Mjaldur (fræðiheiti: Delphinapterus leucas), einnig nefndur hvíthvalur, hvítfiskur og hvítingur er tannhvalur og er önnur af tveimur tegundum í hvíthvalaætt (Monodontidae). Hin tegundin er náhvalur (Monodon monoceros). Mjaldur þýðir sá hvíti; eldri mynd þess er mjallur, sem er dregið af orðinu mjöll (snjór).

Mjaldur

Stærð mjaldurs miðað við meðalmann
Stærð mjaldurs miðað við meðalmann
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Undirættbálkur: Tannhvalir (Odontoceti)
Ætt: Hvíthvalaætt (Monodontidae)
Ættkvísl: Delphinapterus
Tegund:
Mjaldur

Tvínefni
Delphinapterus leucas
(Pallas, 1776)
Búsvæði mjaldurs
Búsvæði mjaldurs

Lýsing

breyta

Mjaldurinn er fremur kubbslegur, með lítinn haus, hátt enni og stutt trýni. Mjaldur er með stuttan háls, en hálsliðirnir eru ekki samgrónir eins og hjá flestum hvölum og þess vegna er höfuðið hreyfanlegra en venjulegt er hjá hvölum. Bægslin eru fremur lítil og ávöl. Mjaldurinn hefur ekkert horn á baki. Sporðblaðka er lítil með grunnri skoru í miðju. Hann hefur mjög þykka húð og jafnframt þykkt spiklag, en það getur verið allt að 40% af heildarþyngd dýrsins.[2]

Munur er á stærð kynjanna, kýrnar eru um 3,9 til 4,1 metrar á lengd en tarfarnir frá 4,9 til 5,5 metra. Þyngd fullvaxta dýra er allt frá 500 kg upp í 1500 kg.

Kálfarnir fæðast dökkgráir eða brúngráir. Mjaldurinn lýsist svo með aldrinum og við fimm til tólf ára aldur er dýrið orðið alhvítt. Hann nær 25-30 ára aldri.

Ólíkt öllum öðrum hvölum getur mjaldurinn andað þó hann lendi upp á landi.[3]

Útbreiðsla og hegðun

breyta
 
Mjaldur í dýragarði

Útbreiðsla mjaldurs er í Norður-Íshafi nánast allt í kringum Norðurheimskautið en hann má einnig finna á köldtempruðum svæðum. Í Atlantshafi heldur hann sig talsvert norður af Íslandi og er því fremur sjaldséður við landið.

Mjaldurinn heldur sig aðallega við strandlengjuna og við árósa að sumarlagi. Hann á það til að elta lax upp eftir stórfljótum Kanada og Síberíu og hefur sést allt að 1000 km frá sjó. Mjaldurinn hefur aðlagast því að lifa í köldum sjó og innan um rekís. Hegðun hans svipar því að sumu leyti meira til sela en hvala, meðal annars rekur hann stundum hausinn upp úr sjó til að svipast um. Mjaldurinn er hægsyndur, syndir yfirleitt á þriggja til níu kílómetra hraða. Hann notar hljóð til að skynja umhverfið, þessi hátíðnihljóð geta heyrst upp á yfirborðið enda nefndu hvalveiðimenn hann „kanarífugl hafsins“. Að öllum líkindum notar mjaldurinn hljóðendurkast til að finna fæðu á sjávarbotni og til að finna vakir í hafís. [4]

Mjaldur er hjarðdýr og eru oftast um 15 dýr í hverri hjörð. Hjarðirnar koma stundum saman við árósa og mynda hópa með allt að 1000 dýrum.

Fæðuval er mjög fjölbreytt, á sumrin eru krabbadýr, lindýr og burstaormar uppistaða fæðunnar, á öðrum árstímum er það einkum ýmsar tegundir fiska.

Veiðar og fjöldi

breyta

Frumbyggjar við norðurskaut hafa veitt mjaldur í aldaraðir, með skutli eða við vakir í hafísnum. Veiðar Evrópumanna á mjaldri í atvinnuskyni við Grænland og Kanada hófust á seinni hluta 19. aldar og á sama tíma hófu Norðmenn og Rússar veiðar við Svalbarða. Mjaldri fækkaði verulega á 20. öld og hafa líffræðingar áhyggjur af framtíð tegundarinar.[5] Þó er talið að um 20 þúsund dýr sé í stofninum milli Kanada og Grænlands, 15 til 20 þúsund í stofninum í Hvítahafi, Barentshafi og Karahafi norðan Síberíu og 5-7 þúsund í stofninum við Alaska.[6]

Algengt er að mjaldur sé hafður til sýnis í dýragörðum og geta þeir orðið allt að 25 ára í haldi.[7]

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Jefferson, T.A., o.fl. 2008
  2. Sergent og Brodie ,1969
  3. Brodie, 1989
  4. Brodie, 1985
  5. Heide-Jørgensen, 1994
  6. Innes o.fl. 2002
  7. Brodie, 1985

Heimildir

breyta
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Bjarni Sæmundsson, Íslensk dýr II: Spendýrin (Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 1932).
  • Brodie P.F., The acoustical Arctic aquabat. BBC Wildlife (Bristol) 3 (1985): 559-562.
  • Brodie P.F., The white whale, Delphinapterus leucas. í: Ridgway S.H. og R. Harrison (ritstjórar): Handbook in Marine Mammals, 4. bindi, (Academic Press, 1989): 119-144.
  • Heide-Jørgensen M.P., „Distribution, expoitation and population status of white whales (Delphinapterus leucas) and narwals (Monodona monceros) in West Greenland“, Medd. Grønland, Bioscience 39 (1994): 135-149.
  • Innes S., M.P. Heide-Jørgensen, J.L. Laake, K.L. Laidre, H.J. Ceator, P. Richardog R.E.A. Stewart, „Surveys of belugas and narwals in the Canadian High Arctic in 1996“, NAMMCO Scientific Publications 4 (2002): 169-190.
  • Jefferson, T.A., Karczmarski, L., Laidre, K., O’Corry-Crowe, G., Reeves, R.R., Rojas-Bracho, L., Secchi, E.R., Slooten, E., Smith, B.D., Wang, J.Y. & Zhou, K., „Monodon monoceros“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Reykjavík: Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Reykjavík: Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).

Tenglar

breyta
  • „Er það satt að ísbirnir éti stundum dýr sem eru þrisvar sinnum stærri en þeir sjálfir?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað geta hvalir orðið gamlir?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?“. Vísindavefurinn.
  • „Eru hvalir í útrýmingarhættu í dag?“. Vísindavefurinn.
  • Mjaldur; af heimasíðu nat.is Geymt 4 desember 2008 í Wayback Machine
  • Whale and Dolphin Conservation Society
  • „Sjaldan bregður mjaldur af miði“ af Glettingi
  • Myndir af mjaldi frá ARkive Geymt 20 júní 2013 í Wayback Machine (texti á ensku)
  NODES