Píus 9. (13. maí 1792 – 7. febrúar 1878), fæddur undir nafninu Giovanni Maria Mastai Ferretti, var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1846 til 1878.

Píus 9.
Píus 9. árið 1875.
Skjaldarmerki Píusar 9.
Páfi
Í embætti
16. júní 1846 – 7. febrúar 1878
ForveriGregoríus 16.
EftirmaðurLeó 13.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. maí 1792
Senigallia, Marche, Páfaríkinu
Látinn7. febrúar 1878 (85 ára) Páfahöllinni, Róm, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Píus var páfi í 32 ár, lengur en nokkur annar páfi í sögu kaþólsku kirkjunnar. Páfatíð hans var mikið umbrotaskeið, meðal annars vegna byltinganna 1848 og sameiningar Ítalíu. Ítölsku sjálfstæðisstríðin leiddu til þess að Páfaríkið glataði Rómarborg í hendur nýja ítalska konungsríkisins árið 1870. Píus neitaði þaðan í frá að stíga fæti út fyrir Páfagarð og kallaði sjálfan sig „fangann í Páfagarði“.

Píus er einnig þekktur fyrir að kalla saman fyrra Vatíkanþingið, sem stóð frá 1869 til 1870.

Æviágrip

breyta

Fyrstu árin eftir að Píus 9. varð páfi bjóst fólk við því að hann yrði mun frjálslyndari en forverar hans. Meðal annars náðaði hann pólitíska andstæðinga, stefndi til ráðgjafarþings, leyfði leikmönnum að fara með pólitískt vald ásamt klerkum, rýmkaði prestfrelsi og lagði skatt á klaustur.[1] Stefna Píusar breyttist þegar byltingarnar 1848 bárust til Rómar frá Frakklandi. Píus varð að flýja frá Róm árið 1849 þegar byltingarmenn náðu stjórn á borginni og stofnuðu þar skammlíft lýðveldi. Píus fékk að snúa aftur til Rómar næsta ár þegar herir frá Frakklandi og Austurríki gerðu hernaðarinngrip til að binda enda á byltinguna. Eftir þessa atburði varð Píus 9. mun íhaldssamari og andsnúnari lýðræðis- og frjálslyndishreyfingum síns tíma.[2]

Píus 9. tók ákvörðun um það að kenningin um óflekkaðan getnað Maríu meyjar var formlega gerð að trúarsetningu sem öllum kaþólskum mönnum bar að viðurkenna. Var þetta gert árið 1854 þegar Píus gaf út páfabréfið Ineffabilis Deus, þar sem staðhæft var að María hefði fæðst án erfðasyndarinnar. Í bréfinu lagði Píus jafnframt grunn að formlegri viðurkenningu innan kirkjunnar að hugmyndinni um óskeikulleika páfans.[2]

Árið 1864 gaf Píus út umburðarbréfið Quanta cura með viðfestri skrá yfir það sem hann taldi vera 80 hættulegustu villukenningar samtíma síns. Þar á meðal nefndi hann stefnur á borð við algyðistrú, skynsemishyggju, mótmælendatrú, jafnaðarstefnu, biblíufélög, samviskufrelsi, helgisiðafrelsi og prentfrelsi.[2]

Á fyrra Vatíkanþinginu þann 18. júli árið 1870 fékk Píus viðurkenningu á óskeikulleika páfans sem trúarsetningu innan kaþólsku kirkjunnar. Samkvæmt henni getur páfinn einn og óstuddur myndað erfikenningu sem hefur fullt gildi þegar hann ávarpar í embættisnafni (ex cathedra) kirkjuna í heild sinni um efni sem varða trú og siðgæði.[2]

Sameining Ítalíu átti sér stað á páfatíð Píusar. Árið 1861 var Konungsríkið Ítalía stofnað og var Páfaríkið þá eina stóra landsvæðið á Ítalíuskaga sem ekki tilheyrði ítalska ríkinu. Frakkar höfðu hjálpað Píusi að viðhalda stjórn í Rómarborg en árið 1870 voru franskar hersveitir kallaðar frá Róm vegna fransk-prússneska stríðsins. Viktor Emmanúel 2., konungur Ítalíu, greip tækifærið á lofti og gerði árás á Róm. Her Ítalíu náði Róm á sitt vald þann 20. september 1870, á meðan fyrra Vatíkanþingið stóð enn yfir. Róm var í kjölfarið gerð að höfuðborg Ítalíu og páfinn var sviptur öllu veraldlegu stjórnmálavaldi.[2]

Eftir hertöku Rómar gaf ítalska konungsríkið út öryggislög þar sem páfinn var viðurkenndur sem fullvaldur, og væri því ekki þegn ítalska ríkisins. Honum var gefin heimild til að nota áfram Vatíkanhöllina og Lateranhöllina, semja við sendiherra útlendra þjóða og taka lokaákvarðanir um málefni kirkjunar, auk þess sem ríkið úthlutaði honum veglegum árlegum lífeyri. Píus neitaði hins vegar að viðurkenna ítalska konungsríkið og hafnaði lífeyrinum. Hann bannaði kaþólskum Ítölum að taka þátt í stjórnmálum konungsríkisins með því að neyta kosningaréttar síns og neitaði jafnframt að stíga nokkurn tímann fæti út úr Vatíkanhöllinni. Með því að fara aldrei út úr höllinni vildi Píus undirstrika að páfinn væri orðinn „fangi í Vatíkanhöllinni“. Eftirmenn Píusar fylgdu sömu reglu allt til ársins 1929.[2]

Píus lést árið 1878. Hann hafði þá verið páfi í 32 ár, lengur en nokkur annar páfi í sögu kirkjunnar.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. Þórhallur Bjarnarson (1. janúar 1897). „Páfinn á vorum dögum“. Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags. bls. 59-79.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Jón Helgason (1. janúar 1930). „Rómversk-katólska kirkjan á 19. öld“. Prestafélagsritið. bls. 87-122.


Fyrirrennari:
Gregoríus 16.
Páfi
(16. júní 18467. febrúar 1878)
Eftirmaður:
Leó 13.


  NODES