Peter Fjeldsted Hoppe

Peter Fjeldsted Hoppe (14. ágúst 179423. maí 1848) var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1824-1829.

Hann var sonur Johanns Christophers Hoppe sjóliðsforingja og kammerherra og konu hans Johanne Magdalene Fjeldsted, dóttur Þorkels Fjeldsted stiftamtmanns í Noregi. Yngri bróðir hans var Torkil Abraham Hoppe, sem var stiftamtmaður á Íslandi 1841-1847. Hann var skipaður amtmaður í Suðuramti á Íslandi 2. mars 1824 og um leið settur stiftamtmaður en ekki skipaður í það embætti fyrr en 26. apríl 1826. Hann kom þó ekki til landsins fyrr en 2. ágúst 1824 og gegndi Bjarni Thorsteinsson embættunum á meðan, og aftur frá því um haustið 1825 fram í júlí næsta sumar því þá fékk Hoppe leyfi Rentukammersins til að fara til Kaupmannahafnar að gifta sig. Kona hans var Julie von Haffner.

Um Hoppe segir Bjarni í ævisögu sinni: „Hann reyndist hér reglusamur og allnýtur embættismaður. En það var eitthvað óviðkunnanlegt í háttum hans og framgöngu, einkum fyrir þá sem ekki þektu hann. I stjórnarráðunum var hann ekki sériega mikils metinn, þvi þar var hald manna a& hann risti ekki djúpt.“ Hoppe þótti þó að mörgu leyti hæfur maður og hann sýndi til dæmis málefnum stiftsbókasafnsins (síðar Landsbókasafnsins) mikinn áhuga og gegndi sjálfur störfum bókavarðar og gaf safninu bækur, húsmuni og fleira. Hann var einnig öflugur stuðningsmaður Lærða skólans.

Hoppe var skipaður amtmaður í Vejle-amti í Danmörku í nóvember 1828 og lét af stiftamtmannsembættinu í ársbyrjun 1829. Þegar hann fór frá Íslandi orti Jónas Hallgrímsson kveðjuljóðið Við brottför Hoppe í nafni Lærða skólans og hefst það á erindinu:

Þökk sé þér, vinur,
velgjörari,
skjöldur skóla vors!
Oss var ásjá þín
oftar reynd
en að hún oss gleymst geti.

Peter Fjeldsted Hoppe var amtmaður í Vejle-amti til dauðadags 1848.

Heimildir

breyta
  • „Æfisaga amtmanns Bjarna Thorsteinssonar skráð af honum sjálfum. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 24. árgangur 1903“.
  • „Landsbókasafnið. Stutt yfirlit. Árbók Landsbókasafns Íslands, 1. árgangur 1944“.
  NODES