Landhelgisgæsla Íslands

(Endurbeint frá Landhelgisgæslan)

Landhelgisgæsla Íslands er opinber stofnun íslenska ríkisins sem sinnir eftirliti og löggæslu í 12 sjómílna landhelgi Íslands og 200 sjómílna efnahagslögsögu. Landhelgisgæslan er ábyrgðaraðili vegna leitar og björgunar að skipum og flugvélum á mun stærra hafsvæði sem teygir sig langleiðina til Grænlands, norður fyrir Jan Mayen og austur fyrir Færeyjar. Landhelgisgæslan heldur því úti björgunarmiðstöð sjófarenda og loftfara sem kallast á ensku Joint Rescue Coordination Center (JRCC Iceland). Innan verksviðs landhelgisgæslunnar er einnig sprengjueyðing, en í kringum Keflavíkurstöðina finnast oft sprengjur og sprengjuefni. Einnig kemur fyrir að tundurdufl skoli á land eða festist í veiðarfærum veiðiskipa. Þá sér Landhelgisgæslan einnig um sjómælingar við Ísland og útgáfu sjókorta í samræmi við alþjóðlega staðla og kröfur. Frá byrjun árs 2011 hefur loftrýmiseftirlit og rekstur ratsjárstöðva verið í höndum Landhelgisgæslunnar auk umsjár öryggissvæða á Keflavíkurflugvelli. Hjá Landhelgisgæslunni starfa um 250 manns.

Landhelgisgæsla Íslands
Rekstrarform Opinber stofnun
Slagorð Við erum til taks
Hjáheiti Landhelgisgæslan, gæslan
Stofnað 1. júlí 1926[1]
Staðsetning Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð 14, 105 Reykjavík
Lykilpersónur Georg Kr. Lárusson, forstjóri
Starfsemi Eftirlit og löggæsla
Starfsfólk tæplega 200 manns[2]
Vefsíða lhg.is

Samkvæmt lögum er varðskipunum ætlað að veita afskekktum stöðum þjónustu, en einnig heilum byggðarlögum þegar samgöngur bregðast vegna náttúruhamfara. Dæmi um hið síðastnefnda eru Vestmannaeyjagosið 1973 og snjóflóðin á Vestfjörðum árið 1995. Forstjóri er Georg Kr. Lárusson.

Saga Landhelgisgæslunnar

breyta
 
Frá vinstri; M/s Baldur, V/s Ægir, V/s Óðinn

Landhelgisgæslan var upphaflega stofnuð 1. júlí 1926. Tveimur vikum fyrr hafði gufuskipið Óðinn, fyrsta sérsmíðaða íslenska varðskipið, vopnað tveimur 57 mm fallbyssum komið til landsins. Fyrir það hafði íslenskri landhelgisgæslu verið sinnt misjafnlega með leiguskipum eða af Dönum.

Um margar aldir höfðu útlendingar veitt við strendur Íslands og stundum með botnvörpur án þess að sýna Íslendingum tillitsemi þannig að veiðarfæri þeirra löskuðust. Stundum urðu átök vegna þessa og frægt er dæmi þess á árinu 1899 þegar Hannes Hafstein vildi taka breskan togara í landhelgi ásamt nokkrum mönnum en þrír þeirra drukknuðu. Eftir að Íslendingar fengu heimastjórn 1904 gerðu danir út eftirlitsskipið Islands Falk og 1913 var Landhelgissjóður Íslands stofnaður. Í sjóðinn áttu að safnast fésektir fyrir ólöglegar veiðar sem síðan yrðu nýttar til þess að fjármagna landhelgisgæsluna.

Með sambandslögunum árið 1918 og fullveldinu sem þeim fylgdi var ákveðið að Danir myndu áfram sinna landhelgisgæslu við Ísland sem kæmi til endurskoðunar eftir 25 ár. Á næstu árum voru tekin skip á leigu eftir setningu laga um landhelgisvörn 1919. Árið 1920 keypti Björgunarfélag Vestmannaeyja danska togarann Thor sem var nefndur Þór og nýttur til eftirlits með fiskveiðibátum Eyjamanna. Fjórum árum síðar var 47 mm fallbyssu komið fyrir á Þór og síðar keypti ríkið Þór að fullu. Þann 14. júlí 1929 var skipið Ægir keypt. Árið 1930 var landhelgisgæslan færð undir Skipaútgerð ríkisins.

Á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð var lítið um erlend veiðiskip eins og gefur að skilja. Landhelgisgæslan hafði þó í ýmsu að snúast m.a. mikil björgunarstörf, eyðing tundurdufla og margs konar flutningar á fólki og vörum, vegna almenns skipaskorts. Eftir stríð, árið 1948, samþykkti Alþingi nokkuð sérstök lög um verndun og nýtingu landgrunnsins. Landhelgisgæslan varð sjálfstæð stofnun árið 1952 og sérstakur forstjóri ráðinn. Þá var landhelgin færð út um eina sjómílu í fjórar sjómílur og við það ríflega tvöfaldaðist fiskveiðilandhelgin úr 25 þúsund km² í 43 þúsund km².

Bretar tóku þessu afar illa og meinuðu íslenskum skipum að landa í höfnum sínum. Árið 1958 var fiskveiðilandhelgin færð út í 12 sjómílur og við það stækkaði hún úr 43 þúsund km² í 70 þúsund km². Þá hófust þorskastríðin svonefndu þegar Bretar sendu herskip til fylgdar við veiðiskip sín. Bretar hótuðu að skjóta á íslensk skip en ekkert varð úr því og viðurkenndu þeir lögsöguna gegn því að fá að veiða takmarkað þar.

Árið 1972 færðu Íslendingar fiskveiðilögsögu sína enn út og nú í 50 sjómílur og aftur 1975 í 200 sjómílur. Við það stækkaði lögsagan úr 75 þúsund km² í 216 þúsund km² árið 1972 og í 758 þúsund km² árið 1975. Í það skiptið sendu Bretar flota herskipa og aðstoðarskipa til fylgdar við veiðiskip sín. Þeir beittu dráttarbátum til þess að sigla á íslensku varðskipin og eyðileggja. Íslendingar notuðu sérstakar togvíraklippur til þess að skera á veiðarfæri bresku togaranna. Varðskipin sigldu þá þvert fyrir aftan bresku togarana og drógu klippurnar á eftir sér. Reyndu þá bæði togarar og verndarskip þeirra, herskip og dráttarbátar, að sigla varðskipin niður.

Árið 1983 fórst þyrla Landhelgisgæslunar, TF-RÁN, í Jökulfjörðum með fjögurra manna áhöfn.[3][4]

Árið 2015 tók Landhelgisgæslan þátt í samevrópsku verkefni við að bjarga flóttamönnum af Miðjarðarhafi.

Floti Landhelgisgæslunnar

breyta
 
TF-GNA(II) Eurocopter AS-332 Super Puma á Reykjavíkurflugvelli árið 2012
 
TF-GNA(III) Airbus H225 á Sumburgh Flugvelli á leið sinni til Íslands árið 2019
 
TF-SIF eftirlitsflugvél á flugi á Grikklandi árið 2013

Flugdeild Landhelgisgæslunnar samanstendur af þremur þyrlum og einni flugvél. Flugvélin er af gerðinni De-Havilland DHC-8-Q314, TF-SIF(4), og kom hún til landsins sumarið 2009. Landhelgisgæslan gerir út þrjár þyrlur af gerðinni Airbus H225 sem eru á leigu frá Knut Axel Ugland Holding.[5] Þyrlurnar þrjár bera einkennisstafina TF-EIR, TF-GRO og TF-GNA. Allar þyrlurnar eru mjög vel búnar til leitar- og björgunarstarfa.[6]

Skipafloti Landhelgisgæslunnar samanstendur af þremur varðskipum og einu eftirlits- og mælingaskipi. V/s Þór er stærsta og nýjasta skip flotans, jafnframt flaggskip Landhelgisgæslunnar. Það var smíðað af Asmar skipasmíðastöðinni í Chile. Í flotanum eru systurskipin V/s Týr og V/s Ægir, smíðuð af skipasmíðastöðinni Ålborg Værft a/s í Danmörku. Skipin eru með 18 manna áhöfn og eru vopnuð 40 mm Bofors L60 MK 3 fallbyssu. Ýmis handvopn er einnig að finna um borð. Skipin eru að sjálfsögðu búin fullkomnum siglinga- og fjarskiptatækjum. Þá eru um borð öflugir léttbátar til að flytja mannskap milli skipa auk annarra verkfna. Á Ægi og Tý er þyrlupallur en Super Puma þyrlur Gæslunnar eru of stórar til að geta lent þar. Um borð í skipunum er búnaður til að dæla eldsneyti á þyrlurnar en þær verða að hangfljúga yfir skipunum meðan á því stendur. M/s Baldur var smíðaður af Vélsmiðju Seyðisfjarðar 1991 og er notaður til eftirlits á grunnslóð, sjómælinga auk ýmissa annarra verkefna. Um borð er léttbátur búinn til sjómælinga á grunnsævi. Baldur er ekki búinn vopnum. Aðgerðabáturinn Óðinn er yfirbyggður harðbotna slöngubátur sem m.a. er nýttur af séraðgerðasviði LHG en einnig til eftirlits og æfinga.

 
Varðskipið V/s Þór 2011

Heimildir

breyta
  • „Saga LHG“. Sótt 18. janúar 2007.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Icelandic Coast Guard“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. janúar 2007.

Tilvísanir

breyta
  1. https://www.lhg.is/um-okkur/sagan/sagan
  2. https://www.lhg.is/um-okkur
  3. „Minnast áhafnar þyrlunnar TF-RAN sem fórst fyrir þrjátíu árum“. Landhelgisgæsla Íslands. 8. Nóvember 2013. Sótt 24. Ágúst 2018.
  4. „Þúst kom inn á dýptarmæla“. Dagblaðið Vísir. 10. Nóvember 1983. Sótt 24. Ágúst 2018.
  5. https://www.lhg.is/frettir-og-fjolmidlar/frettasafn/frettayfirlit/tf-gna-kemur-i-thjonustu-landhelgisgaeslunnar-um-aramot
  6. https://www.lhg.is/um-okkur/taekjakostur/loftfor/

Tenglar

breyta
  NODES