Móðuharðindin
Móðuharðindin voru hörmungar eða áhrif náttúruhamfara sem urðu á Íslandi í Skaftáreldum 1783 – 1785. Móða eða eiturgufa lagðist á jörðina, gras sviðnaði og búfénaður féll. Talið er að um 75% búfjár hafi þá fallið og fimmti hver maður eða um 10.000 Íslendingar hafi dáið. Móðuharðindin hófust með eldgosi 8. júní 1783 í Lakagígum en þeir urðu til í einhverju mesta hraungosi á jörðunni á sögulegum tímum. Samtímalýsing eldsumbrotanna og áhrifa þeirra í nærliggjandi sveitum eru í Eldriti séra Jóns Steingrímssonar, síðar nefndur eldklerkur, sem hann lauk við að skrifa árið 1788.
Veðurfar breyttist á meðan á hörmungunum stóð. Gosið var svo kröftugt að brennisteinsoxíð náði upp í heiðhvolf og hiti lækkaði. Einnig minnkaði inngeislun sólar til jarðar vegna ösku. Áhrifa gossins gætti víða um heim. Hugsanlega má rekja uppskerubrest sem varð víða í Evrópu sumarið 1783 til gossins en slæmt sumar og kuldavetur í kjölfarið juku vandræði Frakka í aðdraganda frönsku byltingarinnar.
Heimildir
breyta- Skaftáreldar 1783
- Nýjar upplýsingar um afleiðingar Móðuharðindanna 1783 á veðurfar (Einar Sveinbjörnsson)
- Lakagígar Geymt 27 október 2006 í Wayback Machine
- Hraunið æðir yfir sveitirnar, sérblað með Morgunblaðinu 10. júlí 1983 vegna 200 ára afmæli eldgosanna
- Tvö merkisafmæli, 1. október 1984 Náttúrufræðingurinn
- „Kom á óvart hversu víötækar hörmungarnar voru", 15. júní 1983. Þjóðviljinn