
  14. Hagstofa Íslands: Úrkoma 2006 og meðalúrkoma í mm 1961–1990[óvirkur tengill] Excel skjal
    Hagstofa Íslands: Hitastig 2006 og árlegt meðaltal 1961–1990. °C[óvirkur tengill] Excel skjal
  15. Skóg eða ekki skóg Skógræktin, skoðað 27. des. 2019.
  16. „Hvert er algengasta tréð á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  17. „Hvað eru margar dýrategundir á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  18. „Eru til margar tegundir af refum á Íslandi og hverjar eru þær?“. Vísindavefurinn.
  19. „Hvað eru margir hvalir í sjónum í kringum Ísland?“. Vísindavefurinn.
  20. „Þrífst lundi á Íslandi bara í Grímsey og Vestmannaeyjum?“. Vísindavefurinn.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta

Félagasamtök

breyta
  NODES