Ogadenstríðið var stríð milli Eþíópíu og Sómalíu um héraðið Ogaden sem er austasta hérað Eþíópíu og aðallega byggt Sómölum. Stríðið stóð frá 13. júlí 1977 til 15. mars 1978 og lauk með sigri Eþíópíu og kúbverskra bandamanna þeirra.

Landsvæði í Eþíópíu undir stjórn sómalska hersins 1977.

Héraðið var meðal þeirra landsvæða sem Bretar skiluðu til Eþíópíu eftir Síðari heimsstyrjöld á grundvelli samnings frá 1897. Rétt áður en Sómalía hlaut sjálfstæði var þjóðaratkvæðagreiðsla haldin í Djibútí um það hvort landið kysi að vera áfram hluti Frakklands eða sameinast Sómalíu. Meirihluti valdi að vera áfram hluti Frakklands en Frakkar voru sakaðir um að reka stóra hópa Sómala frá landinu í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Á sama tíma samþykktu Bretar að veita Kenýa yfirráð yfir héraði sem áður hafði verið klofið frá Júbalandi í suðurhluta Sómalíu og varð Norðausturhérað Kenýa. Þessum tilfærslum var mótmælt af þeim sem vildu sameina alla Sómala í einu ríki.

Sómalía fékk sjálfstæði 1960. Árið 1969 framdi Sómalíuher valdarán undir forystu Mohamed Siad Barre sem breytti landinu í „Alþýðulýðveldið Sómalíu“. Stjórn hans var studd af Sovétríkjunum og Egyptalandi og Sómalíuher efldist mikið næstu ár. Á sama tíma veiktist stjórn Eþíópíu. Eþíópíska herráðið steypti keisaranum Haile Selassie af stóli í september 1974 sem hratt af stað skæruhernaði víða í landinu. Meðal skæruliðahreyfinga sem hófu starfsemi á þessum tíma var Vestursómalska frelsisfylkingin í Ogaden. Þeir fengu vopn og mannafla frá Sómalíu. Mengistu Haile Mariam tók við völdum í Eþíópíu 1977 og hóf ofsóknir gegn andstæðingum herráðsins. Þrátt fyrir ofbeldið ákvað Sovétstjórnin að það væri þeirra hagur að styðja nýju stjórnina. Eþíópía hætti því samstarfi við Bandaríkin.

Samkvæmt eþíópískum heimildum hóf Sómalíuher innrás í Ogaden 13. júlí 1977 með 70.000 menn, 40 herflugvélar, 250 skriðdreka, 350 brynvarða bíla og 600 fallbyssur. Ef þetta er rétt hefur allur sómalski herinn á þeim tíma tekið þátt í innrásinni. Sovétríkin reyndu að koma á vopnahléi en þegar það mistókst hættu þeir öllum stuðningi við Sómalíu en juku stuðning við Eþíópíu. Hergögn og 14.000 kúbverskir hermenn voru sendir til landsins frá Jemen.

Frá ágúst til janúar 1978 náði Sómalíuher að leggja undir sig meirihluta Ogaden, þar á meðal borgina Jijiga en mistókst að ná hernaðarlega mikilvægu borgunum Dire Dawa og Harar þrátt fyrir harða bardaga. Í febrúar hófu eþíópískar og kúbverskar hersveitir gagnárás. Vörn Sómala hrundi á fáum dögum og á næstu vikum náði Eþíópíuher aftur undir sig öllu héraðinu. Barre skipaði hernum að hörfa til Sómalíu 9. mars. Síðustu hersveitirnar fóru yfir landamærin 15. mars.

Áhrif stríðsins voru þau að Sovétríkin hættu að styðja Sómalíu og hófu að styðja Eþíópíu í Kalda stríðinu, meðan Bandaríkin gerðu hið gagnstæða. Stjórn Barres gaf allar hugmyndir um Stór-Sómalíu á Horni Afríku upp á bátinn enda her Sómalíu varla svipur hjá sjón eftir átökin. Sómalskir skæruliðar héldu áfram baráttu sinni gegn Eþíópíustjórn í Ogaden til 1981.

  NODES
languages 1