Poul Schlüter

Forsætisráðherra Danmerkur (1929-2021)

Poul Holmskov Schlüter (3. apríl 1929 – 27. maí 2021[1]) var danskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Danmerkur frá 1982 til 1993. Hann er eini meðlimur danska Íhaldssama þjóðarflokksins sem hefur verið forsætisráðherra og var jafnframt fyrsti íhaldsmaðurinn sem varð forsætisráðherra landsins frá árinu 1901. Rúmlega tíu ára forsætisráðherratíð Schlüters er sú lengsta í Danmörku frá því fyrir seinni heimsstyrjöld.

Poul Schlüter
Poul Schlüter árið 2005.
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
10. september 1982 – 25. janúar 1993
ÞjóðhöfðingiMargrét 2.
ForveriAnker Jørgensen
EftirmaðurPoul Nyrup Rasmussen
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. apríl 1929
Tønder, Danmörku
Látinn27. maí 2021 (92 ára) Frederiksberg, Danmörku
StjórnmálaflokkurÍhaldssami þjóðarflokkurinn
MakiMajken Steen-Andersen (g. 1963; sk. 1978)
Lisbeth Povelsen (g. 1979; d. 1988)
Anne Marie Vessel Schlüter (g. 1989)
HáskóliÁrósaháskóli
Kaupmannahafnarháskóli

Uppvöxtur og starfsferill

breyta

Poul Schlüter fæddist í bænum Tønder í suðurhluta Jótlands, útskrifaðist með gráðu í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1957 og hlaut lögmannsréttindi árið 1960. Schlüter varð formaður Ungra íhaldsmanna, ungliðahreyfingar danska Íhaldssama þjóðarflokksins, árið 1952 og settist í miðstjórn flokksins.[2] Schlüter sat á danska þinginu fyrir Íhaldssama þjóðarflokkinn frá 1964 til 1994. Hann var formaður flokksins frá 1974 til 1977 og frá 1981 til 1993.

Forsætisráðherra (1982–1993)

breyta
 
Poul Schlüter og Lisbeth Schlüter ásamt bandarísku forsetahjónunum Ronald Reagan og Nancy Reagan í Hvíta húsinu þann 10. september 1985.

Árið 1982, eftir að forsætisráðherrann Anker Jørgensen neyddist til að segja af sér, tókst Schlüter að púsla saman fjögurra flokka samsteypustjórn og var útnefndur nýr forsætisráðherra. Stjórn hans gekk undir gælunafninu „fjögurra blaða smárinn“.[3] Á stjórnartíð Schlüters var hann útnefndur „norrænn stjórnmálamaður ársins“ árið 1984. Hann hefur síðan þá hlotið fjölda danskra og alþjóðlegra viðurkenninga og verðlauna.

Schlüter hafði áður setið í Evrópuráðinu frá 1971 til 1974 og hafði stýrt sendinefnd Dana í Norðurlandaráðinu árin 1978 og 1979.

Schlüter neyddist til að segja af sér árið 1993 vegna tamílamálsins svokallaða. Málið snerist um tamíla sem höfðu sótt um pólitískt hæli í Danmörku í samræmi við dönsk lög vegna borgarastyrjaldarinnar á Srí Lanka. Samkvæmt dönskum lögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna áttu útlendingar með landvistarleyfi í Danmörku rétt á að fá landvistarleyfi fyrir fjölskyldur sínar ef öryggi þeirra var í hættu. Þrátt fyrir þetta hafði danska dómsmálaráðuneytið ekki tekið umsóknir tamílskra flóttamanna í Danmörku til umræðu í tvö ár.[4] Eftir að Erik Ninn-Hansen dómsmálaráðherra sagði af sér sneri eftirmaður hans við stefnu hans varðandi umsóknir tamílanna. Schlüter og aðrir danskir ráðamenn voru sakaðir um að hafa reynt að þagga málið niður og hæstaréttardómaranum Mogens Hornslet var falið að rannsaka málið. Í 6.000 blaðsíðna skýrslu sem Hornslet skilaði árið 1993 var Schlüter sakaður um að hafa logið að danska þinginu þegar hann sagði í þingstól árið 1989 að „engu [hefði verið] sópað undir teppið“ í máli tamílanna.[5]

Schlüter sagði af sér vegna skýrslunnar og ríkisstjórn hans hrundi í kjölfarið. Þegar Schlüter sagði af sér reyndi hann að búa svo um hnútana að Uffe Ellemann Jensen (úr Venstre) yrði settur forsætisráðherra til bráðabirgða þar til íhaldsmaðurinn Henning Dyremose gæti tekið við. Þessi tilraun mistókst þar sem drottningarritarinn Niels Eilschou Holm leit á hana sem stjórnarskrárbrot. Þess í stað var Poul Nyrup Rasmussen úr Jafnaðarmannaflokknum skipaður forsætisráðherra eftir viðræður við drottninguna.[6]

Þann 21. júlí 1989, á meðan Schlüter var enn forsætisráðherra, kvæntist hann danska balletdansaranum Anne Marie Vessel.[7]

Seinni æviár

breyta

Eftir afsögn Schlüters árið 1993 sat Schlüter á Evrópuþinginu frá 1994 til 1999 og var varaforseti þess fyrstu þrjú árin.

Árið 2003 útnefndi sænski samstarfsráðherrann í Norðurlandaráði Schlüter sérstakan fulltrúa til þess að efla ferðafrelsi milli Norðurlanda. Schlüter átti að finna leiðir til að efla ferðafrelsi einstaklinga og kynna tillögur fyrir samkomu Norðurlandaráðs í október árið 2003.

Árið 2004 tók Schlüter þátt í stofnun hugveitunnar CEPOS, sem beitir sér fyrir markaðsfrelsi, og flutti opnunarræðu á stofnfundi CEPOS á Hotel D'Angleterre í Kaupmannahöfn.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. Atli Ísleifsson (28. maí 2021). „Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Dan­merkur látinn“. Vísir. Sótt 28. maí 2021.
  2. Páll Pálsson (18. desember 1988). „Bjartsýni landsfaðirinn“. Morgunblaðið. Sótt 30. júní 2019.
  3. Ragnar Garðarsson (31. janúar 1993). „Réttur maður á réttum stað“. Morgunblaðið.
  4. Bjarni Þorsteinsson (18. desember 1988). „Innflutningsbann kostaði fjölda Tamíla lífið“. Alþýðublaðið. Sótt 30. júní 2019.
  5. „Ólíklegt þykir að hægristjórn Schlüters haldi velli“. Morgunblaðið. 15. janúar 1993. Sótt 30. júní 2019.
  6. Klarskov, Kristian (26. maí 2020). „Da ambassadøren måtte råbe ad USA: »Hm, det var ikke helt oppe i 'fuck', vel. Men det var noget i retning af: 'Hvad fanden tænker I på?«“. Politiken (danska). Sótt 26. maí 2020.
  7. Harding, Merete. „Poul Schlüter“ (danska). Gyldendal: Dansk Biografisk Leksikon. Sótt 30. júní 2019.
  8. „Poul Schlüter“ (danska). CEPOS. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. janúar 2011. Sótt 30. júní 2019.


Fyrirrennari:
Anker Jørgensen
Forsætisráðherra Danmerkur
(10. september 198225. janúar 1993)
Eftirmaður:
Poul Nyrup Rasmussen


  NODES
Done 1
eth 2