Páll Vídalín
Páll Vídalín (f. 1667, d. 18. júlí 1727) var lögmaður, sýslumaður og skáld í Dalasýslu og Strandasýslu og bjó lengst af í Víðidalstungu. Hann var samstarfsmaður Árna Magnússonar við gerð Jarðabókarinnar 1702-1712. Páll var eitt af helstu skáldum sinnar tíðar og er þekktur fyrir lausavísur sínar.
Páll var sonur Jóns Þorlákssonar lögréttumanns í Víðidalstungu (sem var sonarsonarsonur Guðbrandar Þorlákssonar biskups) og konu hans, Hildar Arngrímsdóttur lærða Jónssonar. Páll lærði við Kaupmannahafnarháskóla í þrjú ár, tók próf í guðfræði 1688 og kom síðan aftur til Íslands. Hann hafði meðferðis konungsbréf um að hann skyldi fá skólameistaraembættið í Skálholtsskóla en sá sem gegndi því þá, Þórður Þorkelsson Vídalín frændi hans, vildi ekki sleppa því og fékk Páll ekki embættið fyrr en 1690. Hann var skólameistari til 1697. Vorið eftir varð hann sýslumaður í Dalasýslu og sama ár varalögmaður sunnan og austan. Lögmaður varð hann svo 1706.
Árið 1702 var Páll, ásamt Árna Magnússyni, skólabróður sínum frá Kaupmannahöfn, settur í nefnd og áttu þeir að rannsaka allt ástand Íslands. Þeir áttu meðal annars að taka saman jarðabók með nákvæmum upplýsingum um hverja einustu jörð á landinu. Þetta verk var unnið á tólf árum og vann Páll meginhluta þess. Ennfremur áttu þeir að sjá til þess að tekið yrði allsherjarmanntal og er manntalið 1703 hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Þeir áttu líka að meta tekjur presta og kirkna, kanna þörf á holdsveikraspítölum, athuga jarðeignir konungs, kanna rekstur Bessastaða, kanna framferði kaupmanna gegn landsmönnum, meta kærur almennings gegn embættismönnum og ríkismönnum og skrifa greinargerð um réttarfar.
Starfinn var því ærinn og jarðabókavinnan dróst á langinn og tók mun lengri tíma en ætlað hafði verið. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var ekki fullgerð fyrr en 1713. Þeir félagar lentu í útistöðum við flesta eða alla helstu valdsmenn landsins nema biskupana. Páll átti oft í hörðum deilum, lenti meðal annars í málaferlum við Odd Sigurðsson lögmann og var vikið úr lögmannsembætti um tíma. Skýrslugerð og önnur vinna þeirra félaga varð ekki til þess að umbótum væri komið á en skilaði aftur á móti ómetanlegum heimildum um íslenskt þjóðfélag og landshætti á fyrsta áratug 18. aldar.
Páll var mjög fróður um bæði lögfræði og fornfræði og skrifaði meðal annars Skýringar yfir fornyrði Jónsbókar og fleiri verk. Hann var skáld gott bæði á íslensku og latínu. Hann var sagður einn vitrasti maður sinnar tíðar. „Lærður maður og stórvitr, en haldinn nokkuð grályndur“, segir Espólín. Hann dó á Alþingi 1727.
Kona Páls var Þorbjörg Magnúsdóttir (20. febrúar 1667 - 19. maí 1737 (drukknaði)), dóttir Magnúsar digra Jónssonar í Ögri og konu hans Ástríðar Jónsdóttur. „Ekki samdi þeim heldur en foreldrum Þorbjargar og það varð ættgengt“, segir Espólín. Á meðal barna þeirra voru Hólmfríður kona Bjarna Halldórssonar sýslumanns á Þingeyrum, og Jón Vídalín Pálsson sýslumaður, sem varð úti á Hjaltadalsheiði 1726.
Heimildir
breyta- „Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 14. árg. 1893“.
- „Hver var Árni Magnússon og fyrir hvað er hann þekktastur?". Vísindavefurinn 16.8.2004“.
Fyrirrennari: Sigurður Björnsson |
|
Eftirmaður: Niels Kier |