Langreyður

skíðishvalur

Langreyður [2] (fræðiheiti: Balaenoptera physalus) er sjávarspendýr sem tilheyrir undirættbálki skíðishvala. Langreyður er næststærst allra hvala og næststærsta núlifandi dýrategund, aðeins steypireyður er stærri.

Langreyður
Langreyður kemur upp á yfirborð sjávar í Kenai þjóðgarðinum í Alaska
Langreyður kemur upp á yfirborð sjávar í Kenai þjóðgarðinum í Alaska
Stærð borin saman við meðalmann
Stærð borin saman við meðalmann
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Undirflokkur: Legkökuspendýr (Eutheria)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Skíðishvalir (Mysticeti)
Ætt: Reyðarhvalir (Balaenoptiidae)
Ættkvísl: Reyður (Balaenoptera)
Tegund:
B. physalus

Tvínefni
Balaenoptera physalus
(Linnaeus, 1758)
Útbreiðslusvæði langreyða
Útbreiðslusvæði langreyða

Lýsing

breyta

Fullvaxin langreyður er 18 til 22 m á lengd og vegur 40 til 70 tonn. Hún er löng og rennileg með stóran haus og mjókkar aftur. Munnvik ná aftur fyrir augu og undir neðri skolti hennar eru reglulegar húðfellingar (rengi). Í munninum hanga um 600 til 700 hornplötur (skíði) úr efri skolti. Skíðin eru svart- og hvítrákótt. Langreyður er dökkgrá á baki og næstum hvít á kvið.

Elsta langreyður sem aldursgreind hefur verið við Ísland var 94 ára. Það er hægt að aldursgreina langreyðar á fjölda bauga í vaxkenndum mergtöppum í eyrum.

Lifnaðarhættir

breyta

Langreyður kemur til Íslands í árlegum fæðugöngum sunnan úr höfum. Hún fer að sjást suðvestan lands í maí og er fjöldi hennar mestur við landið í lok júní. Langreyður heldur sig vanalega við landgrunnsbrúnina vestan við landið og færir sig smám saman norður með fram brúninni. Aðalfæða hér við land er svifkrabbadýr, einkum ljósátan náttlampi. Langreyður étur einnig uppsjávarfisk, loðnu og sílategundir. Langreyður dvelur á Íslandsmiðum fram í október og heldur þá til vetrarstöðvanna.

Mökun langreyða fer fram á óþekktum vetrarstöðvum í sunnanverðu Norður-Atlantshafi. Burður fer fram eftir 11 mánaða meðgöngu. Kálfurinn fylgir kúnni í 6 til 7 mánuði. Langreyður eignast kálf annað hvert ár. Í talningu árið 2015 var talið er að langreyðastofninn í Norður-Atlantshafi væri 36-37.000 dýr.[3]

Veiðar á langreyði

breyta

Á 19. öld veiddu menn stundum langreyði af hvalveiðibátum, en þá var ekki til staðar veiðitækni til að elta hvali sem fara svona hratt yfir og halda sig á opnu hafi.

Á seinni hluta 19. aldar varð tæknibylting í hvalveiðum með tilkomu vélknúinna skipa og sprengiskutulsins og þannig var hægt að veiða hraðskreiðari hvalategundir eins og reyðarhvalina langreyði og steypireyði. Þessar tegundir urðu þá aðalnytjategundirnar og ofveiði var mikil. Talið er að um 750.000 langreyðar hafi verið veiddar á hvalveiðistöðvum við Suðurskautslandið á milli 1904 og 1975 og einungis um 3000 langreyðar eru taldar halda sig á suðurhvelinu í dag. Hvalalýsi var þá notað í ljósmeti sem lýsti upp götur í borgum.

Norðmenn reistu hvalstöðvar á Íslandi upp úr 1880 á Vestfjörðum og síðar á Austurlandi. Hvalveiðarnar við Ísland voru í hámarki árið 1902 en þá komu 1300 hvalir á land og 30 skip voru að veiðum. Vegna þessarar veiði fækkaði hval stórlega og um 1910 samþykkti Alþingi lög um bann við veiðum og vinnslu á stórhvölum innan íslenskrar lögsögu. Árið 1916 hættu allar hvalstöðvar við Ísland rekstri. Norðmenn veiddu stórhveli við Ísland á litlum hvalveiðibátum og unnu hvalinn í verksmiðjuskipum sem héldu sig utan landhelginnar, en hún var á þessum tíma þrjár mílur. Árið 1933 var hvalveiðibanni við Ísland aflétt og árið 1935 tók til starfa hvalveiðistöð á Suðureyri við Tálknafjörð sem starfaði þar til seinni heimsstyrjöldin skall á. Árið 1948 tók til starfa hvalveiðistöð í Hvalfirði og starfaði hún til 1985 þegar hvalveiðistöðvun Alþjóðahvalveiðiráðsins gekk í gildi. Á árunum 1948 til 1985 voru veiddar við Ísland að jafnaði 240 langreyðar á ári. Veiðar á langreyði og sandreyði voru stundaðar í vísindaskyni 1986 til 1989. Árið 2006 hófust aftur veiðar á langreyði hér við land. Árið 2009 veiddu Íslendingar 125 langreyðar, og 148 dýr árið 2010.

Myndasafn

breyta

Heimildir

breyta
  • Sjávarnytjar við Ísland bls. 250
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Fin Whale“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 3. janúar 2008.

Neðanmáls

breyta
  1. Cetacean Specialist Group (1996). „Balaenoptera physalus“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 1996. Sótt 10. maí 2006. Database entry includes justification for why this species is endangered
  2. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
  3. Ágúst Ingi Jónsson, „Yfir 300 þúsund stórhveli í N-Atlantshafi“, Mbl.is 24. janúar 2021 (skoðað 7. október 2021).

Tenglar

breyta
  NODES