Lundi

fuglategund af svartfuglaætt

Lundi (fræðiheiti: Fratercula arctica) er fugl af svartfuglaætt, og af ættkvísl lunda. Hann gengur undir ýmsum gæluheitum og er stundum kallaður „litli munkur í norðri“ eða „litli bróðir í norðri“. Algengt er að lundinn sé kallaður prófastur sökum útlits og hátta. Lundaunginn er kallaður kofa en í Vestmannaeyjum gengur hann undir heitinu lundapysja[1]. Lundinn er algengastur við strendur Íslands og er talið að 60% af öllum stofninum verpi við Ísland[2]. Fuglinn verpir í stórum þyrpingum í holur sem þeir grafa í jarðveginn. Svartfuglum á norðurhveli jarðar svipar nokkuð til mörgæsa á suðurhveli, að líkamsbyggingu og litasamsetningu. Þrjár lundategundir eru til í heiminum. Lundi er sú tegund sem lifir hér við land[3].

Lundi
Lundi (Fratercula arctica)
Lundi (Fratercula arctica)

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Strandfuglar (Charadriiformes)
Ætt: Svartfuglar (Alcidae)
Ættkvísl: Lundar (Fratercula)
Tegund:
F. arctica

Tvínefni
Fratercula arctica
(Linnaeus, 1758)
Fratercula arctica arctica

Útlit og einkenni

breyta

Helsta einkenni lundans er hið fjölskrúðuga klumbunef hans. Það er rákótt með rauðum, bláum og gulum lit. Fuglinn er svartur á bakinu en með hvíta bringu og er grár umhverfis augun[4].

Lífsferill

breyta

Lundi er algengastur fugla á Íslandi og telur um 10 milljónir. Talið er að í Vestmannaeyjum séu um 1,1 milljón pör[5]. Á Borgarfirði Eystra er talið að um 8.000 – 10.000 pör verpi[6]. Um miðjan apríl fara fyrstu lundarnir að sjást við landið en í byrjun maí eru þeir nánast allir komnir „heim“ fyrir alvöru. Það eru oftast kynþroska fuglar sem fyrstir koma, þá eru liðnir sjö mánuðir síðan þeir yfirgáfu „byggðina“ síðast. Allan þann tíma hefur fuglinn haldið sig á hafi úti langt fyrir sunnan og suðaustan land, einnig eru eldri fuglar við suðurodda Grænlands. Yngri fuglinn þvælist víðar er m.a við strendur Nýfundnalands. Lundinn er algengastur svartfugla hér á landi. Hann stendur uppréttur og á auðvelt með gang. Fuglinn vegur um hálft kíló og er um 20 cm á hæð að meðaltali. Hann getur kafað niður á allt að 60m dýpi og er góður flugfugl með allt að 400 vængslætti á mínútu og getur náð allt að 88km hraða á klukkustund. Lundinn er langlífur fugl sem getur orðið áratuga gamall. Við náttúrulegar aðstæður er talið að meðalaldur lundans sé á bilinu 20 til 25 ár. Elsti lundinn sem vitað er um var 38 ára, hann var merktur í Vestmannaeyjum[7].

Lundinn verður kynþroska um 4 til 5 ára aldur. Varptími þeirra er frá seinni hluta maí fram í fyrrihluta júní. Lundinn verpir einungis einu eggi sem er um 60g að þyngd. Hann verpir í holu sem hann grefur sér og getur hún verið um hálfs metra löng. Útungun tekur um 40 daga. Unginn heldur sig í holunni í um 45 daga eftir klak og heldur þá á haf út. þar eyðir hann næstu 3 til 5 árum við fiskveiðar og velur sér maka. Talið er að lundi makist til lífstíðar.

Fæða

breyta

Lundinn lifir einkum á fiski (síli, loðna, seiði), átu og smokkfisk en hann étur einnig krabbadýr[8].

Lundaveiði

breyta

Í dag eru lundar veiddir með háfum. Sú aðferð er ættuð frá Færeyjum. Háfur er langt prik (háfskaft) sem skiptist í tvo V-laga sprota (spækur) við endann, og net strengt milli spækanna. Setið er fyrir fuglinum þar til uppflog verður, þ.e að aragrúi fugla flýgur stöðugt í hring út yfir sjóinn og svífur á móti vindi yfir bjargbrúnir, þá eru þeir veiddir hver á fætur öðrum með því að sveifla háfnum upp undir þá. Lundaveiðar eru að mestu stundaðar í Vestmannaeyjum og Grímsey. Minna í Eyjum síðustu ár þar sem að stofninn þar er í mikilli lægð[9].

Lundapysjur á Heimaey

breyta

Þó svo að flestir ungar lunda fari beint á sjóinn eftir að hafa yfirgefið holur sínar, þá taka ungar lundanna í Vestmannaeyjum örlitla hjáleið. Þetta gerist þegar skyggja fer í ágúst, en þá fara ungarnir eða pysjurnar að yfirgefa holur sínar og leita til sjávar. Þar sem að lundabyggð í Vestmannaeyjum er mjög nálægt íbúasvæði þá freistast pysjurnar oft á ljósunum sem að kaupstaðurinn gefur frá sér. Þá fljúga þær á veikum vængjunum á vit ljósanna. Það sem mætir pysjunum eru þó harðar götur og dimmir húsagaðar. Þá hefur upphafist sú hefð í Eyjum að börn jafnt sem fullorðnir flykkjast út á götur í þeim hug að bjarga pysjunum. Farið er út um nótt með pappakassa og safnað saman pysjum sem villst hafa af réttri leið. Um nóttina fá pysjurnar gistingu í mannheimum en daginn eftir er farið með þær niður í fjöru og þeim sleppt út á sjóinn. Þessi hefð hefur þó dalað mikið, þar sem að lundastofninn í Eyjum er í mikill lægð og síðustu ár hefur pysjufjöldin verið mjög lítill[10].

Heimildaskrá

breyta

Tengt efni

breyta
   Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES