Ne Win

Einræðisherra í Búrma (1911-2002)

Ne Win (búrmíska: နေဝင်း; 10. júlí 1910, eða 14. eða 24. maí 1911 – 5. desember 2002) var búrmískur stjórnmálamaður og herforingi sem var forsætisráðherra Búrma frá 1958 til 1960 og frá 1962 til 1974 og forseti Búrma frá 1962 til 1981. Ne Win var einræðisherra sem fór fyrir sósíalískri herforingjastjórn frá 1962 til 1988. Stjórn Ne Wins einkenndist af einangrunarhyggju, pólitísku ofbeldi, andúð á Kínverjum, alræðishyggju og efnahagskreppu. Á stjórnartíð hans varð Búrma að einu fátækasta og vanþróaðasta ríki í heimi.[1]

Ne Win
နေဝင်း
Forseti Búrma
Í embætti
2. mars 1974 – 9. nóvember 1981
ForsætisráðherraSein Win
Maung Maung Kha
ForveriWin Maung (1962)
EftirmaðurSan Yu
Forsætisráðherra Búrma
Í embætti
29. október 1958 – 4. apríl 1960
ForsetiWin Maung
ForveriU Nu
EftirmaðurU Nu
Í embætti
2. mars 1962 – 2. mars 1974
ForveriU Nu
EftirmaðurSein Win
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. júlí 1910
Paungdale, Pegu-héraði, Neðra-Búrma, breska Indlandi
Látinn5. desember 2002 (92 ára) Jangún, Mjanmar
ÞjóðerniMjanmarskur
StjórnmálaflokkurSósíalíski stefnuskrárflokkur Búrma (BSPP)
MakiThan Nyunt
Tin Tin
Khin May Than
Ni Ni Myint
Yadana Nat Mei
TrúarbrögðTheravada búddismi
Börn6
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Ne Win fæddist í Paundale í miðhluta Búrma undir nafninu Shu Maung, þar sem faðir hans var aðstoðarmaður á stjórnarskrifstofu bresku nýlenduyfirvaldanna. Eftir að hafa lokið prófi í miðskóla var hann sendur til náms í íþróttum í Prome en náði litlum árangri. Hann ákvað að ferðast til Rangoon, þar sem hann nam læknisfræði í háskóla og útskrifaðist með líffræðipróf árið 1931. Hann hætti síðan háskólanámi og hóf vinnu við póstþjónustuna í Búrma.[2]

Líkt og margir aðrir íbúar Búrma varð Shu Maung óánægður með bresku nýlendustjórnina og gekk því í sjálfstæðishreyfingu sem stúdentar höfðu stofnað árið 1930. Í hreyfingunni kynntist hann búrmísku sjálfstæðisleiðtogunum Aung San og U Nu. Shu Maung lak upplýsingum frá ríkispóstþjónustunni til sjálfstæðishreyfingarinnar.[2]

Árið 1941 þáði Shu Maung boð japanska keisaradæmisins til búrmískra ungmenna um að hljóta þjálfun í hernaðarfræði. Shu Maung var einn „félaganna þrjátíu“ sem var smyglað til Hainan til þess að gangast undir herþjálfun í boði Japana. Hann þótti áhugasamur og dugnaðarmikill og var því meðal þeirra sem voru valdir til að hljóta liðsforingjamenntun. Á tíma sínum í þjálfun tók Shu Maung upp nýtt nafn, Ne Win, sem merkir „bjartur eins og sólin“.[2]

Ne Win sneri aftur til Búrma eftir hernaðarþjálfunina til að byggja upp sjálfstæðishreyfinguna gegn yfirráðum Breta. Í desember 1941 réðust Japanir inn í Búrma, sem varð ein mikilvægasta vígstöð seinni heimsstyrjaldarinnar í Suðaustur-Asíu. Á styrjaldarárunum missti Ne Win smám saman trú á því að Japanir myndu veita Búrma sjálfstæði eftir að Bretar yrðu hraktir burt. Árið 1943 settu Japanir á fót stjórn í Búrma sem var óháð að nafninu til þar sem Aung San varð forsætisráðherra en Ne Win varð varnarmálaráðherra. Þegar Bretar tóku aftur við stjórn Búrma fór Ne Win á Irrawaddy-svæðið og stýrði þaðan skæruhernaði gegn Japönum þar til landið var aftur komið undir breska stjórn.[2]

Búrma hlaut sjálfstæði frá breska heimsveldinu í janúar 1948 og varð U Nu þá forsætisráðherra en Ne Win varnarmálaráðherra. Eftir tíu ára stjórn U Nu rambaði ríkið á barmi borgarastyrjaldar og Ne Win var því falið að mynda eigið varnarráð til að stýra landinu og koma á röð og reglu áður en nýjar kosningar yrðu haldnar. Ne Win tók við stjórn landsins þann 29. október 1958 og gegndi embætti forsætisráðherra í um eitt og hálft ár. Þegar kosningar voru haldnar á ný árið 1959 var U Nu kjörinn forsætisráðherra á ný en staða stjórnarinnar var áfram veik og undirliggjandi ólga í samfélaginu mikil. Í mars árið 1962 framdi Ne Win því valdarán gegn stjórn U Nu með hjálp búrmískra herforingja og lét handtaka Nu. Ne Win stofnaði einræðisstjórn undir byltingarráði sem hann leiddi sjálfur í viðleitni til að binda enda á átök í landinu milli þjóðernishópa, kommúnískra skæruliða og ópíumsmyglara.[3]

Stjórnartíð

breyta

Ne Win setti á fót stjórnarkerfi sem blandaði saman þjóðernishyggju, marxisma og búddisma undir nafninu „leið Búrma til sósíalisma“. Hann stofnaði jafnframt Sósíalíska stefnuskrárflokkinn (BSPP), sem varð eini löglegi stjórnmálaflokkur Búrma, og var leiðtogi hans frá 4. júlí 1962 til 23. júlí 1988.[4]

Ne Win lét að mestu loka landinu fyrir útlendingum og setti veruleg höft á verslun Búrma með höfuðútflutningsvöru sína, hrísgrjón, til þess að reyna að gera landið sjálfbært. Hann þjóðnýtti allan iðnað, bannaði erlendar fjárfestingar og afþakkaði efnahagsaðstoð frá erlendum ríkjum.[5] Efnahagsstjórn Ne Wins leiddi til verulegrar verðbólgu og til uppgangs stórtæks svartamarkaðar á landamærunum þar sem Búrmar versluðu með útflutningsvörur sínar við Kínverja án hafta ríkisstjórnarinnar.[3] Árið 1973 lét Ne Win formlega gera Búrma að sósíalísku ríki með nýrri stjórnarskrá sem hann setti og þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu með meintum níutíu prósentum atkvæða.[6]

Stjórn Ne Wins mismunaði kerfisbundið múslimum og kristnum íbúum Búrma auk þess sem Kínverjar búsettir í landinu sættu ofsóknum. Ofsóknirnar leiddu til fólksflótta Kínverja frá Búrma á stjórnartíð Ne Wins.[7]

Ne Win sagði af sér sem forseti Búrma árið 1981 og lét valinn eftirmann sinn, hershöfðingjann San Yu, taka við. Ne Win sat þó áfram sem formaður Sósíalíska stefnuskrárflokksins og var því áfram æðsti stjórnandi Búrma næstu árin. Á áttunda og níunda áratugnum urðu stúdentamótmæli gegn herforingjastjórninni tíð og árið 1988 braust út meiriháttar uppreisn gegn stjórn Ne Wins. Ne Win lýsti yfir afsögn sinni sem flokksformaður í júlí 1988 en varaði mótmælendurna við því að stjórnin myndi áfram berjast með kjafti og klóm gegn hvers kyns uppreisn.[8][9] Í september 1988 bældi búrmíski herinn niður uppreisnarhreyfinguna. Talið er að Ne Win hafi átt hlut að máli í aðgerðum hersins á bak við tjöldin og að hann hafi áfram haft nokkur áhrif á stjórnina næstu árin.[8]

Áhrif Ne Wins fóru að dala undir lok tíunda áratugarins og hann var að endingu settur í stofufangelsi. Ne Win lést árið 2002 í stofufangelsinu. Stjórnin tilkynnti ekki opinberlega um dauða hans né fékk hann ríkisútför og fyrrum samstarfsmenn hans voru hvattir til að mæta ekki í jarðarför hans.[10][11]

Tilvísanir

breyta
  1. Jóhanna Kristjónsdóttir (29. september 1987). „Ne Win vill endurskoðun á búrmíska sósíalismanum“. Morgunblaðið. bls. 29.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Gunnar Haraldsen (19. júlí 1971). „Ne Win: Einræðisherra í Burma í tíu ár!“. Alþýðublaðið. bls. 7.
  3. 3,0 3,1 „Landið gjöfula sem mannleg mistök hafa troðið í svaðið“. Tíminn. 11. ágúst 1988. bls. 10.
  4. Badgley, John H. (1. júní 1938). „Burma's China Crisis: The Choices Ahead“. Asian Survey (enska). 7 (11): 753–761. doi:10.2307/2642500. ISSN 0004-4687. JSTOR 2642500.
  5. Thant Myint-U (28. október 2007). „Leiðin til bjargar Búrma“. Morgunblaðið. bls. 22-23.
  6. Jóhanna Kristjónsdóttir (14. október 1983). „Verður breyting á einangrunarstefnu Búrma með nýjum forystumönnum?“. Morgunblaðið. bls. 12.
  7. Hogwei, Fan (28. júní 2017). „Anti-Chinese riots rock Rangoon“. The Hindu (Indian English). ISSN 0971-751X. Sótt 17. nóvember 2020.
  8. 8,0 8,1 Win, Sein (24. júlí 1988). „Burmese Leader Ne Win Resigns in Surprise Move“. Washington Post (bandarísk enska). ISSN 0190-8286. Sótt 7. nóvember 2020.
  9. Cook, C. P. (1970). „Burma: The Era of Ne Win“. The World Today. 26 (6): 259–266. ISSN 0043-9134. JSTOR 40394388.
  10. „U Ne Win | Myanmar general and dictator“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 7. nóvember 2020.
  11. „Ne Win, dictator who ruined Burma, is dead“. The Sydney Morning Herald (enska). 6. desember 2002. Afrit af uppruna á 10. janúar 2021. Sótt 7. nóvember 2020.


Fyrirrennari:
U Nu
Forsætisráðherra Búrma
(29. október 19584. apríl 1960)
Eftirmaður:
U Nu
Fyrirrennari:
U Nu
Forsætisráðherra Búrma
(2. mars 19622. mars 1974)
Eftirmaður:
Sein Win
Fyrirrennari:
Win Maung
(1962)
Forseti Búrma
(2. mars 19749. nóvember 1981)
Eftirmaður:
San Yu


  NODES
Done 1