Magnús lagabætir
Magnús lagabætir (Magnús 6.) (1. maí 1238 – 9. maí 1280) var konungur Noregs frá 1263 til dauðadags. Hann tók við af föður sínum Hákoni gamla sem lést í Orkneyjum 16. desember 1263.
| ||||
Magnús lagabætir
| ||||
Ríkisár | 17. desember 1263 - 9. maí 1280 | |||
Skírnarnafn | Magnús Hákonarson | |||
Fæddur | 1. maí 1238 | |||
Dáinn | 9. maí 1280 | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Hákon gamli | |||
Móðir | Margrét Skúladóttir | |||
Drottning | Ingibjörg Eiríksdóttir | |||
Börn | Eiríkur Magnússon Hákon háleggur |
Uppruni og kvonfang
breytaMagnús var yngri sonur Hákonar gamla Hákonarsonar og Margrétar Skúladóttur. Hann ólst upp í Björgvin. Bróðir hans, Hákon ungi, dó 1257 og þá varð Magnús næstur til ríkiserfða, nítján ára að aldri. Sama ár gerði faðir hans hann að meðkonungi sínum.
Þann 11. september 1261 giftist hann Ingibjörgu, dóttur Eiríks plógpenings Danakonungs, sem var myrtur 1250, og höfðu menn föður hans numið hana á brott úr klaustri sem hún dvaldist í, til að láta hana giftast Magnúsi. Síðar áttu Norðmenn og Danir lengi í togstreitu vegna arfs sem Norðmenn töldu að Ingibjörg ætti að fá eftir föður sinn. Þau voru krýnd þegar eftir brúðkaupið og Magnús fékk Ryfylki í Noregi sér til uppihalds. Hann tók við stjórnartaumunum 1263, þegar Hákon faðir hans hélt í herför til endurheimta Suðureyjar og fleiri svæði á Bretlandseyjum, sem Noregskonungar höfðu ráðið yfir.
Utanríkisstefna
breytaMagnús fylgdi ekki útþenslustefnu föður síns, heldur gekk til friðarsamninga við Alexander 3. Skotakonung. Með Perth-sáttmálanum 1266 lét hann Suðureyjar og Mön af hendi við Skota en fékk í staðinn 4.000 merkur silfurs og loforð um árlegt afgjald, 100 merkur, sem Skotar hættu þó fljótt að greiða. Í staðinn viðurkenndu Skotar yfirráð Norðmanna yfir Orkneyjum og Hjaltlandi.
Magnús átti góð samskipti við Englendinga en samskiptin við Skotland voru stirðari, einkum eftir að Skotar hættu að greiða afgjaldið sem samið hafði verið um. Þegar á leið vildi Magnús þó bæta sambandið og í því skyni samdi hann meðal annars um hjónaband sonar síns og erfingja, Eiríks, og Margrétar dóttur Alexanders 3.
Samskipti Magnúsar og svila hans, Valdimars Birgissonar Svíakonungs, voru einnig góð og á sjöunda áratug 13. aldar voru landamæri Noregs og Svíþjóðar opinberlega ákveðin í fyrsta sinn. Valdimar var settur af 1275 og flúði fyrst til Noregs. Magnús brást við og hélt með flota til Svíþjóðar, þar sem hann reyndi að koma á sáttum á milli Valdimars og Magnúsar hlöðuláss, bróður hans, sem orðinn var konungur, en án árangurs. Hélt Magnús þá heim til Noregs á ný án þess að skærist í odda. Samskiptin við Danmörku voru erfiðari vegna deilunnar um arf eftir Eirík plógpening en þó kom aldrei til átaka.
Magnús var áhugamaður um utanríkismál, átti í miklum bréfaskiptum og öðrum samskiptum við marga konunga og fursta og lét sendiboða sína fara víða í ýmsum erindum og færa erlendum þjóðhöfðingjum gjafir. Einn helsti erindreki hans var Loðinn leppur, sem meðal annars fékk Jónsbók samþykkta á Íslandi en var einnig sendur til Túnis og Egyptalands og jafnvel enn lengra.
Lagabætur Magnúsar
breytaViðurnefni sitt fékk Magnús af því að hann samræmdi löggjöf í Noregi með nýjum lögbókum 1274 og 1276. Áður hafði hver landshluti haft sín lög. Hann lét gera lögbókina Járnsíðu handa Íslendingum (lögtekin 1271-1274) en hún mætti andstöðu og lét hann þá semja Jónsbók í staðinn sem var lögtekin 1281 og notuð í heild sinni fram á 18. öld. Á þessum tíma höfðu mjög fá ríki samræmda löggjöf fyrir allt landið, raunar aðeins Sikiley og Kastilía. Löggjöf Magnúsar byggðist á þeirri hugmynd að glæpur væri brot gegn ríkisvaldi fremur en einstaklingi og dró þar með úr vægi hefndarinnar. Hún jók einnig vald konungsins og gerði hann að æðsta dómsvaldi.
Réttindi og skyldur höfðingja, embættismanna og hirðmanna voru skilgreind og æðstu hirðmennirnir fengu titla, barón og riddari eftir evrópskri fyrirmynd. Einnig voru ríkiserfðir fastákveðnar. Jón rauði, erkibiskup í Niðarósi, mótmælti því að löggjöf Magnúsar færi inn á valdsvið kirkjunnar og varð löng togstreita milli konungs og kirkju sem lauk með sættagerð í Túnsbergi 1277.
Magnús byggði upp her í Noregi, lið 1200 manna sem voru þó ekki stöðugt í herþjónustu en gátu brugðist við með skömmum fyrirvara og voru vel þjálfaðir.
Ævilok
breytaMagnús veiktist í Björgvin vorið 1280 og dó 9. maí. Hann hefur almennt fengið góð eftirmæli og er minnst sem konungs sem beitti lögum fremur en sverði. Hann var friðsamur og forðaðist stríðsátök og harðar deilur en kaus að tryggja stöðugleika. Skömmu eftir að Hákon gamli dó fékk Magnús Sturlu Þórðarson sagnaritara til að skrifa sögu hans. Árið 1278 fól Magnús Sturlu svo að skrifa sína eigin sögu en aðeins brot úr henni er varðveitt.
Magnús og Ingibjörg áttu tvo syni, Eirík prestahatara og Hákon hálegg, sem báðir urðu konungar Noregs. Eirikur tók við ríkjum þegar faðir hans dó en var þá aðeins tólf ára. Ingibjörg drottning var ekki formlega útnefnd ríkisstjóri en hafði þó mikil áhrif og þau urðu enn meiri eftir að Eiríkur varð fullveðja.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Magnus Lagabøte“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 25. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Magnus VI of Norway“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 25. september 2010.
Fyrirrennari: Hákon gamli |
|
Eftirmaður: Eiríkur Magnússon prestahatari |