Sögulegur tími
Sögulegur tími er sá hluti mannkynssögunnar sem ritaðar heimildir eru til um.
Mannkynssögunni er skipt í sögulegan tíma og forsögulegan tíma. Skilin þar á milli miðast við upphaf ritaðra heimilda, sem komu ekki fram á sama tíma alls staðar. Því hefst sögulegur tími ekki alls staðar samtímis. Elstu ritaðar heimildir, fleygrúnir, eru frá Súmer, eða Mesópótamíu, frá því 3000-3500 f.Kr., sem kallast fornöld.
Á Íslandi hefst sögulegur tími við landnám Íslands. Að vísu eru ekki til ritaðar samtímaheimildir um landnámið, en greint er frá því í fornum ritum, t.d. Landnámabók og Íslendingabók, sem skráðar eru 200-250 árum eftir landnámið. Þær eru samt taldar geyma all áreiðanlegar sagnir frá landnámsöld.