Rússland

ríki og land í Evrópu og Asíu

Rússland (rússneska: Росси́я, umritun: Rossíja), formlegt heiti Rússneska sambandsríkið (rússneska: Росси́йская Федера́ция, umritun: Rossíjskaja federatsíja), er víðfeðmt land í Austur-Evrópu og Norður-Asíu. Landið er það langstærsta að flatarmáli í heiminum, yfir 17 milljón ferkílómetrar, nær yfir 11 tímabelti og þekur 8. hluta af þurrlendi Jarðarinnar. Það er nánast tvöfalt stærra en Kanada sem er næststærst. Rússland á landamæri að 16 öðrum ríkjum. Landið er einnig það níunda fjölmennasta í heiminum og fjölmennasta Evrópulandið. Höfuðborgin, Moskva, er stærsta borg Evrópu. Önnur stærsta borg landsins er Sankti Pétursborg. Rússar eru fjölmennasti hópur Slava og rússneska er það slavneska mál sem hefur langflesta málhafa.

Rússneska sambandsríkið
Российская Федерация
Fáni Rússlands Skjaldarmerki Rússlands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Sálmur rússneska sambandsins
Staðsetning Rússlands
Höfuðborg Moskva
Opinbert tungumál Rússneska (ásamt ýmsum öðrum tungumálum í einstökum héruðum)
Stjórnarfar Sambandslýðveldi

Forseti Vladímír Pútín
Forsætisráðherra Míkhaíl Míshústín
Sjálfstæði við hrun Sovétríkjanna
 • Yfirlýst 12. júní 1990 
 • Viðurkennt 25. desember 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
1. sæti
17.098.246 km²
13
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
9. sæti
146.171.015
8,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 4.328 millj. dala (6. sæti)
 • Á mann 29.485 dalir (50. sæti)
VÞL (2019) 0.824 (52. sæti)
Gjaldmiðill Rúbla (RUB)
Tímabelti UTC+3 til +12
Þjóðarlén .ru
Landsnúmer +7

Austur-Slavar komu fram á sjónarsviðið sem sérstök Evrópuþjóð milli 3. og 8. aldar. Á 9. öld stofnuðu norrænir víkingar Garðaríki í kringum borgirnar Hólmgarð (Novgorod) og Kænugarð (Kyjív). Árið 988 tók Garðaríki upp grískan rétttrúnað undir áhrifum frá Austrómverska ríkinu. Býsantíum hafði mikil menningarleg áhrif á Rússland næstu aldirnar. Garðaríki tók að leysast upp á 12. öld og furstadæmin urðu að skattlöndum Mongóla eftir að þeir réðust á þau á 13. öld. Stórhertogadæmið Moskva efldist á 15. öld og lagði undir sig norðurhluta hins forna Gaðraríkis. Ívan grimmi tók upp titillinn tsar (keisari) og stofnaði Rússneska keisaradæmið á 16. öld. Með landkönnun og landvinningum um alla Asíu varð Rússaveldi þriðja stærsta heimsveldi sögunnar. Eftir rússnesku byltinguna varð Rússland mikilvægasta sambandslýðveldi Sovétríkjanna. Landið átti stóran þátt í sigri Bandamanna í síðari heimsstyrjöld og varð risaveldi sem keppti við Bandaríkin um alþjóðleg áhrif á tímum kalda stríðsins. Eftir upplausn Sovétríkjanna árið 1991 fékk Rússland sjálfstæði sem sambandsríki. Eftir stjórnarskrárkreppuna 1993 varð landið í auknum mæli að forsetaræði. Vladímír Pútín hefur haft þar mest völd frá aldamótunum 2000. Ríkisstjórn hans hefur verið sökuð um alræðistilburði, mannréttindabrot og spillingu. Pútín tilkynnti sérstaka hernaðaraðgerð til að afvopna og afnasistavæða Úkraínu í febrúar 2022, og bannar að nota orðið stríð yfir það (og þúsundum mótmælenda sem nota það orð hafa verið stungið í fangelsi fyrir það og Rússland skilgreint Facebook (og Meta, fyrirtækið sem á Facebook og Instagram) sem öfgasamtök [1]), en alþjóðasamfélagið (þar á meðal Ísland) kallar það stríð og innrás Rússa í Úkraínu 2022.

Rússland er stórveldi á alþjóðavísu þótt það sé ekki sama risaveldið og Sovétríkin voru áður. Landið situr hátt á Vísitölu um þróun lífsgæða, þar er almenn heilbrigðisþjónusta og ókeypis háskólamenntun. Hagkerfi Rússlands er það 11. stærsta í heimi og það 6. stærsta kaupmáttarjafnað. Rússland er kjarnorkuveldi sem á mesta safn kjarnavopna í heimi og ræður yfir öðrum öflugasta her í heimi. Landið er í fjórða sæti yfir fjárveitingar til hermála. Rússland býr yfir miklum olíu- og gaslindum. Landið á fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, á aðild að G20, Samvinnustofnun Sjanghæ, Efnahagssamstarfi Asíu- og Kyrrahafsríkjanna, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðlega fjárfestingarbankanum og Alþjóðaviðskiptastofnuninni, auk þess að vera leiðandi í Samveldi sjálfstæðra ríkja, Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni og Evrasíska efnahagssambandinu. Rússland er í níunda sæti yfir fjölda heimsminja.

Þjóðaheitið Rússar (Русь Rusj) var upphaflega heiti á norrænum mönnum, víkingum frá Eystrasalti og væringjum frá Miklagarði, sem stofnuðu Garðaríki í kringum borgirnar Hólmgarð og Kænugarð á miðöldum. Orðið er hugsanlega dregið af finnska orðinu Ruotsi yfir Svía frá Roslagen, skylt sögninni „að róa“. Latneska útgáfan Rúþenía var algengara heiti yfir lönd Austur-Slava þar sem nú eru Rússland og Úkraína á Vesturlöndum á miðöldum og síðar. Latneska heitið Moscovia var líka áfram notað á Vesturlöndum, þótt Stórhertogadæmið Moskva yrði formlega séð fyrst Stórfurstadæmið Rússland og síðan Keisaradæmið Rússland.

Núverandi heiti landsins Россия (Rossija) er dregið af gríska heitinu Ρωσσία (Róssía) sem var notað í Austrómverska ríkinu yfir Garðaríki. Þessi útgáfa heitisins komst fyrst í notkun á 15. öld eftir að Ívan mikli hafði sameinað nokkur af fyrrum löndum Garðaríkis og titlaði sig „stórfursta alls Rúsj“. Á 17. öld voru lönd kósakka þar sem Úkraína er nú kölluð Malorossija („Litla Rússland“) og löndin við Svartahaf sem Rússar unnu af Tyrkjaveldi voru kölluð Novorossija („Nýja Rússland“). Vesturhluti hins forna Garðaríkis varð hluti Stórfurstadæmisins Litáens og skiptist í Hvíta-Rússland (austurhluti núverandi Hvíta-Rússlands), Svarta-Rússland (vesturhluti núverandi Hvíta-Rússlands) og Rauða-Rússland (vesturhluti núverandi Úkraínu og suðausturhluti núverandi Póllands).

Þau víðerni sem Rússland nútímans þekur voru áður byggð ýmsum ósamstæðum ættbálkum sem sættu stöðugum innrásum Húna, Gota og Avara á milli þriðju og sjöttu aldar eftir Krist. Fram á 8. öld bjuggu Skýþar, írönsk þjóð, á gresjunum þar sem nú er sunnanvert Rússland og Úkraína og vestar bjó tyrknesk þjóð, Kasarar en þessir þjóðflokkar viku fyrir sænskum víkingum sem kallaðir voru Væringjar og Slövum sem þá voru teknir að flytjast á svæðið. Væringjar stofnuðu Garðaríki með höfuðborg í Hólmgarði og runnu síðar saman við slavana sem urðu fljótlega fjölmennasti þjóðflokkurinn þar.

Garðaríki stóð í nokkrar aldir og á þeim tíma tengdist það rétttrúnaðarkirkjunni og flutti höfuðborg sína til Kænugarðs árið 1169. Á þessum tíma var fyrst farið að nota orðin „Rhos“ eða „Russ“, bæði um Væringjana og Slavana. Á 9. og 10. öld var þetta ríki hið stærsta í Evrópu og einnig var það auðugt vegna verslunarsambanda sinna við bæði Evrópu og Asíu.

Á 13. öld var svæðið illa leikið af innbyrðis deilum sem og innrásum úr austri, bæði af hendi Mongóla og íslömskum, tyrkneskumælandi hirðingjum sem áttu eftir að valda miklum óskunda á svæðinu næstu þrjár aldirnar. Þeir gengu einnig undir nafninu Tatarar og réðu lögum og lofum í mið- og suðurhluta Rússlands á meðan vesturhluti þess féll undir yfirráð Pólsk-litháenska samveldisins. Upplausn Garðaríkis leiddi til þess að aðskilnaður varð milli Rússa sem bjuggu norðar og austar og Úkraínumanna og Hvítrússa í vestri og þessi aðskilnaður hefur haldist fram á þennan dag.

Norður-Rússland og Hólmgarður nutu einhverrar sjálfstjórnar á valdatíma mongóla og þessi svæði sluppu betur undan þeirri skálmöld sem ríkti annars staðar í landinu. Íbúarnir þar þurftu þó að kljást við þýska krossfara sem reyndu að leggja undir sig svæðið.

Líkt og á Balkanskaga og í Litlu Asíu varð langvarandi valdaskeið hirðingja til þess að hægja mikið á efnahagslegri og félagslegri þróun landsins. Þrátt fyrir það náðu Rússar að rétta úr kútnum ólíkt býsanska keisaradæminu sem var andlegur leiðtogi þeirra, ráðast gegn óvinum sínum og leggja lönd þeirra undir sig. Eftir að Konstantínópel féll árið 1453 var Rússland eina burðuga kristna ríkið í Austur Evrópu og það gat því litið á sig sem arftaka Austrómverska ríkisins.

Rússneska keisaradæmið

breyta

Þrátt fyrir að vera enn þá að nafninu til undir yfirráðum Mongóla tók hertogadæmið Moskva að auka áhrif sín og seint á 14. öld losnaði það alveg undan yfirráðum innrásarþjóðanna. Ívan grimmi sem var fyrsti leiðtoginn sem krýndur var keisari Rússlands hélt útþenslustefnunni áfram og náði nærliggjandi héruðum undir stjórn Moskvu og lagði svo undir sig víðerni Síberíu og Rússneska keisaraveldið varð til. Því næst komst Rómanovættin til valda, fyrsti keisari hennar var Mikael Rómanov sem krýndur var 1613. Pétur mikli ríkti frá 1689 til 1725 en hann færði Rússland nær Vestur-Evrópu og sótti þangað hugmyndir og menningu til að draga úr áhrifum hirðingjamenningar sem hafði hafði haldið aftur af efnahagslegri framþróun landsins. Katrín mikla (valdatíð: 1767-1796) lagði áfram áherslu á þessi atriði og Rússland var nú stórveldi, ekki bara í Asíu heldur einnig í Evrópu þar sem það stóð nú jafnfætis löndum eins og Englandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Stöðugur órói var þó viðloðandi meðal ánauðugra bænda og niðurbældra menntamanna og við upphaf Fyrri heimsstyrjaldar virtist staða þáverandi keisara Nikulásar 2. og keisaradæmisins vera fremur óviss. Miklir ósigrar rússneska hersins í stríðinu kyntu undir uppþotum í stærri borgum sem að lokum leiddu til þess að Rómanovættinni var steypt af stóli 1917 í uppreisn kommúnista.

Rússneska byltingin og Sovétríkin

breyta

Undir lok þessarar byltingar tók bolsévika-armur Kommúnistaflokksins öll völd undir stjórn Vladimirs Leníns og Sovétríkin voru stofnuð en rússneska sovétlýðveldið var þungamiðja þeirra. Undir stjórn Jósefs Stalíns var landið iðnvætt með hraði og samyrkjubúskapur tekinn upp í landbúnaði, fyrirkomulag sem kostaði tugi milljóna mannslífa. Í valdatíð hans tóku Sovétríkin þátt í síðari heimsstyrjöldinni gegn Þýskalandi en mannfall var geypilegt í stríðinu, bæði meðal hermanna og almennra borgara.

Að stríðinu loknu öðluðust Sovétríkin mikil áhrif í Austur-Evrópu og komu þar til valda leppstjórnum kommúnista í mörgum ríkjum og stofnuðu Varsjárbandalagið með þeim sem beint var gegn Atlantshafsbandalagi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra en þessi tvö ríki voru nú einu risaveldin í heiminum og börðust um hugmyndafræði, völd og áhrif í Kalda stríðinu svokallaða sem braust í raun aldrei út í beinum vopnuðum átökum þessara tveggja ríkja en á milli þeirra ríkti ógnarjafnvægi sem byggði á stórum kjarnorkuvopnabúrum beggja aðila. Á áratugunum eftir fráfall Stalíns stöðnuðu Sovétríkin efnahagslega og félagslega og reynt var að slaka á kjarnorkuviðbúnaðinum en þeir voru einnig tímabil mikilla afreka hjá Sovéskum vísindamönnum.

Endalok Sovétríkjanna

breyta

Um miðjan 9. áratuginn kynnti þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Míkhaíl Gorbatsjov tillögur sínar glasnost (opnun) og perestroika (endurskipulagning) í þeim tilgangi að nútímavæða kommúnismann en óviljandi leystu þær úr læðingi öfl sem tvístruðu Sovétríkjunum í 15 sjálfstæð ríki í desember 1991, Rússland langstærst þeirra. Rússland hefur síðan þá verið að reyna að byggja upp lýðræðislega stjórnunarhætti og markaðshagkerfi en gengur hægt. Skömmu eftir fall Sovétríkjanna tók að bera á þjóðernisdeilum á meðal sumra þeirra fjölmörgu þjóðernishópa sem búa innan landamæra Rússlands og á stöðum eins og Téténíu og Norður-Ossetíu braust út skæruhernaður sem entist í mörg ár.

Landfræði

breyta
 
Landslagskort af Rússlandi.

Rússland nær yfir stóra hluta tveggja heimsálfa, Evrópu og Asíu.[2] Landið nær yfir nyrsta hluta Evrasíu og á fjórðu lengstu strandlengju heims, 37.653 km að lengd.[3] Rússland er á milli 41. og 82. breiddargráðu norður og 19. lengdargráðu austur og 169. lengdargráðu vestur. Landið er raunar stærra en þrjár heimsálfur: Eyjaálfa, Evrópa og Suðurskautslandið,[4] og er um það bil jafnstórt og yfirborð Plútós.[5]

Vestasti hluti Rússlands er útlendan Kalíníngrad við Eystrasalt, sem er um 9.000 km frá austasta hluta landsins, Stóru Díómedeseyju í Beringssundi.[6] Í suðurhluta landsins er stór hluti Kákasusfjalla með Elbrusfjalli, sem er hæsti tindur Rússlands í 5.642 metra hæð; Altaífjöll og Sajanfjöll er að finna í Síberíu; og Austur-Síberíufjöll og fjöllin á Kamsjatka í Austurlöndum Rússlands.[7] Úralfjöll liggja frá norðri til suðurs í vesturhluta Rússlands og skilgreina mörk Evrópu og Asíu.[8]

Ásamt Kanada er Rússland annað tveggja landa sem á strönd að þremur úthöfum,[2] auk þess að tengjast yfir þrettán randhöfum.[6] Helstu eyjar og eyjaklasar Rússlands eru Novaja Semlja, Frans Jósefsland, Severnaja Semlja, Nýju Síberíueyjar, Wrangel-eyja, Kúrileyjar og Sakalín.[9][10] Sundið milli Díómedeseyja þar sem landhelgi Rússlands og Bandaríkjanna (Alaska) mætast, er aðeins 3,8 km að breidd,[11] og eyjan Kúnasjír (Kúrileyjar) er aðeins 20 km frá Hokkaídó í Japan.

Í Rússlandi eru yfir 100.000 ár[2] og landið ræður yfir einum mesta vatnsforða heims. Stöðuvötn í Rússlandi geyma um fjórðung ferskvatnsbirgða heims.[7] Bajkalvatn er stærsta stöðuvatn Rússlands. Það er dýpsta, elsta og vatnsmesta stöðuvatn heims[12] og geymir um fimmtung alls ferskvatns á yfirborði Jarðar.[7] Ladogavatn og Onegavatn í norðvesturhluta Rússlands eru tvö af stærstu vötnum Evrópu.[2] Rússland er í öðru sæti á eftir Brasilíu yfir mesta endurnýjanlega vatnsforða heims.[13] Volga er lengsta fljót Evrópu.[14] Í Síberíu eru Ob, Jenisej, Lena og Amúrfljót með lengstu fljótum heims.[14]

Stjórnsýsluskipting

breyta
 
Stjórnsýsluskipting af Rússlandi.
Sjálfstjórnarborgir Fáni mannfjöldi
Moskva   13.010.112
Sankti Pétursborg   5.601.911
Svæði/fylki og Lýðveldi Fáni höfuðborg mannfjöldi
Adigea   Majkop 496.934
Altaífylki   Barnaúl 2.163.693
Altaíska lýðveldið   Gorno-Altajsk 210.924
Amúrfylki   Blagovestsjensk 766.912
Arkhangelskfylki   Arkhangelsk 978.873
Astrakhanfylki   Astrakhan 960.142
Basjkortostan   Úfa 4.091.423
Belgorodfylki   Belgorod 1.540.486
Brjanskfylki   Brjansk 1.169.161
Búrjatía   Úlan-Úde 978.588
Téténía   Grozníj 1.510.824
Tsjeljabínskfylki   Tsjeljabínsk 3.431.224
Tsjúkotkaumdæmi   Anadyr 47.490
Tsjúvashíja   Tsjeboksary 1.186.909
Dagestan   Makhatsjkala 3.182.054
Ingúsetía   Magas 509.541
Írkútskfylki   Írkútsk 2.370.102
Ívanovofylki   Ívanovo 927.828
Hebreska sjálfstjórnarfylkið   Bírobídzhan 150.453
Kabardíno-Balkaríja   Naltsjík 904.200
Kalíníngradfylki   Kalíníngrad 1.029.966
Kalmykíja   Elísta 267.133
Kalúgafylki   Kalúga 1.069.904
Kamtsjatkafylki   Petropavlovsk-Kamtsjatskíj 291.705
Karatsjaj-Tsjerkessíja   Tsjerkessk 469.865
Karelíja   Petrozavodsk 533.121
Kemerovofylki   Kemerovo 2.600.923
Khabarovskfylki   Khabarovsk 1.292.944
Khakassíja   Abakan 534.795
Khanty–Mansíumdæmi   Khanty-Mansíjsk 1.711.480
Kírovfylki   Kírov 1.153.680
Lýðveldið Komi   Syktyvkar 737.853
Kostromafylki   Kostroma 580.976
Krasnodarfylki   Krasnodar 5.838.273
Krasnojarskfylki   Krasnojarsk 2.856.971
Kúrganfylki   Kúrgan 776.661
Kúrskfylki   Kúrsk 1.082.458
Leníngradfylki   Gattsjína 2.000.997
Lípetskfylki   Lípetsk 1.143.224
Magadanfylki   Magadan 136.085
Maríj El   Joshkar-Ola 677.097
Mordóvía   Saransk 783.552
Moskvufylki   Balashíkha 8.524.665
Múrmanskfylki   Múrmansk 667.744
Nenetsía   Narjan-Mar 41.434
Nízhníj-Novgorodfylki   Nízhníj Novgorod 3.119.115
Norður-Ossetía-Alanía   Vladíkavkaz 687.357
Novgorodfylki   Velíkíj Novgorod 583.387
Novosíbírskfylki   Novosíbírsk 2.797.176
Omskfylki   Omsk 1.858.798
Orenbúrgfylki   Orenbúrg 1.862.767
Orjolfylki   Orjol 713.374
Pensafylki   Pensa 1.266.348
Permfylki   Perm 2.532.405
Prímorja   Vladívostok 1.845.165
Pskovfylki   Pskov 599.084
Rostovfylki   Rostov við Don 4.200.729
Rjazanfylki   Rjazan 1.102.810
Sakha (Jakútía)   Jakútsk 995.686
Sakhalínfylki   Júzhno-Sakhalínsk 466.609
Samarafylki   Samara 3.172.925
Saratovfylki   Saratov 2.442.575
Smolenskfylki   Smolensk 888.421
Stavropolfylki   Stavropol 2.907.593
Sverdlovskfylki   Jekaterínbúrg 4.268.998
Tambovfylki   Tambov 982.991
Tatarstan   Kazan 4.004.809
Tomskfylki   Tomsk 1.062.666
Túlafylki   Túla 1.501.214
Túva   Kyzyl 336.651
Tverfylki   Tver 1.230.171
Tjúmenfylki   Tjúmen 1.601.940
Údmúrtía   Ízhevsk 1.452.914
Úljanovskfylki   Úljanovsk 1.196.745
Vladímírfylki   Vladímír 1.348.134
Volgogradfylki   Volgograd 2.500.781
Vologdafylki   Vologda 1.142.827
Voronezhfylki   Voronezh 2.308.792
Jamalía   Salekhard 510.490
Jaroslavlfylki   Jaroslavl 1.209.811
Zabajkalfylki   Zabajkalsk 1.004.125

Svæði sem Rússland gerir tilkall til

breyta

Auk lögbundinna yfirráðasvæða Rússlands gerir ríkið tilkall til ýmissa landsvæða í Úkraínu sem Rússar hafa lagt undir sig í stríði ríkjanna frá árinu 2014. Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 og viðhalda þar fullum yfirráðum. Stjórn Rússlands tilkynnti um innlimun fylkjanna Donetsk. Lúhansk. Kherson og Zaporízjzja á tíma innrásarinnar í Úkraínu árið 2022. Rússar hafa nær fulla stjórn á Donetsk en ráða aðeins um helmingi af hinum þremur fylkjunum.

Flest ríki viðurkenna ekki tilkall Rússlands til þessara svæða og líta á stjórn þeirra þar sem ólöglegt hernám. Víðast hvar er litið á þau sem lögmætan hluta Úkraínu.

Svæði/fylki og lýðveldi Fáni höfuðborg mannfjöldi
Alþýðulýðveldið Donetsk   Donetsk 4.100.280
Khersonfylki   Kherson* 1.016.707
Krímskagalýðveldið   Símferopol 1.934.630
Alþýðulýðveldið Lúhansk   Lúhansk 2.121.322
Sevastopol   - 547.820
Zaporízjzja-fylki   Zaporízjzja* 1.666.515

* Borgirnar Kherson og Zaporízjzja eru undir yfirráðum Úkraínumanna þrátt fyrir að Rússar segist hafa innlimað þær sem fylkishöfuðborgir samnefndra fylkja.

Borgir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Russian War Report: Meta officially declared "extremist organization" in Russia“. Atlantic Council (bandarísk enska). 21. mars 2022. Sótt 5. apríl 2022.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Russia. Sótt 26. maí 2021.
  3. „Coastline - The World Factbook“. Central Intelligence Agency. Sótt 27. júní 2021.
  4. Taylor, Callum (2. apríl 2018). „Russia is huge, and that's about the size of it“. Medium. Sótt 6. júlí 2021. „Russia takes up 17,098,250 square kilometres, roughly one-eighth of the world's total land mass. That's larger than the entire continent of Antarctica...“
  5. Clark, Stuart (28. júlí 2015). „Pluto: ten things we now know about the dwarf planet“. The Guardian. Sótt 20. júní 2021. „Pluto's diameter is larger than expected at 2,370 kilometres across. This is about two-thirds the size of Earth's moon, giving Pluto a surface area comparable to Russia.“
  6. 6,0 6,1 Glenn E. Curtis (ed.) (1998). „Global Position and Boundaries“. Washington, D.C.: Federal Research Division of the Library of Congress. Sótt 8. júlí 2021.
  7. 7,0 7,1 7,2 Glenn E. Curtis (ed.) (1998). „Topography and Drainage“. Washington, D.C.: Federal Research Division of the Library of Congress. Sótt 8. júlí 2021.
  8. „The Ural Mountains“. NASA Earth Observatory. Sótt 27. maí 2021.
  9. „Russia“. The Arctic Institute – Center for Circumpolar Security Studies. Sótt 27. júní 2021.
  10. Aziz, Ziryan (28. febrúar 2020). „Island hopping in Russia: Sakhalin, Kuril Islands and Kamchatka Peninsula“. Euronews. Sótt 27. júní 2021.
  11. „Diomede Islands – Russia“. Atlas Obscura. Sótt 27. júní 2021.
  12. „Lake Baikal—A Touchstone for Global Change and Rift Studies“. United States Geological Survey. Sótt 26. desember 2007.
  13. „Total renewable water resources“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 9. júlí 2021.
  14. 14,0 14,1 „Russia's Largest Rivers From the Amur to the Volga“. The Moscow Times. 15. maí 2019. Sótt 26. maí 2021.
  NODES
Chat 1
Done 5
News 1
see 2