Siðmennt
Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi er íslenskt lífsskoðunarfélag sem var stofnað árið 1990. Félagið er málsvari mannúðarstefnu eða húmanisma, öllu heldur veraldlegs húmanisma og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir borgaralegum athöfnum. Meðlimir eru nálægt 6.000.
Siðmennt | |
Stofnað | 1990 |
Forseti | Inga Auðbjörg K. Straumland (formaður) |
Varaforseti | Sigurður Rúnarsson (varaformaður) |
Heimilisfang | Laugavegur 178 |
Vefsíða | https://sidmennt.is |
Árið 2013 hlaut félagið skráningu sem veraldlegt lífskoðunarfélag en breyting á lögum um skráð trú- og lífskoðunarfélög gerði skráninguna mögulega. Með skráningu sem veraldlegt lífsskoðunarfélag er Siðmennt skráð hjá Þjóðskrá og er hægt að skrá sig þar sem félagsmann Siðmenntar en við það renna sóknargjöld frá ríkinu til félagsins. [1]
Athafnir
breytaSiðmennt hefur skipulagt borgaralega fermingu með tilheyrandi námskeiði frá árinu 1990 en slíkar fermingar voru fyrst haldnar 1989 fyrir tilstuðlan Hope Knútsson sem síðar varð formaður Siðmenntar. [2] Félagið hefur leiðbeint fólki um fleiri athafnir svo sem borgaralega útför og nafngjöf án skírnar og hefur gefið út bæklinga í því skyni. Árið 2008 hóf Siðmennt athafnaþjónustu sína við aðrar athafnir en fermingu. [3]
Félagið menntar athafnastjóra með sérstöku námskeiði er varðar borgaralegar eða veraldlegar athafnir. [4]
Afstaða, umræða og starfsemi
breytaFélagið hefur staðið fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast mannúðarstefnu, siðrænum húmanisma eða borgaralegum athöfnum. Má þar nefna málefni eins og stefnu félagsins, trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, trúarskoðanir Schuberts, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, dánaraðstoð, hugsanlegt trúfélag trúlausra, um erlend félög siðrænna húmanista, tjáningarfrelsi, múslima o.fl.
Siðmennt tekur yfirleitt ekki beina afstöðu í stjórnmálum og félagsmálum. Þó er það ósk félagsins að jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðana og styður það aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi. Einnig hefur félagið látið til sín taka varðandi mannréttindamál eins og tjáningarfrelsi.
Siðmennt hefur frá 2009 haldið hugvekju við setningu Alþingis fyrir þá Alþingismenn sem hafa ákveðið að velja þann valkost fram yfir messu í Dómkirkjunni. [5]
Frá 2005 hefur Siðmennt árlega veitt húmanistaviðurkenningu og fræðslu- og vísindaviðurkenningu.
Árið 2015 var framkvæmdastjóri ráðinn til að sinna verkefnum félagsins og var skrifstofa opnuð á Hallveigarstöðum í Túngötu, Reykjavík.[6].
Í byrjun árs 2016 kom út könnun sem Siðmennt lét framkvæma fyrir sig um lífsskoðun Íslendinga. Niðurstöður könnunarinnar bentu til þess að veraldlegar lífsskoðanir séu í mikilli sókn á Íslandi.[7]
Félagið er með tengsl við önnur félög veraldlegra húmanista eins og Human-Etisk Forbund í Noregi og British Humanist Association í Bretlandi. Einnig er það meðlimur í alþjóðasamtökum húmanista International Humanist and Ethics Union (IHEU).
Meðlimir
breytaÞann 3. maí 2013 þegar félagið hlaut skráningu sem veraldlegt lífskoðunarfélag voru meðlimir um 300. 1. janúar 2016 var meðlimafjöldi kominn í 1.456. Meðlimir voru um 6.058 1. október 2024 eða um 1,5 % mannfjöldans. [8]
Meðlimafjöldi
breytaÁr | Fjöldi |
---|---|
2014 | 612 |
2015 | 1.020 |
2016 | 1.456 |
2017 | 1.769 |
2018 | 2.329 |
2019 | 2.840 |
2020 | 4.039 |
2022 | 4.621 |
2024 | 5.809 |
Tilvísun
breyta- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2013. Sótt 6. september 2015.
- ↑ http://www.visindavefur.is/svar.php?id=56637
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. september 2015. Sótt 26. september 2015.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. mars 2014. Sótt 6. september 2015.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2016. Sótt 8. september 2015.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. júní 2015. Sótt 1. september 2015.
- ↑ Lífsskoðanir Íslendinga og trú Geymt 17 janúar 2016 í Wayback Machine Siðmennt. Skoðað 16. janúar 2016.
- ↑ Skráning í trú og lífsskoðunarfélög fram til 1. okt 2024 Þjóðskrá, sótt 3. nóv 2024
- ↑ „Mannfjöldi eftir trú og lífsskoðunarfélögum 1998–2018“. Reykjavík: Hagstofan. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. nóvember 2020. Sótt 12. október 2016.