Morðbréfamálið var mál sem kom upp undir lok 16. aldar og varðaði nokkur bréf sem komu fram um 1590 og hermdu upp á Jón Sigmundsson lögmann þrjú morð. Bréfin voru til þess ætluð að gera að engu kröfu afkomenda Jóns um eignir hans, sem Gottskálk Nikulásson biskup hafði haft af honum í málaferlum. Þau málaferli vörðuðu meðal annars skyldleika hans og konu hans, og þar með hvort börn hans teldust skilgetin. Eftir siðaskipti var Guðbrandur Þorláksson biskup fenginn til þess af fjölskyldu sinni að endurheimta eignir Jóns Sigmundssonar afa síns. Í fyrstu varð honum vel ágengt, en þegar hann krafðist jarðanna Hóls og Bessastaða í Sæmundarhlíð í Skagafirði lenti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni og frændum hans af Svalbarðsætt. Fram komu fjögur „morðbréf“ sem ónýttu kröfu Guðbrands, en hann varðist með útgáfu svokallaðra morðbréfabæklinga þar sem hann hrekur bréfin og sýnir fram á að þau séu fölsuð. Þessum átökum lauk með því að Guðbrandur þurfti að greiða háa sekt fyrir rógburð.

Aðdragandi

breyta

Gottskálk „grimmi“ Nikulásson Hólabiskup hlaut þau eftirmæli að hafa verið harðdrægur og gráðugur í að leggja jarðir undir Hólastól. Um 1505 kærði hann Jón Sigmundsson, höfðingja á Norðurlandi, fyrir ýmsar sakir, meðal annars að hafa vantalið eignir fyrir tíundarreikninga (það er að segja, skattsvik). Með þessum ásökunum og einnig með því að kalla ávallt presta sína til vitnis tókst Gottskálki „grimma“ að sölsa undir sig bróðurpart eigna Jóns, þar á meðal jörðunum Hóli og Bessastöðum í Sæmundarhlíð í Skagafirði sem hann gaf dóttur sinni, Kristínu, í heimanmund árið 1508[1]. Árið 1519 létust bæði Jón Sigmundsson og Gottskálk biskup. Um skeið tók Jón Arason við ráðsmennsku á Hólum. 1521 ákærði hann Einar Jónsson fyrir samneyti við föður sinn bannfærðan. Einar leitaði ásjár Teits Þorvaldssonar höfðingja í Glaumbæ og þeir Teitur og Jón Arason mættust og börðust á Sveinsstaðafundi 1522. Báðir hlutu þeir nokkra vegsemd af þeim bardaga, hvor í sínum flokki, og skömmu síðar var Jón kjörinn biskup og Teitur lögmaður. Teitur sættist þó síðar við Jón og Einar Jónsson færði síðan Jóni forræði eigna sinna og gerðist próventumaður á Hólum.[2]

Afdrif jarðanna Hóls og Bessastaða urðu þau að sonur Kristínar Gottskálksdóttur, Ólafur Jónsson, erfði jarðirnar og síðan gengu þær til dóttur hans og Steinunnar Jónsdóttur ríka frá Svalbarði, Guðrúnar Ólafsdóttur. Eiginmaður hennar, Hannes Björnsson, seldi jarðirnar bræðrunum Jóni og Markúsi Ólafssonum 1585 eða þar um bil[3], þrátt fyrir að Guðbrandur hefði áður stefnt honum um jarðirnar.

Endurheimt kirkjujarða

breyta
 
Guðbrandur Þorláksson á efri árum

Eftir siðaskipti gengu allar eigur kirkna á Íslandi, sem ekki voru sannanlega annarra eign, til konungs. Fljótlega hófu ýmsir að reyna að sækja mál til að endurheimta jarðir sem þeir töldu að kaþólsku biskuparnir hefðu ólöglega af þeim eða forfeðrum þeirra haft. Bæði Gottskálk og Jón Arason höfðu þótt ágjarnir og beitt fyrir sig bannfæringu og lagakrókum til að sölsa jarðir undir sjálfa sig og biskupsstólana. Strax árið 1561 leituðu afkomendur Jóns Sigmundssonar til höfuðsmanns, Páls Stígssonar, varðandi jarðeignir þær sem Gottskálk hafði af honum og Einari syni hans haft, og árið 1568 fór Guðbrandur Þorláksson á fund konungs með kröfu afkomenda Jóns. Með bréfi frá 1570 veitti móðir Guðbrands, Helga Jónsdóttir, honum fullt umboð til að reyna að endurheimta jarðir afa síns. Guðbrandi varð í fyrstu nokkuð vel ágengt og þegar hann varð biskup 1571 hafði hann náð að endurheimta um tuttugu meðaljarðir.

Morðbréfin

breyta

Um 1590 komu fram á Alþingi fjögur bréf sem virtust vitna um að ásakanir og dómar Gottskálks yfir Jóni Sigmundssyni hefðu fyllilega átt rétt á sér og væru jafnvel vægir miðað við meinta glæpi Jóns. Í fyrsta bréfinu er hermt að Jón hafi myrt bróður sinn Ásgrím Sigmundsson, sem dó í bardaga í kirkjugarðinum í Víðidalstungu árið 1483. Annað bréfið hermir að Jón hafi játað á sig bróðurmorðið. Það þriðja er heimild til aflausnar Jóns Sigmundssonar fyrir morðið sem Gottskálk skrifar Jóni ábóta á Þingeyrum og í því fjórða er svo borið upp á Jón að hann hafi myrt stjúpson sinn í Gljúfrá og síðar myrt sitt eigið barn, tveggja ára gamalt, með því að stinga því í pott. Með þessu móti var ekki aðeins verið að sverta minningu Jóns og réttlæta ofsóknir biskups á hendur honum, heldur líka draga í efa að auðæfi hans, sem hann erfði meðal annars eftir börn sín, væru fengin með réttmætum hætti. Bréfin voru afhent höfuðsmanni á þinginu og virtist sem lítið yrði úr vinnu Guðbrands við að endurheimta jarðir afa síns.

Fyrsti morðbréfabæklingurinn

breyta

Á Alþingi árið 1592 reyndi Guðbrandur að fá lögréttu til að dæma bréfin fölsuð, en sökum andstöðu Jóns Jónssonar lögmanns, gekk það ekki. En Guðbrandur biskup sat á Hólum þar sem prentverkið var og hann hikaði ekki við að beita því þegar svona var komið. Án þess hann hefði fengið að sjá morðbréfin með eigin augum, gaf hann út fyrsta morðbréfabæklinginn 1592 þar sem hann hrakti þær ávirðingar sem fram komu í bréfunum lið fyrir lið og sýndi fram á ranglæti Gottskálks biskups gagnvart afa hans. Hann lét auk þess prenta ýmis bréf sem innihéldu vitnisburði til stuðnings máli sínu, einkum hvað varðaði þá ákæru Gottskálks gagnvart Jóni að hann og Björg kona hans væru fjórmenningar.[4]

Annar morðbréfabæklingurinn

breyta
 
Arngrímur Jónsson

Sama ár sendi Guðbrandur Arngrím Jónsson til Kaupmannahafnar til að sækja málið til konungs. Konungur bauð höfuðsmanni að sætta biskup og Jón lögmann með bréfi dagsettu 9. maí 1594. Sama ár, 30. júní, voru morðbréfin svo dæmd fölsuð á Alþingi. Áður höfðu komið fram í lögréttu svokölluð „jarðabréf“ sem vitnuðu um að Jón Sigmundsson og Björg kona hans hefðu framselt jarðirnar Hól og Bessastaði í Sæmundarhlíð til Gottskálks biskups til greiðslu skuldar. Þessi bréf voru ekki dæmd fölsuð í lögréttu heldur staðfest að þau væri góð og gild[5]. Eftir þessa útreið gaf Guðbrandur því út annan morðbréfabæklinginn 1595 þar sem hann í fyrsta lagi sýnir fram á að morðbréfin séu fölsuð, skafin og endurskrifuð gömul bréf með innsiglum, nú búinn að sjá þau með eigin augum, og í öðru lagi sýnir fram á með rökum að jarðabréfin séu einnig fölsuð á sama hátt.[6]

Þriðji morðbréfabæklingurinn

breyta

Guðbrandur biskup þóttist hafa fengið litla uppreisn æru úr þessum málaferlum öllum, og ekki náð takmarki sínu; jörðunum Hóli og Bessastöðum, sem þeir Jón og Markús Ólafssynir héldu enn, þrátt fyrir að hann væri viss um að þeir bæru ábyrgð á fölsununum. Hann hefur þó líklega lítið getað aðhafst fyrir Jóni Jónssyni lögmanni, sem var einn valdamesti maður landsins á þessum tíma. Þegar Jón lést eftir veislu sem haldin var á Bessastöðum á Álftanesi í tilefni af komu nýs höfuðsmanns, Herlufs Daa, þá er eins og biskup hafi viljað sæta færis. Árið 1608 lét hann prenta þriðja bæklinginn þar sem hann rekur málið vandlega og klykkir út með tileinkuninni:

 
Jóni Ólafssyni, bróður hans Markúsi Ólafssyni og þeim fleirum, hverir helzt þeir eru; smiðum, sköfurum, skrifurum þessara falskra bréfa upp á Jón Sigmundsson, hvort sem þeir eru lífs eða dauðir, til sæmdar og heiðurs, vegs og virðingar hjá öllum ærlegum mönnum.[7]
 

Málaferli og eftirmál

breyta

Út af þessum bæklingi hófust mikil málaferli. Árið eftir hreinsaði Jón Ólafsson sig með eiði af ákæru Guðbrands. Jón Sigurðsson, bróðursonur Jóns Jónssonar, var þá orðinn lögmaður og ávítaði biskup í bréfi eftir klögun Jóns Ólafssonar. Árið 1611 stefndi biskup Jóni Ólafssyni fyrir falsanirnar og vændi jafnframt Jón Sigurðsson um hórdómsbrot. Á þinginu var honum gert að sættast við Jón Sigurðsson, en Jón Ólafsson féll frá því að kæra biskup fyrir róg. Rekistefnan hélt samt áfram, og 24. júní 1618 kærði Jón Ólafsson biskup fyrir eftirlitsmönnum konungs, Frederik Friis og Jørgen Vind, sem voru á Íslandi til að rannsaka embættisfærslu Herlufs Daa. Árið eftir sættist biskup við Jón Ólafsson og greiddi honum bætur. Þessi sáttagerð virðist þó hafa komið til of seint, því þegar Frederik Friis kom til landsins vorið eftir sem nýr höfuðsmaður, bar hann með sér bréf frá konungi um að höfða skyldi mál gegn Guðbrandi. Stuttu áður hafði biskup reynt að endurheimta öll þau eintök af síðasta bæklingnum sem hann gat komið höndum yfir og látið brenna þau, svo að í dag eru örfá eintök þekkt.

1620 nefnir Holger Rosenkrantz höfuðsmaður tveggja tylfta yfirdóm um málið. Ari Magnússon í Ögri, tengdasonur biskups, en jafnframt náfrændi lögmannanna Jóns Jónssonar og Jóns Sigurðssonar, tók að sér að verja málstað biskups fyrir dóminum og fór tvennum sögum af framgöngu hans. Erfiðlega gekk að útvega eintak af bæklingnum sem dæma átti út af, en það tókst þó á endanum. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brot Guðbrands varðaði embættismissi, en ákveðið var að leggja málið í dóm konungs. Árið eftir úrskurðaði konungur að Guðbrandur skyldi halda embætti en greiða sekt sem ákveðin var þúsund ríkisdalir.

Árið 1624 gerði Guðbrandur síðustu tilraun til að endurheimta jarðirnar með stefnu sem Ari bar fram fyrir hans hönd, en Jón Sigurðsson ónýtti sókn þeirra á Alþingi. Ekki hefur fjölskylda Guðbrands verið ánægð með framgöngu Ara, og Halldóra Guðbrandsdóttir bað höfuðsmann árið 1625 um að setja Ara frá öllum forráðum á Hólum, líklega af ótta við að Ari ætlaði sér að skipta búi biskups eftir lát hans. Höfuðsmaður varð við bóninni og Ari hvarf frá Hólum áður en Guðbrandur lést árið 1627.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Einar Arnórsson, „Gottskálk biskup og Jón Sigmundsson“, s. 148
  2. Einar Arnórsson, op. cit., s. 209-10
  3. Einar Arnórsson, op. cit., s. 73
  4. Morðbréfabæklingar, s. 3-60
  5. Morðbréfabæklingar, s. 174
  6. Morðbréfabæklingar, s. 63-120
  7. Morðbréfabæklingar, s. 172

Heimildir

breyta
  • Einar Arnórsson, „Gottskálk biskup Nikulásson og Jón lögmaður Sigmundsson“, Safn til sögu Íslands, 2, Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1953: s. 1-264
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands IV, ritstj. Sigurður Líndal, Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag/Sögufélagið, 1990
  • Morðbréfabæklingar Guðbrands biskups Þorlákssonar 1592, 1595 og 1608 með fylgiskjölum, ritstj. Jón Þorkelsson, Reykjavík, Sögufélag, 1902-1906
  • Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi, III, Reykjavík, Bókaverzlun Ársæls Árnasonar, 1924


  NODES