Polemon

(Endurbeint frá Pólemon)

Polemon eða Pólemonforngrísku: Πολέμων; dáinn 270 eða 269 f.Kr.) frá Aþenu var platonskur heimspekingur og fjórði skólastjóri Akademíunnar frá 314 eða 313 til 270 eða 269 f.Kr. Hann var nemandi Xenokratesar og taldi að heimspeki ætti að stunda fremur en að læra hana. Polemon taldi að hin æðstu gæði væru fólgin í því að lifa í samræmi við náttúruna.

Polemon

Æviágrip

breyta

Polemon var sonur Fílóstratosar, auðmanns með stjórnmálaítök. Í æsku mun hann hafa skort sjálfsstjórn. Dag einn er hann var um þrítugt ruddist hann með látum inn í skóla Xenokratesar ásamt vinum sínum en varð dolfallinn er hann heyrði umræðurnar sem Xenokrates átti við nemendur sína í mestu makindum þrátt fyrir skarkalann — svo vildi til að þær fjölluðu um sjálfsstjórn — að hann lét af ólátaganginum og gerðist nemandi Xeonkratesar.[1]

Meðal nemenda Polemons voru Krates frá Aþenu, sem var ástsveinn hans,[2] og Krantor,[3] auk Zenons frá Kítíon[4], upphafsmanns stóuspekinnar, og Arkesilásar, upphafsmanns akademískrar efahyggju.[5] Díogenes Laertíos segir að Polemon hafi látist úr hárri elli.[6] Krates tók við af honum sem skólastjóri Akademíunnar.[7]

Heimspeki

breyta

Díogenes Laertíos segir að Polemon hafi fylgt Xenokratesi náið eftir í öllum málum.[8] Hann taldi að heimspeki ætti að æfa fólk í breytni sinni en ekki í rökræðugetu og vangaveltum.[9] Hann var alvörugefinn maður og virðulegur[10] og var stoltur af stjórn sinni á geðshræringum sínum. Hann dáðist að Hómer og Sófóklesi öðrum skáldum fremur og er sagður hafa lýst þeim svo að Hómer væri epískur Sófókles en Sófókles tragískur Hómer.[11]

Ritverk

breyta

Díogenes Laertíos segir að Polemon hafi skilið eftir sig fjölmargar ritgerðir en engin þeirra var varðveitt í síðfornöld.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Díogenes Laertíos, IV.16.
  2. Díogenes Laertíos, IV.21-22.
  3. Díogenes Laertíos, IV.17, 22.
  4. Díogenes Laertíos, VII.2, 25.
  5. Díogenes Laertíos, IV.22, 24.
  6. Díogenes Laertíos, IV.20.
  7. Díogenes Laertíos, IV.21.
  8. Díogenes Laertíos, IV.19.
  9. Díogenes Laertíos, IV.18.
  10. Díogenes Laertíos, IV.19.
  11. Díogenes Laertíos, IV.20.
  NODES